Fjallað verður um ný meindýr og sjúkdóma sem hafa gert usla bæði í görðum og skógrækt víða um land að undanförnu á haustmálþingi Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi / FSU sem haldið verður á Reykjum 13. október.
Þar sem var eyðimörk fyrir sextán árum vex nú eik og alls yfir fimmtíu aðrar tegundir og afbrigði trjáa, auk ýmissa runna og fjölæringa. Árið 2013 heyrðist fyrst í skógarþresti á svæðinu. Þar með urðu tré að skógi að mati fjölskyldunnar sem breytt hefur eyðimörk í gróskumikið skóglendi á sextán árum.
Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun á birkifræi hófst formlega í Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit fimmtudaginn 22. september. Um fimmtíu manns, fólk á öllum aldri, kom til að tína fræ og njóta útiveru í skóginum. Alls safnaðist um ein og hálf milljón birkifræja í góðri stemmningu og góðu haustveðri.
Út er komið á vegum EUFORGEN ítarlegt rit um val og meðferð erfðaefnis í plöntuframleiðslu. Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, er meðal höfunda. Ritið er byggt á þeirri sannfæringu að erfðaefnið sé grundvöllurinn að því að koma megi upp hraustum skógum sem geti staðist ógnir sem að þeim steðja og lagað sig að breytingum en um leið fóstrað þróun vistkerfa og treyst tilvist gjöfulla landsvæða. 
Skógræktarfélag Eyfirðinga ríður á vaðið og opnar formlega landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi. Félagið býður fólki að koma í Garðsrárreit í Eyjafirði fimmtudaginn 22. september kl. 17 og tína þar fræ af birki. Verkefnastjóri átaksins verður með fræðslu um birkifræsöfnun og auðvitað verður alvöru skógarstemmning með ketilkaffi á könnunni og safa fyrir börnin.