Fáfarinn, náttúrlegur birkiskógur blandaður reynivið.

Almennt um skóginn

Arnaldsstaðaskógur í Fljótsdal er náttúrlegur birkiskógur blandaður reynivið. Skógurinn hefur verið fáfarinn hingað til, en þetta er lítt snortinn náttúruskógur sem óhætt er að hvetja áhugasama til að sækja heim.

Staðsetning og aðgengi

Arnaldsstaðaskógur er í Suðurdal Fljótsdals. Beygt er af vegi 934 í suðvestur, inn á slóða er liggur norðan megin við Kelduá. Ganga þarf upp bratta hlíð til að komast í skóginn.

Aðstaða og afþreying

Ekkert hefur verið gert í þágu ferðalanga í Arnaldsstaðaskógi. Hér ræður villibjörkin ríkjum.

Saga skógarins

Skógurinn var fyrrum beittur en var friðaður þegar hann komst í eigu Skógræktarinnar árið 1977.

Trjárækt í skóginum

Skógurinn er í 30-300 metra hæð yfir sjó í óvenjumiklum bratta þar sem skriðuföll geta orðið. Meðalhæð birkis er yfir 5 m og hæstu tré eru um 10 m há. Ekkert hefur verið gróðursett í skóginn.

Annað áhugavert

Botngróður er blanda af gras- og blómlendi, geithvönn er víða og óvenjumikil. Göngufólk kemst í návígi við hrikalegt landslag í bröttum skriðum.