Nær allir skógar á Norðurlöndunum hafa verið nytjaðir um langan aldur. Algengt er að spurt sé um áhrif þessara nytja á lofts­lagið – hvort betra sé að nytja skóginn eða nota hann sem kolefnis­forðabúr. Til skemmri tíma er betra fyrir lofts­lagið að láta skóginn vera og leyfa kolefnis­­forð­­a­n­­um að aukast. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að kolefnis­forðinn getur aðeins aukist upp að ákveðnu marki. Þegar trén verða gömul dregur úr nettóvexti þeirra. Tré drepast, viðurinn rotnar og við það losnar kol­tví­sýr­ing­ur aftur út í andrúms­loftið.

Finnskur furuskógur. Ljósmynd: Pétur HalldórssonGamlir skógar binda jafnmikið og þeir losa. Skógur þar sem enginn nettó­vöxtur er hefur engan viðbótarloftslagsávinning í för með sér. Ef við hættum að nýta viðinn í skóginum vaknar sú spurning hvað við eigum að nota í stað pappírs, viðar og lífeldsneytis. Ef svarið er plast, olía, kol og steinsteypa verður það loftslagið sem lýtur í lægra haldi.

Nytjar auka ávinninginn

Ef árlegur nettóvöxtur skógar er nýttur og viðurinn notaður í stað hráefna úr jarðefnum á borð við kol og olíu næst líka loftslagsávinningur. Koltvísýringur sem bundinn hefur verið úr and­rúms­­loft­inu er losaður aftur út í andrúmsloftið í hringrás þar sem ekkert viðbótarkolefni er losað. Öðru máli gegnir ef við notum olíu, kol eða jarðgas, eða ef við framleiðum steinsteypu. Þá aukum við magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðarinnar.

Þegar skógarafurðir eru notaðar sem orkugjafi eða sem hráefni í stað plasts, stáls eða stein­steypu komum við í veg fyrir losun á „nýju“ kolefni út í andrúmsloftið. Slíkt hefur verið kallað mótvægisaðgerðir og er sambærilegt við það þegar koltvísýring sem losnað hefur við brennslu jarðefnaeldsneytis er fargað varanlega, til dæmis með því að binda hann í jarðlögum. Einnig má geyma kolefni lengi með því að búa til úr timbrinu eitthvað varanlegt á borð við timbur­hús eða nytjahluti sem endast lengi.

Hver rúmmetri timburs sem aflað er með skógarhöggi hefur mótvægisáhrif sem samsvara milli 500 og 800 kílóum af koltvísýringi eftir því hvernig viðurinn er notaður.

Árlegur loftslagsávinningur norrænu skóganna

Til lengri tíma er því betra fyrir loftslagið að við nytjum og hirðum um skóginn. Því meira sem skógurinn vex, því meira kolefni binst í honum og því meiri viður fæst til mótvægis. Á land­svæðum með nytjaskógi skiptast á nýhöggvin svæði

sem losa koltvísýring og svæði með uppvaxandi skógi sem binda kolefni. Svo fremi sem vöxt­ur­inn er meiri en það sem af er tekið eykst kolefnisforðinn í skóginum og loftslagsáhrifin sem af hljótast bætast ofan á mótvægisáhrifin sem nýting viðarins hefur í för með sér. Þegar gömul tré sem dregið hafa úr vexti eru felld og ung, þróttmikil tré gróðursett í staðinn eykst nettó­vöxtur skógarins á ný. Skógarnytjar eru því mikilvægasti þátturinn í því að viðhalda miklum vexti.

Línuritið hér að neðan sýnir samanlagðan loftslagsávinning af tvenns konar nýtingar­mögu­leik­um skógar í Suður-Svíþjóð. Í bláu leiðinni er nytjum hætt og allur skógurinn látinn þróast eins og verða vill. Í grænu leiðinni er haldið áfram að hirða um skóginn eins og venjan er og taka af nettóvextinum til nytja.

Munurinn á kolefnisforða friðaðs skógar og samanlögðum loftslagsávinningi nytjaskógar eykst ár frá ári vegna þess að vöxtur friðaða skógarins minnkar en vöxtur í nytjaskóginum er mikill og stöðugur.

Í friðaða skóginum sjáum við að kolefnisbindingin eykst til að byrja með. Við fáum loftslags­ávinning svo framarlega sem viðarmagnið heldur áfram að aukast. Þegar skógurinn eldist minnkar vöxturinn og tré taka að falla. Sum falla í stórviðrum, önnur verða sveppasjúkdómum eða meindýrum að bráð. Smám saman minnkar loftslagsávinningurinn.

Nytjaði skógurinn gefur loftslagsávinning með því að mynda nýjan við í stað þess viðar sem tekinn var úr skóginum til kolefnisjákvæðrar framleiðslu (mótvægis). Jafnframt heldur skóg­ur­inn áfram að vaxa því fullvaxnir reitir eru felldir og nýr, uppvaxandi skógur ræktaður í staðinn. Til lengdar verður samanlagður loftslagsávinningur mun meiri í nytjaskóginum.

Umhirða mikilvæg

Og af því að loftslagsávinningurinn ræðst af vextinum verður ávinningurinn því meiri sem betur er staðið að umhirðu og nytjum skógarins. Mælingar á norrænum skógum sýna að vöxtur í skóg­ar­reit­um getur aukist um 30-100 prósent með því að skipta um trjátegundir, nota kyn­bætt­ar trjáplöntur eða með réttri áburðargjöf. Því meira sem skógurinn vex, því meira stuðlar hann að kolefnishlutlausu samfélagi. Samhliða getum við tekið frá skógasvæði til að vernda líffjölbreytni, samfélaginu til góða eða í öðrum tilgangi.

Loftslagsávinningur norrænu skóganna (bæklingur)

Íslenskir skógar engin undantekning

Í skógi sem ræktaður er í 200 ár má binda nærri tvöfalt meira kolefni með því að nytja skóginn í stað þess að láta hann vaxa óáreittan. Skógfræðingarnir Þröstur Eysteinsson og Lárus Heiðars­son hafa sýnt fram á þetta. Athuganir þeirra á samanlögðum bindingaráhrifum nytja­skóg­ar í samanburði við ónytjaðan skóg sýna að nytjaskógrækt og kolefnisbinding fer mjög vel saman.

Sumir telja að allt tal um kolefnisbindingu með skógrækt sé hálfgert plat ef skóg­ur­inn er nytjaður í leiðinni. Kolefnið sé fjarlægt með timbrinu við skógarhögg og þá sé bindingin orðin að engu. Sé viðurinn brendur til að baka pitsur eða notaður sem kolefnisgjafi í kísilmálmvinnslu er kolefninu skilað aftur út í andrúmsloftið í formi CO2. Sé viðurinn hins vegar flettur í borð og planka og síðan notaður í húsbyggingar eða annað endingargott endist hann í áratugi eða aldir og kolefnið í honum er bundið áfram um það langan tíma, en auðvitað ekki til eilífðar. Dæmið er þó flóknara.

Viður sem kemur í stað jarðkola eða olíu við orkuframleiðslu eða málmvinnslu hefur reyndar loftslagságóða í för með sér þrátt fyrir brennslu hans, því þá er verið að vinna innan hringrásar kolefnis sem fyrir er á yfirborði og í lofthjúpi jarðar í stað þess að bæta kolefni úr jarðlögum inn í hringrásina. Viður sem kemur í stað steinsteypu í byggingum dregur úr gríðarstóru kolefnis­spori steypunnar. Mörg fleiri dæmi mætti nefna. Síðan þarf að taka tillit til áhrifa grisjunar, þáttar jarðvegs og margs fleira. Þetta getur orðið nokkuð flókið reiknisdæmi og því telja sumir lausnina frekar felast í því að gróðursetja til skóga og nytja þá ekki. Það er þó ekki góð lausn til lengri tíma litið. Eftirfarandi mynd sem gildir um íslenska skóga er sambærileg við myndina að ofan.

Kolefnisbinding nytjaðs skógar í samanburði við ónytjaðan skóg. Mynd: Þröstur Eysteinsson

(Mynd: Þröstur Eysteinsson og Lárus Heiðarsson)

Myndin sýnir spá um kolefnisbindingu í lerkiskógi þar sem notaðar voru vaxtarjöfnur til að fram­reikna vöxt og varð til við keyrslu á forritinu IceForest sem Timo Pukkala þróaði miðað við mælingar í íslenskum lerkiskógum, mest á Héraði. Spáin er því raunhæf miðað við vöxt rússa­lerkis við íslenskar aðstæður. Forsendur spárinnar eru annars vegar þær að lerkiskógur sé gróðursettur og síðan látinn eiga sig án nokkurra aðgerða í 200 ár (rauða línan) og hins vegar þær að sams konar skógur sé nytjaður með einni grisjun í hverri lotu, lokafellingu og endur­nýjun yfir sama tímabil (græna línan). Í þeirri meðferð er miðað við að grisjun sé ekki ykja mikil og að lokafelling eigi sér stað þegar vöxtur lerkisins er orðinn hægur. Þannig hámarkast arð­semi og kolefnisbinding verður einnig mikil. Bláa línan sýnir uppsafnaða kolefnisbindingu í nytja­skóg­i­n­um miðað við að megnið af timbrinu úr grisjuninni verði kurlað og eigi því stuttan líftíma en að megnið af timbrinu úr lokafellingunni eigi sér langan líftíma sem borð og plankar í byggingum. Ekki er ágóðinn af því að nota timbur í stað jarðefnaeldsneytis eða steinsteypu tekinn með, en þá næði bláa línan enn hærra.

Nytjar og binding fer mjög vel saman

Á seinni hluta fyrstu aldarinnar hefur skógurinn sem ekki er nytjaður vinninginn í kolefnis­bind­ingu, en eftir það er vöxtur hans orðinn svo hægur að uppsöfnuð kolefnisbinding nytja­skóg­ar­ins verður meiri. Sá munur eykst svo eftir því sem tíminn líður. Eftir tvær aldir er nytja­skóg­ur­inn búinn að binda hér um bil helmingi meira kolefni en skógurinn sem ekki er nytjaður. Niður­stað­an er því ótvíræð. Nytjaskógrækt og kolefnisbinding fer mjög vel saman.