Lat: Tsuga

Þöll (fræðiheiti: Tsuga) er ættkvísl nokkurra tegunda sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Þallartegundir eru átta til tíu talsins og finnast fjórar í Norður-Ameríku og fjórar til sex í Austur-Asíu.

Meira um

Þöll óx í Evrópu fram að síðasta jökulskeiði en sú er nú útdauð. Þallir eru aðlagaðar tempruðu loftslagi nema fjallaþöllin, sem er háfjallategund, sker sig nokkuð úr og telst til sérstakrar undirættkvíslar.

Þallir eru ekki þekktar fyrir að vera sérstaklega hávaxnar en þær eru langlífar og geta stofnar þeirra orðið mjög sverir með tímanum. Þær eru mjög skuggþolnar og geta lifað öldum saman undir skermi hávaxnari trjáa, þar sem þær fjölga sér og skapa að lokum svo mikinn skugga að engar aðrar tegundir fá þrifist. Þannig geta þallir orðið ríkjandi þegar hærri trén drepast loks úr elli. Slíkt gerist þó eingöngu í skógum sem eru lausir við teljandi rask svo öldum skiptir.

Eftir því sem maðurinn hefur meiri áhrif á umhverfið fækkar eldgömlum ósnortnum skógum og þallir eiga í vök að verjast. Asísku tegundirnar eru allar sjaldgæfar, útbreiðsla tveggja tegunda í austanverðri Norður-Ameríku dvínar ört og marþöllinni á vesturströndinni fækkar einnig. Á móti kemur að marþöll fjölgar sér auðveldlega í Vestur-Evrópu og er af sumum talin ágeng þar. Einungis fjallaþöllin er enn tiltölulega algeng í heimkynnum sínum af því hvað hún vex hátt til fjalla.

Þallir eru erfiðar í ræktun hérlendis því þær þurfa nánast algjört skjól í æsku. Helst er að koma þeim fyrir í víðáttumiklum skógum. Takist að koma þeim til eru þó bæði fjallaþöll og marþöll frá Alaska ágætlega aðlagaðar íslensku loftslagi.