Tækninni fleygir stöðugt fram og nú er svo komið að auðvelt er fyrir skógarbændur og aðra skógræktendur að hnita upp jafnóðum allar framkvæmdir sem unnið er að á skógræktarsvæðum. Auk hefðbundinna GPS-tækja er nú auðvelt að nýta smáforrit sem fáanleg eru í snjallsíma. Stefna Skógræktarinnar er að skógarbændur sjái sjálfir um þessa kortlagningu.

Tækninni fleygir stöðugt fram og nú er svo komið að auðvelt er fyrir skógarbændur og aðra skógræktendur að hnita upp jafnóðum allar framkvæmdir sem unnið er að á skógræktarsvæðum. Auk hefðbundinna GPS-tækja er nú auðvelt að nýta smáforrit sem fáanleg eru í snjallsíma. Stefna Skógræktarinnar er að skógarbændur sjái sjálfir um þessa kortlagningu.

Einkum er hér átt við gróðursetningar. Í þeim leiðbeiningum sem hér fylgja í pdf-skrá er farið yfir þær tæknilegu leiðir sem færar eru til að skrá gróðursetningar jafnóðum.

Farið er í gegnum hvernig skrá má staðsetningu svæðis sem gróðursett er í og hvernig þessum upplýsingum skuli skilað til skógræktarráðgjafa Skógræktarinnar. Lýst er tveimur gerðum af GPS-tækjum. Einnig er bent á smáforrit sem setja má upp í snjallsíma. Skógræktin hefur jafnframt gefið út myndband sem gott er að horfa á til að glöggva sig á aðferðinni.

Tækni og hugbúnaður

Miklar framfarir hafa orðið síðastliðin ár í gerð staðsetningarforrita og smáforrita fyrir síma og önnur snjalltæki sem hafa mörg hver kosti umfram hin hefðbundnu GPS-tæki.

Algengasta aðferðin til að skiptast á GPS-gögnum er sú að skrár séu vistaðar á svokölluðu GPX-sniði. Það er sérstaklega hannað til að senda GPS-staðsetningar milli forrita og tækja. GPX-sniðið heldur utan um öll þau gögn sem safnað er.

Tveimur leiðum er lýst í leiðbeiningunum.

1. Að nota GPS-tæki. Algengustu GPS-tækin á markaðnum eru af gerðinni Garmin. Í leiðbeiningunum er farið í gegnum tvær mismunandi aðferðir við að ná gögnum út úr GPS-tækjum eftir því hvort um er að ræða eldri útgáfur eða þær nýrri.

2. Að nota snjallsíma. Lýst er notkun á smáforritinu (appinu) Avenza sem nota má til að hnita útlínur gróðursetninga (hnit/ferill/„trakk“). Þetta forrit má setja upp ókeypis í símtækinu.

a) Avenza. Þetta forrit hefur þann kost að það vinnur með PDF-kort sem bakgrunn og þannig getur skógarbóndi haft stafrænt kort af skógræktarsvæði sínu í símanum og staðsett sig á því. Hægt að hnita inn útlínur gróðursetninga og skrá við hnituðu línuna grunnupplýsingar um gróðursetninguna. Vista skal línuna sem GPX-skrá og senda hana til skógræktarráðgjafa.

b) Önnur smáforrit. Til eru mörg önnur smáforrit eða öpp sem hægt er að nota til að hnita línur, vista hnitin á GPX-formi og senda skrárnar. Ef fólk er vant að nota slík smáforrit er sjálfsagt að nota þau áfram. Þar má t.d. nefna smáforritin Geo Tracker og Strava.

Flestir nýir símar notast annað hvort við Android-stýrikerfi (Samsung, LG, Sony o.fl.) eða Apple-stýrikerfið IOS (iPhone). Þar sem viðmót þessara tveggja stýrikerfa er ólíkt eru gefnar aðskildar leiðbeiningar um notkun Avenza-forritsins fyrir bæði þessi stýrikerfi.

Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan til að hlaða niður leiðbeiningunum.