Skipurit Skógræktarinnar

 

Um skipurit Skógræktarinnar

Að mati ráðgjafa við skipulag Skógræktarinnar sem nýrrar stofnunar 2016 var talið mikil­vægt að stjórnskipulag hennar yrði skýrt og einfalt og byggt á grunni þess sem hefði gengið vel hjá landshluta­verk­efn­­un­um og Skógrækt ríkisins áður.

Það mat var annars vegar byggt á ábend­ing­um starfsmanna og hins vegar eðli þeirra verkefna sem Skógræktin sinnir þar sem blandast saman fræðilegir, hagnýtir og framkvæmdalegir þættir sem saman ná yfir alla virðiskeðju skógræktar frá skipu­lagn­ingu lands til skógræktar til grisjunar og annarra skógarnytja.

Hér fyrir neðan eru niðurstöður byggðar á greiningu og mati á þeim gögnum sem aflað var og umræðum á fundum stýrihóps um sameiningu landshlutaverkefna og Skógræktar ríkisins sem fram fóru fyrri hluta árs 2016. Þar voru lagðar fram til umræðna ólíkar tillögur að stjórn­skipu­lagi fyrir nýja stofnun.

Meginniðurstöður greininga og mats

  • Að æskilegt sé að fella að mestu leyti saman verkefni bændaskógræktar og þjóðskóganna. Þetta var gert í skipuriti á árunum 2016-2020 en í ljósi reynslunnar var ákveðið að sundurgreina þessi verkefni á ný en leggja áherslu á samstarf og verkefni þvert á þessi svið.
  • Að verkefni á sviði mannauðsmála og samhæfingar vinnubragða verði ofarlega á blaði hjá nýrri stofnun og æskilegt sé að þeim verði sinnt miðlægt þvert á fagsvið. Mannauðsstjóri er nú starfandi hjá stofnuninni.
  • Að fagleg mál á sviði skógræktar séu efst í huga starfsmanna og að hlutverk sjálfstæðs fagmálastjóra sem væri staðgengill skógræktarstjóra væri leið til þess að styrkja þann þátt.
  • Að ný stofnun nýti verkefnastjórnun sem leið til að vinna að umbótum þvert á starfsemina, hvort sem það eru umbætur á sviði ferla- og gæðamála eða sú samhæfingarvinna sem leiðir af sameiningunni.

Að stofni til fólu tillögurnar í sér að sett yrði upp einfalt fléttuskipulag enda mikilvægt að ekki sköpuðust flöskuhálsar í starfseminni og að verkefnastjórnun yrði nýtt til þess að halda þeim þáttum flötum í skipulaginu sem þarfnast þess eiginleika. Endurskoðað skipurit sem tók gildi 20. mars 2020 fer eftir þessum stefnumiðum um einfaldleika og fléttueiginleika.

Svið Skógræktarinnar

Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast þjóðskógar, skógarþjónusta og rannsóknir. Hins vegar er miðlægt rekstrarsvið. Þeir stjórnendur sem heyra undir sviðstjóra kallast verkefnisstjórar.

Skógræktin er ekki mjög stór stofnun á íslenskan mælikvarða þrátt fyrir að vera stærri en fyrirrennarar hennar. Hún verður áfram dreifð um allt land og með starfsstöðvar víðar en á einum stað í hverjum landshluta.

Því má segja að bæði eðli verkefna hennar og þessi landfræðilega dreifing krefjist mikils sjálfstæðis starfsmanna en um leið skýrrar leiðbeiningar frá stjórnendum sviða og viðeigandi stuðnings þeirra við starfsmenn Skógræktarinnar. Í starfi stofnunarinnar er lögð mikil áhersla á teymis- og hópavinnu og notkun fjarfundatækni er snar þáttur í starfseminni sem dregið hefur stórlega úr ferðalögum starfsfólks.

Eiginleikar stjórnskipulags Skógræktarinnar

  • Stjórnskipulag Skógræktarinnar vinnur með svipuðum hætti og það stjórnskipulag sem var við lýði hjá landshlutaverkefnunum og Skógrækt ríkisins.
  • Fáir stjórnendur sjá um undirbúning og framkvæmd stefnumarkandi mála sem er þáttur í að ýta undir skilvirkni við framkvæmd verkefna og stjórnun stofnunarinnar.
  • Fléttuskipulag gerir stjórnendum sviða kleift að sinna stefnumarkandi málum og styðja næsta stjórnunarlag, verkefnastjóra og teymi starfsmanna í starfi og jafna álag í starfseminni, þ.m.t. árstíðabundið álag, eins og frekast er unnt.
  • Fléttuskipulaginu er ætlað að hvetja til sjálfstæðis starfsmanna og að þeir verði studdir til að stýra verkefnum og teymum með stuðningi og leiðsögn frá sviðstjórum og skógræktarstjóra, til umbóta á verklagi og kalla fram þá samþættingu á landshlutaverkefnum og verkefnum Skógræktar ríkisins sem sameiningin í Skógræktina gerði mögulega.
  • Efling miðlægrar þjónustu þvert á fagsvið og skýr verkaskipting milli fagsviða og stoðsviða verði til þess að auðvelda samskipti og samræmingu vinnubragða og styðji við vinnslu verkefna þvert á skiptingu Skógræktarinnar í svið.
  • Halda skal reglulega fundi sviðstjóra í svokölluðu frakvæmdaráði og frá þeim komi fundargerðir um þær ákvarðanir sem teknar eru hverju sinni með áherslu á upplýsa um þau verkefni sem leiða af sameiningunni. Sviðstjórar tíunda helstu málefni í starfseminni fyrir starfsfólki með reglulegum föstudagspósti.

Fagmálastjóri

Þegar Skógræktin tók til starfa 1. júlí 2016 var komið á fót stöðu fagmálastjóra sem jafnframt varð staðgengill skógræktarstjóra.

Viðfangsefni fagmálastjóra voru skýr í starfsemi Skógræktar ríkisins fram til ársins 2003 er starfið var fellt undir hlutverk og verkefni sviðstjóra þjóðskóganna. Gert var ráð fyrir því að staða sviðstjóra skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar yrði nokkru umfangsmeiri en staða sviðstjóra þjóðskóganna og því var lagt til að umsjón með þróunar- og nýsköpunarstarfi yrði falin sjálfstæðum fagmálastjóra. Að auki yrði meginábyrgð á þróun erlends samstarfs og erlendra samskipta eitt af verkefnum fagmálastjóra í samvinnu skógræktarstjóra, sviðstjóra og starfsmanna Skógræktarinnar. Með breytingu á skipuriti 2020 var fagmálastjóra falið aukið hlutverk við gerð Landsáætlunar í skógrækt.

Fagmálastjóri er jafnframt staðgengill skógræktarstjóra og því er unnt að fela honum að fylgja eftir tilteknum samskiptum við stjórnvöld í fjarveru skógræktarstjóra og annast í umboði hans afmörkuð viðfangsefni eins og samskipti við stjórnvöld eftir nánari verkaskiptingu.

Skógarþjónusta

Skógarþjónustan sinnir skógrækt á lögbýlum. Þar eru einnig fræ- og plöntumál og verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður (LOL). Sigríður Júlía Brynleifsdóttir er sviðstjóri skógarþjónustunnar. Þau verkefni sem varða umsýslu fjármála skógræktar á lögbýlum eru á höndum rekstrarsviðs og ábyrgð á samræmingu, umsögnum og stjórnsýsluverkefnum eru að stofni unnin þar einnig.

Í hverjum landshluta er verkefnastjóri sem ber ábyrgð á bændaskógræktinni í umdæmi sínu, svokallaður amtmaður.

Þjóðskógar

Þjóðskógarnir mynda nú sérstakt svið ásamt þeim verkefnum sem eru hvað tengdust þeim. Það eru m.a. verkleg samstarfsverkefni við Landgræðsluna (Hekluskógar, Þorláksskógar, Hólasandur o.fl.) og aðra aðila (Landsvirkjun, Faxaflóahafnir o.fl.). Hreinn Óskarsson er sviðstjóri þjóðskóga en sinnir einnig gerð Landsáætlunar í skógrækt

Rekstur

Auk almennrar fjármálaumsýslu og áætlanagerðar tilheyrir rekstrarsviði einnig samskiptadeild. Hún veitir forystu verkefnum sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt er á höndum skipulagsfulltrúa. Gunnlaugur Guðjónsson er sviðstjóri rekstrar.

Rannsóknir

Rannsóknum hjá Skógræktinni tilheyrir hvers kyns rannsóknarstarfsemi sem snertir erfðaauðlindir skóga, landupplýsingar, rannsóknir á nýræktun skóga og skjólbelta, margvíslegar rannsóknir og verkefni sem snerta loftslagsmál, skóg og samfélag, trjá- og skógarheilsu, umhirðu og afurðir skóga og vistfræði skóga. Jafnframt hafa sviðinu verið falin verkefni við flokkun birkiskóga og skógaskrá skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt. Sérstök loftslagsdeild tilheyrir sviðinu og fæst við skóg og loftslagsbreytingar, landupplýsingar og skógaskrá. Edda Sigurdís Oddsdóttir er sviðstjóri rannsókna.

Mannauðsstjórn

Þegar Skógræktin tók til starfa 1. júlí 2016 voru umbótaverkefni á sviði mannauðsstjórnunar sett í skýran farveg og hugað að því að ráða mannauðsstjóri til stofnunarinnar. Björg Björnsdóttir er mannauðsstjóri Skógræktarinnar.

Stefnumótun Skógræktarinnar fór fram veturinn 2015-2016 og má nálgast hér á vefnum (sjá kafla til hægri) og einnig hlaða niður í heild sinni: