Eyðibýli með stórum skóglendum þar sem vex sjaldséð blæösp af íslenskum uppruna.

Almennt um skóginn

Jórvík í Breiðdal er eyðibýli með stórum kjarrlendum. Um 600 ha eru í eigu Skógræktarinnar en skógurinn var friðaður 1960. Hér er einn af fáum fundarstöðum blæaspar á landinu og eru hæstu trén um 4 m. Landið er annars að mestu vaxið náttúrulegu birkikjarri en gróðursettum skógi að hluta. Svæðið er opið almenningi og merkt gönguleið er frá Jórvík yfir í Norðurdal.

Staðsetning og aðgengi

Jórvík er í Suðurdal í Breiðdal, norðan ár undir fjallinu Tó. Jörðin stendur við þjóðveg 1 og skógurinn er því í alfaraleið.

Aðstaða og afþreying

Merkt gönguleið er frá Jórvík yfir í Norðurdal. Að örðu leyti er landið nægilega opið til að auðvelt sé að fara um það. Sumarið 2011 var komið upp grillaðstöðu fyrir almennig við veginn upp að gamla Jórvíkurbænum og er hún ætluð öllum gestum sem vilja njóta dagstundar í skóginum.

Saga skógarins

Árið 1958 var Skógræktinni gefinn hluti jarðarinnar. Í ársskýrslu stofnunarinnar það sama ár skrifar Hákon Bjarnason: 

„Á þessu ári barst Skógrækt ríkisins mikil og góð gjöf. Systkinin þau, sem áttu Jórvík í Breiðdal, þau Hannes M. Þórðarson, Björgvin Þórðarson, Bjarni A. Þórðarson og Sigríður Þórðardóttir, gáfu nærri allt skóglendi þeirrar jarðar til friðunar og ræktunar. Væntanlega verður lokið við friðun landsins snemma á árinu 1960, svo gróðursetning gæti hafist á því ári.“

Þessi hluti jarðarinnar, allur ofan þjóðvegar, var girtur 1960-1961. Girðingin er 8,2 km löng og innan hennar eru 500 ha. Árið 1963 eignaðist Skógræktin svo 1/4 af óskiptu landi jarðarinnar fyrir utan skógargirðinguna.

Trjárækt í skóginum

Á þeim árum sem jörðin var gefin var skógræktarland mjög torfengið. Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, ákvað því að gróðursetja skyldi í landið. Gróðursetning hófst árið 1962 og var þá mest gróðursett af blágreni. Auk þess var gróðursett rauðgreni, sitkagreni og hvítgreni. Tveimur árum síðar var aftur gróðursett og í það skiptið hvítgreni, blágreni, broddfura, gráelri, evrópulerki o.fl. tegundir. Árið 1966 voru þrjár tegundir gróðursettar, rauðgreni, hvítgreni og birki.

Í dag er birkikjarrið í skóginum að mestu lágvaxið og kræklótt en blæöspin er mesta gróðurstolt Jórvíkur ásamt grenireitum sem nú eru komnir í góðan vöxt.

Annað áhugavert í skóginum

Gamli bærinn í Jórvík þykir merkileg bygging og á undanförnum árum hefur verið unnið að endurbótum á honum. Húsið  er tvílyft timburhús, klætt bárujárni. Torfveggir voru hlaðnir að veggjum norðan og austan við húsið. Sunnan við var viðbygging, sennilega fjós og hlaða. Skógræktin gerði samning við Björn Björgvinsson húsasmíðameistara um endurbyggingu hússins í Jórvík og Húsafriðunarsjóður veitti framlag til endurbyggingarinnar. Ekki hefur verið ákveðið hvernig húsið verður nýtt og það er ekki til sýnis en velkomið að ganga að því.

Fjallahringurinn í innanverðum Breiðdal er stórkostlegur á björtum degi. Breiðdalur er gósenland jarðfræðiáhugafólks með fornum eldstöðvum, stórbrotnum, litríkum bergmyndunum. Einkennandi er líparít í fjöllunum. Hæstu fjöll Breiðdals eru um 1.100 metra há.