Lat. Scolioneura betuleti

Lífsferill

Birkiþéla (Scolioneura betuleti) er nýlegur landnemi á Íslandi og hefur fundist á ilmbjörk og hengibjörk a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta er smávaxin blaðvespa, svört og gljáandi með gulleita fætur en erfitt er að greina hana frá öðrum tegundum blaðvespna. Lirfur hennar vaxa upp innan í laufblöðum birkisins með svipuðum hætti og lirfur  birkikembu en þó síðsumars, ekki fyrri hluta sumars eins og lirfur birkikembu.  Dýrin eru talin púpa sig fyrir veturinn en lífsferill birkiþélu er enn lítið þekktur hérlendis. Auðveldast er að greina birkiþélu frá birkikembu ef lirfur finnast í laufblöðum birkis í ágústmánuði. Einnig má skoða drit lirfanna með því að bera laufblöð upp að ljósinu. Drit birkikembu er þráðlaga en drit birkiþélu örsmáar kúlur. Lirfur birkikembu eru ljósleitar eða litlausar en birkiþélu dökkleitar.

Tjón

Líkt og er með birkikembu geta talsverð lýti verið að skemmdum vegna birkiþélu og ekki er ólíklegt að birkiþéla hafi áhrif á vöxt birkisins, ekki síst ef báðar tegundirnar herja á sama tréð sama sumarið, birkikemba fyrri hluta sumars og birkiþéla síðsumars. Verið er að kanna möguleikann á innflutningi á náttúrulegum óvini birkiþélu.

Varnir gegn birkiþélu

Ræktendum er bent á að ráðfæra sig við Brynju Hrafnkelsdóttur, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar.