Allt starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að gæta að jafnræði kynjanna og að jafnrétti sé virt í hvívetna innan Skógræktarinnar

Velferð starfsfólks og þjónusta Skógræktarinnar byggist á fagmennsku, samvinnu og framsækni

Jafnréttisáætlun Skógræktarinnar miðar að því að gera stofnunina að góðum og eftirsóknarverðum vinnustað þar sem jafnrétti starfsmanna og vellíðan er höfð í fyrirrúmi. Með jafnréttisáætlun uppfyllir stofnunin skyldu sína samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Jafnréttisáætlun þessari er ætlað að veita yfirsýn yfir starfsumhverfi og helstu réttindi og skyldur er lúta að jafnréttismálum. Þá er henni ætlað að leiðbeina starfsmönnum og stuðla að gagnkvæmum skilningi milli starfsmanns og vinnuveitanda um jafnréttismál. Markmið í átt að auknu jafnræði eru sett og áætlun um hvernig þeim skuli náð.

Þó markmið jafnréttisáætlunar miðist við að jafna stöðu kynja skal áætlunin einnig ná yfir jafnrétti á grundvelli trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, eftir því sem við á.

Allt starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að gæta að jafnræði kynjanna og að jafnrétti sé virt í hvívetna innan Skógræktarinnar. Við umfjöllun um jafnréttismál og úrlausn þeirra skulu gildi stofnunarinnar, traust, samvinna og metnaður ávallt höfð að leiðarljósi.

Hægt er að nálgast skjöl og ítarefni er varðar jafnréttismál á heimasíðu Jafnréttisstofu, jafnretti.is.

Jafnréttisnefnd

Jafnréttisnefnd Skógræktarinnar er skipuð þremur starfsmönnum. Mann­auðs­stjóri á þar fast sæti.

Í jafnréttisnefnd Skógræktarinnar 2020-2023 sitja Björg Björnsdóttir (formaður), Anna Pálína Jónsdóttir og Bjarki Sigurðsson. Nefndin setti sér starfsreglur á fyrsta fundi sínum 6. febrúar 2018.

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa er þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Öllum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og hvers konar frekari þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Einnig skulu allir njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár, sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að karlar og konur njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafn­verðmæt störf.

Mikilvægt er að við­mið um ákvörðun launa séu gegnsæ.

Árleg greining launa- og kjarajafnréttis ásamt tölfræðilegri samantekt.

Mannauðsstjóri
og framkvæmdaráð.
Lokið í febrúar
ár hvert.

 

Auglýsingar, stöðuveitingar og störf

Atvinnuauglýsingar Skógræktarinnar eru ókynbundnar og höfða til allra kynja. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Skógræktinni. Umsækjandi af kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafnhæfur eða hæfari. Ávallt skal hafa hlutfall kynjanna sem jafnast. Við ráðningar er óheimilt að mismuna kynjum á grundvelli fjölskyldustöðu eða annarra þátta þar sem ætla má að kynbundnir einkahagir hafi áhrif. Þess verði gætt við úthlutun verkefna, tilfærslu í störfum, tækifæra til að axla ábyrgð og framgangs í störfum að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Sömuleiðis verður þess gætt eftir því sem unnt er að auka möguleika fólks til að sækja vinnu til þeirra starfstöðva Skógræktarinnar sem henta, þvert á svið.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Laus störf skulu standa öllum opin. Þegar ráðið er í störf skal unnið að því að jafna hlut kynjanna. Mannauðsstjóri og yfir­menn sem koma að ráðningum. Þegar staðið er að ráðningum og stöðuveitingum.
Starfshópar og nefndir skulu vera aðgengi­leg­ar báðum kynjum. Greina árlega sam­setn­ingu á starfshóp­um og nefndum með tilliti til hlutfalls kynja. Ef um ójafna sam­setn­ingu er að ræða, skal bæta úr því, að því gefnu að einstak­lingar mæti hæfnis­kröfum. Framkvæmdaráð. Endurskoða við skipan nýs starfshóps eða nefndar.
Auka þekkingu á störfum Skógræktarinnar Kynningarátak á ólíkum störfum Skógræktarinnar með áherslu á að þau henti öllum. Miðlar: Vefsíða og samfélagsmiðlar. Kynningarstjóri í samvinnu við sviðstjóra og starfsmenn. Lokið fyrir maí 2021.

 

Starfsþróun, starfsþjálfun og endurmenntun

Þess skal gætt að mismuna ekki starfsfólki eftir kynferði við úthlutun verkefna, við tilfærslu í starfi, við að axla ábyrgð eða við önnur tækifæri sem almenn starfsþróun býður upp á. Tækifæri starfsmanna til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar skulu vera jöfn og óháð kyni. Sérstaklega skulu tækifæri til menntunar sem miða að því að auka hæfni til ábyrgðar og framgangs í starfi standa öllum til boða og hvetja skal kyn sem á hallar í þeim efnum sérstaklega til að sækja slíka menntun. Sömuleiðis verður sérstaklega hugað að endurmenntun og möguleikum verkamanna til starfsþróunar.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Tryggt er að starfs­þróun, starfsþjálfun og endurmenntun sé aðgengileg öllum kynjum. Árleg greining á þátt­töku eftir kynjum í sambærilegum störf­um í endurmenntun og starfsþróun. Mannauðsstjóri og framkvæmda­ráð. Lokið í febrúar ár hvert.
Virk fræðslu- og menntunaráætlun fyrir stofnunina er tryggir öllum starfsmönnum hennar fræðslu og menntun við hæfi. Árleg endurskoðun fræðslu- og menntunar­áætlunar og kynbundin greining á því hvernig starfs­menn nýta hana. Mannauðsstjóri og jafnréttis­nefnd. Lokið í september ár hvert.

 

Samræming starfs og einkalífs

Starfsmönnum er gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu. Öll kyn eru hvött til þess að nýta sér fæðingarorlof og eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna á jafnréttisgrundvelli. Þá er gert ráð fyrir því að að allir hafi sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Starfsfólki er boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma eins og hægt er. Viðhalda stefnu Skógræktarinnar hvað varðar sveigjan­legan vinnu­tíma og samhæf­ingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Framkvæmdaráð og mannauðs­stjóri. Endurskoðað í samræmi við stefnu Skógrækt­ar­innar.
Öll kyn eru hvött til þess að samræma einkalíf, fjölskyldu­líf og starf. Árleg kynning á þessum réttindum og skyldum starfs­manna. Framkvæmdaráð, mannauðsstjóri og jafnréttisnefnd. Lokið í september ár hvert.

Starfsandi og líðan starfsmanna

Til þess að búa sem best að líðan starfsmanna Skógræktarinnar skal unnið gegn hvers konar fordómum, einelti, kynbundnu ofbeldi*, kynferðislegri áreitni**, kynbundinni áreitni*** og öðru ofbeldi og undir engum kringumstæðum er slíkt liðið. Tryggja skal í hvívetna rétt þess sem kann að verða fyrir hvers konar ofbeldi af slíku tagi.

*Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

**Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

***Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðis­leg áreitni er ekki liðin. Unnið er samkvæmt vinnureglum þegar slíkt kemur upp. Mannauðsstjóri, framkvæmdaráð og jafnréttisnefnd. Þegar tilvik koma upp.
Einelti og fordómar eru ekki liðnir. Unnið er sam­kvæmt vinnuregl­um þegar slíkt kemur upp. Mannauðsstjóri, framkvæmdaráð og jafnréttisnefnd. Þegar tilvik koma upp.

 

Eftirfylgni, endurskoðun og ábyrgð

Mikilvægt er að verkefnum jafnréttisáætlunar sé fylgt eftir og að allir starfsmenn séu meðvitaðir um þá ábyrgð sem jafnréttislög og almenn virðing fyrir jafnrétti leggja þeim á herðar. Jafnréttisnefnd Skógræktarinnar sér um endurskoðun á jafnréttisáætlun á þriggja ára fresti og sér um að kynna hana starfsmönnum.

Endurskoðuð jafnréttisáætlun tekur formlega gildi frá og með 30. nóvember 2020. Hún verður endurskoðuð eigi síðar en í lok árs 2023.

Til baka í starfsmannahandbók