Lat: Thuja / Cupressus

Lífviðarættkvíslinni (fræðiheiti: Thuja) tilheyra fimm tegundir. Tvær eru upprunnar í Norður-Ameríku en þrjár í Austur-Asíu. Sýprisættkvíslinni (fræðiheiti: Cupressus) tilheyra 16-30 tegundir en flokkunarfræðin er nokkuð á reiki.

Meira um

Flest barrtré sem ræktuð eru á Íslandi tilheyra ættinni Pinaceae, sem kölluð er þallarætt á íslensku en er kennd við furu í flestum öðrum löndum. Örfáar tegundir sýprissættar (fræðiheiti: Cupressaceae) finnast hér einnig, þ.á m. okkar eina innlenda barrviðartegund, einir. Báðar eru þessar ættir barrtrjáa tegundamargar og tilheyra flestar barrviðartegundir á norðurhveli jarðar annarri hvorri þeirra. Segja má að þallarættin sé einkennandi fyrir norðurslóðir en að nokkrar tegundir finnist sunnar, á meðan sýprisættin tilheyri yfirleitt heitara loftslagi en nokkrar tegundir finnist norðar. Sýprissætt á einnig nokkra fulltrúa á suðurhveli sem þallarætt á ekki.

Stærstu tré heims (risafurur og strandrauðviður) tilheyra sýprisætt en einnig dvergrunnar (dverglífviður, fræðiheiti: Microbiota decussata). Sumar tegundir vaxa í vatni (t.d. fenjasýpris) en aðrar í þurrkeyðimörkum (sumar einitegundir). Einkennandi er fyrir þessa ætt að viðurinn fúnar eiginlega ekki. Miðað við fjölda tegunda hafa fáar þeirra reynst harðgerðar hérlendis, en það stafar e.t.v. að einhverju leyti af því að þær hafa lítið verið prófaðar.

Lífviðarættkvíslinni (fræðiheiti: Thuja) tilheyra fimm tegundir. Tvær eru upp runnar í Norður-Ameríku en þrjár í Austur-Asíu. Sýprisættkvíslinni (fræðiheiti: Cupressus) tilheyra 16-30 tegundir en flokkunarfræðin er nokkuð á reiki. Jafnvel er talið að skipta ætti þessari ættkvísl upp í tvær, aðra með tegundum kenndum við gamla heiminn en hinum með tegundum kenndum við nýja heiminn. Til einisættar (fræðiheiti: Juniperus) teljast 50-67 tegundir sem dreifast vítt og breitt um norðurhvel jarðar allt frá heimskautasvæðunum í norðri suður til hitabeltislanda Afríku og fjalla Mið-Ameríku.