BlómabreiðaÍ allri umræðu um ríkið verður að hafa í huga að í lagalegum og efnahagslegum skilningi er aðeins til einn ríkissjóður. Ríkið er þannig séð ein fjárhagsleg heild. Sú leið hefur aftur á móti verið farin að dreifa ábyrgð á útfærslu og framkvæmd tiltekinna þátta í ríkisrekstrinum á mismunandi aðila. Þetta á ekki hvað síst við um starfsmannamálin. Almennt er gert ráð fyrir því á hinum almenna vinnumarkaði að hvert og eitt fyrirtæki hafi á sinni hendi alla þá þræði er snerta málefni starfsmanna sinna. Ríkið sker sig verulega úr hvað þetta varðar. Þegar horft er á hlutverk ríkisins sem vinnuveitanda er því skipt á margar hendur. Sú skipting er í stórum dráttum sem hér segir:

 

Meginreglan er sú að ákvarðanir er varða réttindi og skyldur einstakra starfsmanna eru hjá forstöðumanni. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar þurfa forstöðumenn að gæta samræmis við almenn fyrirmæli og/eða túlkun hlutaðeigandi ráðuneytis eða fjármálaráðuneytis. Auk þess þurfa þeir, líkt og vinnuveitendur á almennum markaði, að gæta að lögum og reglum er varða vinnumarkaðinn í heild og heyra undir félagsmálaráðuneyti.

Í lögum og reglugerð um um Stjórnarráðið er fjallað um skiptingu málefnaflokka milli ráðuneyta. Samkvæmt þeirri skiptingu heyra málefni ríkisstarfsmanna, þ.e. réttindi og skyldur auk launamála, undir fjármálaráðuneyti. Hjá fjármálaráðuneyti heyra þessi málefni undir starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Skrifstofan fer þannig að vissu leyti með stefnumörkun og fyrirsvar ríkisins varðandi málefni ríkisstarfsmanna í heild. Þetta á einkum við um gerð kjarasamninga og túlkun þeirra sem og túlkun á almennum ákvæðum er varða starfsmenn ríkisins, svo sem ákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Kjaradóm og kjaranefnd.

Skrifstofan hefur hins vegar ekki „lögsögu" að því er varðar túlkun á ákvæðum laga og reglna er heyra undir önnur ráðuneyti, þ.e. ákvæðum sem lúta almennt að málefnum vinnumarkaðarins og sérákvæðum um einstaka hópa ríkisstarfsmanna. Skrifstofan leitast þó að veita leiðsögn og ráðgjöf eftir því sem við á hverju sinni. Til að mynda hefur skrifstofan annast leiðbeiningar og fræðslu um fæðingar- og foreldraorlof hjá ríkinu og stofnunum þess en lög um fæðingar- og foreldraorlof heyra undir félagsmálaráðuneyti og gilda um allan vinnumarkaðinn.

Túlkun sérákvæða um einstaka hópa ríkisstarfsmanna heyrir undir hlutaðeigandi ráðuneyti. Við skýringu og túlkun slíkra ákvæða er oft nauðsynlegt að kunna skil á almennum ákvæðum um ríkisstarfsmenn og meginreglum vinnuréttarins. Starfsmannaskrifstofan veitir leiðsögn og ráðgjöf í því efni en þó oftast með óformlegum hætti.

Fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, fer með samningsréttinn við gerð kjarasamninga. Margar stofnanir ríkisins fara aftur á móti sjálfar með daglega framkvæmd kjarasamninga samkvæmt sérstöku umboði fjármálaráðherra. Þegar því sleppir er dagleg framkvæmd kjarasamninga í höndum launaafgreiðslu Fjársýslu ríkisins, þ.e. launaafgreiðsla og samskipti við stéttarfélög í samstarfsnefndum.

Forstöðumenn stofnana ríkisins fara eins og áður sagði jafnan með almennar stjórnunarheimildir og vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna við hlutaðeigandi stofnun. Almennt verður ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármálaráðuneytis.

Starfsmannaskrifstofan hefur talið að á sér hvíli ákveðnar skyldur gagnvart forstöðumönnum og öðrum stjórnendum stofnana ríkisins að því er varðar upplýsingar og fræðslu um starfsmannamál ríkisins. Skrifstofan stendur fyrir almennri fræðslu um þessi mál með námskeiðum, fyrirlestrum, með skrifum í fréttabréf ráðuneytisins fyrir stjórnendur ríkisstofnana og almennum leiðbeiningum/tilmælum til ráðuneyta og stofnana, ýmist í formi almennra bréfa, dreifibréfa eða tölvupósts. Margt af þessu efni er hægt að nálgast á vefsíðu ráðuneytisins.

Starfsmannaskrifstofa veitir ráðgjöf og leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd um einstök mál. Sú ráðgjöf er ýmist formleg eða óformleg. Fyrirspurnir frá stofnunum í gegnum síma eru algengar. Slíkum fyrirspurnum sinna sérfræðingar skrifstofunnar til skiptis eina viku í senn. Fyrirspurnum er varða álitaefni um túlkun og framkvæmd ákvæða um starsfmannamál er rétt að beina til starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Fyrirspurnum um launavinnslu og viðtekna framkvæmd við afgreiðslu launa er hins vegar rétt að beina til launaafgreiðslu Fjársýslu ríkisins.