Grisjunarmenn í ungum lerkiskógi með grisjunarboli sem notaðir verða í girðingastaura.

Í nytjaskógrækt er grisjun nauðsynleg til að rýma fyrir bestu trjánum sem vaxa eiga áfram í skóginum. Þá eru lökustu trén fjar­lægð. Greinalítil fljót- og beinvaxin tré eru eftirsótt og því eru slík tré valin til að standa áfram. Megintilgangur grisjunar timbur­skóga er að skapa sem verðmæt­ast­an skóg eins fljótt og mögulegt er.

Myndband

Grisjun fer oftast fram að vetri og eru ýmist notaðar keðjusagir eða kjarrsagir til að fella trén og jafnvel sérhæfðar grisjunar- eða höggvélar. Nýtanlegt efni er dregið út úr skóginum og staflað á aðgengilegum stöð­um þar sem auðvelt er að koma við tækjum til að flytja efnið á brott. Smærri boli má draga út með handafli en ýmis tæki eru notuð til útkeyrslu úr skógi, allt frá spilum, fjórhjólum og dráttavélum upp í sérhæfðar útkeyrsluvélar. Mikilvægt er að ráðast ekki í grisjun án þess að afla sér haldgóðrar þekkingar.

Gætum að örygginu!

Enginn skyldi vinna með kjarrsög eða keðjusög án þess að hafa sótt námskeið í meðferð slíkra tækja og vera með allan nauðsynlegan hlífðarbúnað. Nauðsynlegt er að nota hjálm og andlitshlíf, sér­hannað­an fatnað sem keðjusögin bítur ekki á og öryggisskó eða -stígvél. Einnig er nauðsynlegt að hafa a.m.k. grunnþekkingu á grisjun og grisjunartækni.

Fyrsta grisjun, snemmgrisjun

Misjafnt er hversu mikið er grisjað í einu. Við fyrstu grisjun í 20-25 ára skógi með 2.500-4.000 trjám á hektara er þétt­leikinn minnkaður niður í um 1.500 tré á hektara. Einungis  eru dregin út þau tré sem talin  eru nýtileg. Greinar og ónýtanlegir bolir eru látnir liggja í skóginum og rotna. Það er gott fyrir skóginn, eflir lífríkið og eykur náttúrlega hring­rás næringarefnanna.

Ógrisjaður og illa hirtur skógur, of þéttur.

Afurðir fyrstu grisjunar

Notagildi grisjunarviðarins er margvíslegt. Ekki er hægt að búast við flettingarhæfu efni í borð og planka úr fyrstu grisjun nema í undantekningartilfellum. Síðustu ár hefur megnið af grisjunarviði úr skógum landsins verið selt sem kurlviður til kísilmálm­vinnslu. Jafnframt eru unnir girðinga­staur­ar, einkum úr lerki, kurl er unnið til notkun­ar á stíga, kringum skjólbelti, í trjábeð og sem undir­burður fyrir skepnur í gripa­hús­um svo nokkuð sé nefnt. Stöðugur mark­að­ur er fyrir eldivið, einkum úr birki, en einnig er unninn eldiviður úr lerki og greni.

Grisjunarþörf er vaxandi í íslenskum skóg­um. Nytjaskógrækt á lögbýlum jókst að mun á síðasta áratug 20. aldar og nú er komið að fyrstu grisjun víða. Oft er fyrsta grisjun kölluð snemmgrisjun en einnig hafa verið notuð hugtökin „bilun“ og „millibilsjöfnun“ sem ekki hefur náðst sam­staða um. Einfaldast er að tala alltaf um grisjun enda komi fram á hvaða stigi skógurinn sé, hvort þetta sé fyrsta eða önnur grisjun o.s.frv.

Skógarhöggsmaður grisjar stálpaðan lerkiskóg.Grisjun eykur hagkvæmni

Grisjun eykur ekki endilega heildar­viðar­fram­leiðslu skógarins en hún stuðlar að því að viðarframleiðslan verði sam hagkvæm­ust alla vaxtarlotuna. Markmið grisjunar er að auka sem mest gæði þess viðar sem skógurinn gefur að lokum. Úr beinvöxnum, lítt greinóttum og sverum trjám fæst verð­mætastur viður. Þess vegna er miðað við að skilja eftir við grisjun úrvalstré sem lík­legust eru til að gefa hágæðatimbur. Með grisjun gefst jafnframt færi á að nýta efni úr lakari trjám sem ella yrðu annað hvort lítt nýtileg eða færu halloka í lífsbaráttunni í skóginum. Villtur skógur grisjar sig sjálfur.

Eftirfarandi kröfur ber að gera
til markvissrar grisjunaráætlunar:

  • Að stuðla að heilbrigði skógarins. Í þéttum, ógrisjuðum skógi, þar sem er hátt hlutfall af dauðum viði, geta skapast kjöraðstæður fyrir sjúkdóma. Þessi hætta minnkar við grisjun
  • Að auka viðnámsþrótt trjánna gegn vind- og snjóskemmdum. Við grisjun standa eftir færri en sterkbyggðari tré
  • Að stjórna innbyrðis samkeppni trjánna um sólarljósið. Við grisjun er hægt að auka áhrif sólar á trjákrónurnar
  • Að leggja rækt við þá trjátegund, eða tegundir ef skógurinn er blendingsskógur, sem þrífst best á viðkomandi svæði
  • Að hirða um trjákrónurnar. Hjá ljóskærum tegundum á græn króna að nema um helmingi stofnlengdar en um 70% ef skuggaþolnar tegundir eiga í hlut
  • Að koma í veg fyrir sjálfgrisjun því þá tapast verðmæti
  • Að tryggja sem besta nýtingu þess viðar sem til fellur
  • Að stytta vaxtarlotuna. Við grisjun fá trén meira svigrúm og þar af leiðandi eykst þvermálsvöxtur hraðar en ella

Grisjun timburskóga

Með timburskógi er átt við skóg sem orðinn er eldri en 25 til 35 ára og fær um að skila talsverðum viðarvexti (fer eftir tegundum). Mjög breytilegt er hve oft tíðkast að grisja timburskóg þar til kemur að lokahöggi. Því oftar sem það er gert því betra fyrir heildarviðarframleiðsluna en kostnaðurinn er mikill. Á Íslandi má gera ráð fyrir að 50 til 100 ár líði áður en skógarbændur fái verulegar tekjur af skógum sínum.

Trjábolir á palli pallbíls.Fyrsta grisjun í timburskógi

Sívaxandi tækniframfarir hafa breytt við­horfi manna til grisjunar eins og fleiri starfa. Þá setja markaðsaðstæður hverju sinni einnig strik í reikninginn. Launakostnaður við sífelldar grisjanir er mikill og því er gris­jað sjaldnar nú en áður fyrr, jafnvel rætt um 2 til 5 grisjanir samtals.

Fjöldi grisjana er líka breytilegur eftir því hversu mikið er grisjað í hvert sinn. Finna má í skógræktarritum hlutfallstölur um styrkleika grisjana, t.d. að ef viðarmagn minnkar um 15% teljist það lítil grisjun, meðalgrisjun ef minnkunin er 15%-25% en mikil grisjun ef hún er 25%-35%. Í Finnlandi er 30% grisjun talin hæfilegur styrkleiki. Hvenær tímabært er að grisja timburskóg er auðvitað breytilegt eftir tegundum (t.d. skuggþoli) og vaxtarskilyrðum. Tími getur verið kominn til að grisja skóg á einum stað þegar hann hefur staðið í 25 ár en annars staðar, t.d. þar sem land er rýrt, ekki fyrr en eftir 40 ár. Þetta fer líka eftir þéttleika skógarins. Þeir sem leggja mikið upp úr að grisja frá úrvalstrjám í ungskógi uppskera m.a. þann árangur að ekki þarf að ráðast jafn­snemma í næstu grisjun eftir að kominn er timburskógur. Varasamt er að bíða of lengi, því ef trjákrónan verður of lítil dregur úr þvermálsvexti. Í eina tíð þótti góð regla að hefja grisjun þegar skógurinn var farinn að afkvista sig af eigin rammleik. Sú regla er raunar góð og gild enn í dag.

Myndband um ungskógarumhirðu: