Lat. Melampsora larici-populina

Lífsferill

Asparryðsveppurinn (Melampsora larici-populina) myndar gula eða rauðgula ryðbletti neðan á blöðum alaskaaspar. Þar myndast ryðgró sem dreifa sjúkdómnum enn frekar. Á veturna lifir sveppurinn í föllnum asparlaufum. Frá þeim berst smitið yfir á lerkinálar þegar það laufgast og svo aftur á öspina.

Tjón

Skaðsemi sveppsins er mest þar sem ösp og lerki eru ræktuð hlið við hlið. Hingað til hefur asparryð valdið mestum skaða á Suðurlandi, enda er þar úrkomusamt og hlýtt, en þær aðstæður henta ryðsveppum vel.

Varnir gegn skaðvaldi

Verulegur munur er á þoli asparklóna gegn þessari sýkingu. Helstu varnaraðgerðir felast í því að velja asparklóna sem verjast sveppnum vel, t.d. Sæland, og að forðast asparrækt þar sem lerki er í grenndinni.