Unnið að vistheimt með nýskógrækt á skóglausu og rofnu landi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonNokkrir sjálfstæðir aðilar á Íslandi bjóða fólki nú að greiða fyrir skógrækt til kolefnisbindingar til mótvægis við ýmsar athafnir sínar eða einfaldlega til þess að draga úr magni koltvísýrings í lofthjúpnum og leggja sitt til baráttunnar gegn röskun loftslagsins. Bindingin sem þarna er í boði er staðfest með mælingum en ekki vottuð, a.m.k. enn sem komið er. Vottun er ekki nauðsynleg almenningi og smærri aðilum sem vilja binda kolefni en þurfa ekki að standa skil á bindingunni í kolefnisbókhaldi. Þessar leiðir eru því hentugar mjög mörgum og ástæða til að hvetja fólk til að nýta sér þær sem mest. Vaxandi áhugi er meðal almennings og fyrirtækja að leggja fé til skógræktar og einnig gætir aukins áhuga ferðafólks og ferðaþjónustufyrirtækja að stuðla að bindingu á móti þeirri losun sem af ferðalögunum stafar.

One Tree Planted

Merki One Tree Plantederu góðgerðarsamtök með það markmið að auðvelda fólki að bæta umhverfið með gróðursetningu trjáa. Verkefni þeirra eru víða um heim og fara fram í samstarfi við nærsamfélög og sérfræðinga til að skapa ágóða fyrir náttúruna, fólk og dýralíf. Skógrækt endurreisir skóga í kjölfar skógareyðingar, hefur jákvæð samfélagsleg áhrif t.d. með því að skapa störf, bindur kolefni úr andrúmsloftinu og eflir líffjölbreytni. Verkefnin ná fjölþættum markmiðum og skapa margs konar ágóða sem styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fyrsta verkefni One Tree Planted á Íslandi er að Ormsstöðum í Breiðdal. Hægt er að fræðast um One Tree Planted á vef samtakanna.

TreememberMe

er fyrirtæki sem býður upp á kolefnisbindingu í skógrækt með samningi við Skógræktina. Auðvelt er að kaupa bindinguna og í kaupbæti fær hver viðskiptavinur rafrænt skeyti á eigin nafni ásamt mynd sem varðveitir minninguna um kaupin svo að hún lifi áfram -  eins og tréð. Upplýsingar fylgja um hversu mikið viðkomandi tré muni binda og viðskiptavinir geta haldið utan um gróðursetningar sínar á sínum síðum á vefnum, deilt upplýsingunum í tölvupósti, á samfélagsmiðlum o.s.frv. Með vísindalegum mælingum og úttektum sér Skógræktin um að sú binding sem lofað er eigi sér raunverulega stað.

 

Kolviður

er verkefni á vegum Skógræktarfélags Íslands og Landverndar sem býður fólki að greiða fyrir gróðursetningu á þeim fjölda trjáa sem það óskar. Gróðursett er í löndum skógræktarfélaga víða um land.  Í reiknivél á vef verkefnisins getur fólk reiknað út kolefnislosun heimilisbílsins og flugferða. Reiknivélin gefur upplýsingar um hversu mörg tré þurfi að gróðursetja til að jafnmikið kolefni bindist í trjám og jarðvegi og svo getur fólk greitt fyrir gróðursetninguna.

 

Plant a Tree in Iceland

er verkefni á vegum ferðaskrifstofunnar Nordic Green Travel með höfuðstöðvar í Þorlákshöfn. Ferðafólki er boðið að kaupa tiltekinn fjölda trjáa í nokkrum flokkum sem gróðursett verða á svæði sem fyrirtækið hefur fengið til skógræktar. Einnig er í boði að fólk geti sjálft tekið þátt í gróðursetningu sem hluta af ferðaupplifun sinni á Íslandi.