Öllum starfsmönnum ber að leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang öryggismála innan stofnunarinnarSkyldur og skipulag

Skógræktin vinnur samkvæmt lögum nr 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum.

Öllum starfsmönnum ber skylda til að kynna sér og þekkja ábyrgð sína, þær ráðstafanir sem gera þarf til að tryggja öryggi í starfi og leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang öryggismála innan stofnunarinnar.

Yfirumsjón öryggis- og vinnuverndarmála er í höndum mannauðsstjóra en skógræktarstjóri ber endanlega ábyrgð á öryggismálum starfsmanna. Um réttindi starfsmanna er vísað til jafnréttisáætlunar Skógræktarinnar, áætlunar gegn einelti og áreitni og jafnlaunastefnu Skógræktarinnar (sjá dálkinn til hægri).

Öryggis- og heilsuáætlun Skógræktarinnar

Markmið öryggis- og heilsuáætlunar Skógræktarinnar er að auka öryggi starfsmanna og tryggja að þeir geti unnið í öruggu og heilsusamlegu umhverfi. Í áætluninni er öryggis- og heilsustefnu stofnunarinnar lýst með ráðleggingum um heilsueflingu, hollt mataræði og heilbrigða hreyfingu, slysavarnir og vinnuvistfræðilega þætti. Almennum öryggisreglum er lýst og jafnframt öryggisreglum vegna skógarhöggs og meðferðar keðjusaga. Í áætluninni má nálgast viðbragðsáætlanir vegna slysa á fólki, skógarelda og eldsvoða á vinnustað en einnig leiðbeiningar um hvernig tilkynna beri um vinnuslys og önnur óhöpp eða skrá minni háttar atvik. Farið er yfir áhættumat og starfsumhverfi og fjallað um hlutverk öryggisnefndar Skógræktarinnar. Loks er þar að finna ráðleggingar um líkamsbeitingu og mögulegar hættur í vinnuumhverfi starfsfólks. Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan eða í dálkinum hægra megin á síðunni til að opna síðu með öryggis- og heilsuáætlun Skógræktarinnar. Í dálkinum til hægri er einnig að finna áætlanir Skógræktarinnar um jafnrétti og gegn einelti og áreitni.

Öryggisnefnd

Hlutverk öryggisnefndar er að koma með athugasemdir um það sem tengist aðbúnaði, hollustu og öryggi starfsmanna og afhenda þeim sem ber ábyrgðina málefnið til úrlausnar. Öryggisnefnd aðstoðar einnig stjórnendur og starfsmenn við áhættumat verkefna og kemur að áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Eins hefur öryggisnefnd eftirlit með því að aðgerðum og áætlun á þessu sviði sé fylgt eftir. Í öryggisnefnd Skógræktarinnar sitja (frá vori 2023):

Sigfús Oddsson og Valgeir Davíðsson og Ægir Freyr Hallgrímsson.

Öryggistrúnaðarmenn

Öryggistrúnaðarmaður fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi sé í samræmi við lög og reglur og fylgt sé fyrirmælum Vinnueftirlitsins. Í 13. gr. reglna um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja (nr. 77/1982) er verkefnum öryggistrúnaðarmanns lýst:

  • Fara eftirlitsferðir um vinnustaðinn og aðgæta að vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu
  • Huga að öryggisbúnaði og notkun persónuhlífa og ástandi þeirra
  • Gæta að þjálfun og fræðslu starfsmanna með tilliti til hollustuhátta og öryggis
  • Fylgjast með að tilkynningaskyldu um vinnuslys og atvinnusjúkdóma sé sinnt

Öryggistrúnaðarmenn Skógræktarinnar eru (frá mars 2019):

Jóhannes Sigurðsson og Guðrún Rósa Hólmarsdóttir

Áætlanir um viðbrögð

Viðbragðsáætlanir þær sem hér er að finna að neðan eru ætlaðar til þess að tryggja öryggi starfsmanna, gesta og almennings. Ætlast er til að starfsfólk kynni sér viðbragðsáætlanir og geti brugðist rétt við ef hættuástand verður.