Rannsóknir sem tengjast nýræktun skóga miða að því að tryggja sem minnst afföll á skógarplöntum eftir gróðursetningu. Slíkt dregur úr kostnaði og eykur árangur nýskógræktar. Rannsóknir á þessu sviði snúa að bættri aðferðafræði bæði við ræktun ungplantna og gróðursetningu þeirra.

Skógarplöntur

Á Íslandi eru notaðar aðrar tegundir og önnur kvæmi trjáa en gerist og gengur í nágrannalöndunum. Hér ríkja aðrar umhverfisaðstæður hvað varðar veðurfar og daglengd en þessi atriði hafa mikil áhrif á vöxt og þroska plantna, þannig að ekki er hægt að heimfæra rannsóknarniðurstöður að utan í öllum tilfellum. Rannsóknir á sviði plöntugæða, s.s. frostþolsprófanir og aðferðir við gæðamat, eru nauðsynlegar. 

Ræktunartækni í skógarplöntuframleiðslu hefur þróast talsvert á Íslandi. Þó hefur þróunin ekki fylgt því sem gerist í þeim nágrannalöndum okkar sem þróuðust eru á þessu sviði, t.d. Svíþjóð. Fáir framleiðendur stunda skógarplöntuframleiðslu sem aðalræktun sem hefur leitt til þess að framleiðsla skógarplantna í landinu er mjög viðkvæm fyrir breytingum, t.d. í mannahaldi eða sveiflum í framlögum hins opinbera til nýskógræktar.

Gróðursetningar

Stórfelldar gróðursetningar á vegum bænda hafa ekki verið stundaðar nema fáeina áratugi hérlendis. Fjölmargir þeirra bænda sem stunda skógrækt hafa ekki þekkingu eða reynslu í skógrækt. Vinnubrögð við gróðursetningu skipta sköpun um lifun og árangur í skógrækt. 

Mismunandi plöntugerðir og aðferðir við undirbúning lands geta einnig skipt sköpum um lifun nýgróðursetninga og viðgang skógarins. Nauðsynlegt er að efla rannsóknir á plöntugerðum og aðferðafræði við gróðursetningar, auk þess að kanna vel ástæður affalla og þróa leiðir sem geta bætt lifun í nýgróðursetningum.

Skjólbelti

Skjólbeltarækt getur þjónað margþættu hlutverki. Auk þess að vera skjólgjafi fyrir búfé auka skjólbelti uppskeru og geta stýrt snjósöfnun. Með aukinni kornrækt ætti áhugi á skjólbeltarækt að aukast. Mjög litlar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum skjólbelta á uppskeruaukningu hérlendis. Þætti eins og tegundanotkun og uppbyggingu skjólbelta mætti kanna betur.

Hlutverk rannsóknasviðs

Það er hlutverk rannsóknasviðs Skógræktarinnar að afla vísindalegra gagna um nýræktun skóga og skjólbelta og miðla upplýsingum til skipulags- og framkvæmdaraðila, landnotenda og annarra sem þurfa á þeim að halda, einkum hvað varðar:

  • að réttar tegundir og kvæmi séu í notkun með aðlögun skóga að breyttu loftslagi í huga (tengsl við fagsvið um erfðamál)
  • gæði skógarplantna
  • gróðursetningar og jarðvinnslu
  • gerð skjólbelta og áhrif þeirra á aðra ræktun