Síðla árs 2013 kom út skýrsla á vegum Skógræktarinnar þar sem kynnt var ný skráning á fasteignum stofnunarinnar. Þá voru 76 skráðar eignir í eigu Skógræktarinnar, íbúðarhús, eyðibýli, skemmur, vinnuaðstöðuhús, orlofshús, gróðurhús, jarðhús, braggar og ein kirkja.

Eignir Skógræktarinnar eru, eins og starfsemi stofnunarinnar, dreifðar um mestallt land og eru hér skráðar eftir starfstöðvum skógarvarðanna auk eigna á svæði Mógilsár sem eru tilteknar sér. Rétt er að taka fram að þessar eignir eru ekki til sölu.

Vinna við skráningu þessa hófst sumarið 2012 og var lokið á haustdögum 2013. Skráningin nær yfir 76 fasteignir. Óskráðar voru þá 20-25 eignir, vinnuskúrar, snyrtingar og bráðabirgðahús sem orðið hafa til með ýmsum hætti og flokkast frekar sem lausafé en fasteignir.

Tilgangur skýrslunnar var að gefa eins skýra mynd og kostur er af fasteignum Skógræktarinnar með upplýsingum um stærð, ástand, notagildi og sögulegt yfirlit. Með aðgengi að þessum upplýsingum var þess vænt að auðveldara yrði fyrir Skógræktina að taka ákvarðanir um viðhald og ráðstöfun eigna í þeim tilgangi að tryggja framtíð þeirra og varðveislu.

Með hliðsjón af skýrslunni mátti einnig ætla að auðveldara yrði að áætla upphæð þeirra fjármuna sem nauðsynlegt yrði að veita til viðhalds eigna á næstu árum. Skýrslan var unnin með stuðningi Húsafriðunarnefndar frá 2012 og Minjastofnunar Íslands  frá 2013 og eru þeim færðar þakkir fyrir stuðninginn.

Skjal með öllum fasteignunum uppfært í nóv. 2013 og lítillega í nóv. 2014