Með umhverfisstefnu sinni vill Skógræktin stuðla að sjálfbærri skógrækt í sátt við umhverfið og ná umhverfismarkmiðum á starfstöðvum sínum

Inngangur

Skógræktin vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum, að neikvæð umhverfisáhrif af starf­seminni séu í lágmarki og aðgerðum sé beitt til að bæta um fyrir þau. Stofnunin leggur áherslu á að draga úr losun eftir megni. Sömuleiðis mun stofnunin kolefnis­jafna með sér­stökum gróðursetningarverkefnum alla losun sem af starf­semi hennar hlýst. Stefnt er að alþjóðlegri vottun á allri kolefnisjöfnun Skógræktarinnar.

Sjálfbærni er höfð að leiðarljósi í allri starfsemi stofnunarinnar. Á undanförnum árum hefur stofnunin stigið mörg skref í átt til þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og sam­félag, svo sem með fjarfundum í stað fundaferða, aukinni sorpflokkun og notkun heimafengins efnis í stað aðkeypts.

Skógræktin tekur virkan þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri og lauk öllum skrefunum fimm í desember 2021. Starfshópur skipaður fulltrúa frá hverri starfstöð vinnur að Grænum skrefum og kallast „Græni herinn“. Þetta er verkefni sem aldrei lýkur og því starfa bæði umhverfis­hópur fyrir hönd framkvæmdaráðs stofnunarinnar og Græni herinn áfram með virkri þátttöku starfsfólks.

Skógræktin efnir til verkefna sem hjálpa öðrum að nýta skóga og skógrækt til að ná árangri í umhverfismálum. Gott dæmi um það er verkefnið Skógarkolefni, sjá skogarkolefni.is.

Lögbundin hlutverk Skógræktarinnar eru mikilvæg umhverfismál, að vernda skóga sem fyrir eru í landinu og rækta nýja skóga, stunda rannsóknir og þróun og veita fræðslu um skóga og skógrækt en einnig stuðla að nytjum á þeim vistvænu afurðum sem skógarnir gefa.

Hér á eftir er umhverfisstefna Skógræktarinnar tíunduð nánar með framtíðarsýn, markmið­um, aðgerðum, kostnaðarmati og tímasetningu markmiða.

Stefna

Skógræktin hefur sjálfbærni, vernd og eflingu umhverfisins að leiðar­ljósi í öllu sínu starfi. Á þann hátt leggur stofnunin sitt af mörkum til að mæta þörfum sam­tím­ans, án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Skógræktarinnar til að draga úr álagi á umhverfið, auka gæði og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi. Stefnan tekur til allrar starfsemi Skógræktarinnar, allt frá skrifstofuhaldi og ræstingu húsnæðis til verklegra framkvæmda og ferða. Hún á einnig við um innkaup, vinnu­umhverfi, notkun auðlinda og meðferð efna og úrgangs.

Skógræktin fylgir lögum og reglum um umhverfismál í starfsemi sinni, heldur grænt bókhald og fer­ eftir stefnu stjórnvalda um vistvæn innkaup og rafræna stjórnsýslu, sem skiptir miklu máli í framkvæmd umhverfisstefnunnar.

Sviðstjórar eru ábyrgir fyrir framkvæmd stefnunnar. Allt starfsfólk Skógræktarinnar skal fram­fylgja umhverfisstefnunni og hafa hana að leiðarljósi í störfum sínum. Sérhver starfs­maður sýnir gott fordæmi og leggur sitt af mörkum í þágu umhverfis og sjálfbærni.

Skógræktin vinnur áfram að því að uppfylla markmið Grænna skrefa í ríkisrekstri. Árlega skal yfirfara umhverfisstefnu Skógræktarinnar, uppfæra eftir þörfum og taka út hvernig til hefur tekist með vísan í tölur úr grænu bókhaldi stofnunarinnar. Upplýsingarnar verða aðgengi­legar á vef Skógræktarinnar.

Stefnt er að því að losun Skógræktarinnar verði að minnsta kosti 40 prósentum minni 2030 en hún var 2018.

Markmið og aðgerðir - Áfangar til 2030

Skógræktin skal hafa sjálfbærni, vernd og eflingu umhverfisins að leiðarljósi í öllu starfi sínu. Úrbætur í rekstri og þjónustu skulu miðast við að minnka neikvæð um­hverfisáhrif en auka þau jákvæðu. Auðlinda- og efnanotkun skal halda í lágmarki og forðast hvers kyns mengun. Stöðugt skal unnið að því að draga úr úrgangi og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Óska skal eftir því að við ákvörðun framlaga til Skóg­ræktarinnar sé gert ráð fyrir orkuskiptum í bílaflota stofnunarinnar. Stofnunin jafnar alla óhjákvæmilega losun gróðurhúsalofttegunda með sérstökum kolefnis­skógum á löndum í umsjón sinni. Stofnunin heldur grænt bókhald og fylgir Grænum skrefum í ríkisrekstri.

Áfangar

  1. Árlegt. Umhverfisstefna Skógræktarinnar skal endurskoðuð árlega og markmið upp­færð. Þriggja manna umhverfishópur sem framkvæmdaráð skipar skal hafa umsjón með verkinu og bera breytingar undir ráðið. Í upphafi árs skal hópurinn huga að nauðsynlegum aðgerðum til að markmið ársins náist.
    Ábyrgð: Umhverfishópur
  2. Árlegt. Árlega skal kynna starfsmönnum hvað hafi áunnist í umhverfismálum. Jafn­óðum er uppfærð framvinduskýrsla með árangursmati á settum mark­miðum.
    Ábyrgð: Umhverfishópur og rekstrarsvið
  3. Árlegt. Á hverju ári skal taka saman eldsneytiskaup Skógræktarinnar, akstur leigu- og bílaleigubíla og flugferðir, reikna út losunina sem af þessu hlýst og hversu mik­inn skóg þurfi að rækta til að kolefnisjafna hana. Sumarið eftir skal gróður­sett að fullu á móti losun fyrra árs í sérstökum kolefnis­reitum á vegum Skóg­rækt­arinnar. Jafnframt skal rækta skóga sem binda losun vegna rekstrar Skógræktarinnar (áður Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna) allt aftur til 1990. Kolefnisjöfnun skal vottuð af löggiltri vottunarstofu.
    Ábyrgð: Rekstrarsvið
  4. 2022-2030. Nýjar bifreiðar sem keyptar eru eða leigðar til starfsemi Skógræktarinnar skulu vera hreinir rafbílar, tengiltvinnbílar, vetnis- eða metanbílar eftir því sem mögu­legt er. Óska skal eftir framlögum til orkuskipta í samgöngum þegar fjárþörf stofnun­ar­innar er metin vegna fjárlagagerðar hvers árs.
    Ábyrgð: Rekstrarsvið
  5. Árlegt. Fjarfundir skulu vera regla hjá stofnuninni en ferðalög vegna fundahalda innan­lands undantekning. Mælast skal til hins sama á fundum með fólki utan stofnunar­innar. Óska skal eftir því að reglulegir fundir hópa í alþjóðlegu samstarfi verði a.m.k. að hluta haldnir með fjarfundakerfi.
    Ábyrgð: Viðkomandi starfsmaður í hvert sinn
  6. Árlegt. Engum lífrænum úrgangi skal skilað til urðunar frá starfstöðvum Skógræktar­innar og ílát fyrir lífrænan úrgang skulu vera í boði á tjald- og hjólhýsasvæðum.
    Ábyrgð: Skógarvörður eða fulltrúi á viðkomandi starfstöð
  7. Árlegt. Skógræktin hefur náð öllum grænum skrefum í ríkisrekstri og skal sjá til þess að stofnunin viðhaldi þeim árangri og standist endurúttektir með auknum kröfum.
    Ábyrgð: „Græni herinn“
  8. 2022-2023. Aðstaða fyrir hjólreiðafólk á starfstöðvum, tjaldsvæðum og helstu áningar­stöðum í þjóðskógum skal vera til fyrirmyndar með hjólastæðum, hleðslupóstum og annarri aðstöðu skv. viðmiðum Hjólafærni.
  9. 2022-2023. Komið verði upp rafhjólum á starfstöðvum Skógræktarinnar til að sinna styttri erindum og þar sem hjól henta betur en stærri farartæki.
    Ábyrgð: Hjólahópur í samvinnu við fulltrúa starfstöðva
  10. 2025. Eingöngu skal nota lífrænan glussa (vökvakerfisolíu) á vélar Skógræktarinnar eftir því sem tæki stofnunarinnar leyfa.
    Ábyrgð: Skógarverðir og sviðstjóri þjóðskógasviðs
  11. 2025. Nýjar keðjusagir á vegum Skógræktarinnar skulu vera rafknúnar.
    Ábyrgð: Skógarverðir og sviðstjóri þjóðskógasviðs
  12. 2030. Að minnsta kosti helmingur bifreiða og annarra farartækja í rekstri hjá Skóg­ræktinni skal vera knúinn endurnýjanlegri orku eingöngu.
    Ábyrgð: Rekstrarsvið

Aðföng

  • Velja skal umhverfismerktar vörur í samræmi við stefnu ríkisins um vistvæn innkaup. Íhuga skal í hvert sinn hvort vörukaup séu nauðsynleg.
  • Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Velja ber þann kost sem síst telst skaðlegur umhverfinu.
  • Forðast skal notkun einnota aðfanga, s.s. einnota borðbúnaðar og óþarfa umbúða.

Rekstur og viðhald

  • Við rekstur og viðhald bygginga og svæða á vegum Skógræktarinnar skal velja vist­væna kosti hverju sinni eins og kostur er, s.s. málningarvörur, ljósaperur, áburð o.fl. Nýta skal timbur úr eigin skógum eftir megni.
  • Upplýsa skal verktaka um stefnu Skógræktarinnar í umhverfismálum og gera kröfur um að þeir fylgi henni eftir.
  • Allur tölvu- og skrifstofubúnaður skal vera með viðurkennd umhverfismerki.
  • Fylgjast skal vel með þróun umhverfismildra véla og tækja til notkunar í skógrækt og ávallt velja tæki knúin grænum orkugjöfum þegar þau standast þær kröfur sem gerðar eru við störfin.

Nýting orkuauðlinda

  • Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu, slökkva á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags eða þegar ekki er nauðsynlegt að hafa kveikt.
  • Tryggja skal eðlilegt viðhald á ökutækjum og vélum svo að orkunýtni sé í hámarki og útblástur mengandi efna í lágmarki.
  • Starfsfólk skal hvatt til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til og frá vinnu, hafi það kost á því, meðal annars með því að boðið sé upp á samgöngu­samninga.

Efnanotkun

  • Fara sparlega með efni og efnavörur, t.d. við uppþvott og ræstingar, hreinsun á vélum og tækjum, vélaskemmum o.s.frv.
  • Allar ræstivörur sem notaðar eru hjá Skógræktinni skulu vera merktar með viður­kenndu umhverfismerki, s.s. Norræna svaninum, Evrópublóminu eða Bra Miljöval. Gera skal kröfu um þetta í samningum við verktaka sem ráðnir eru til ræstinga á hús­næði Skógræktarinnar.
  • Nota skal lífrænan glussa á vélar eftir megni og lífræna keðjuolíu á sagir.
  • Gæta skal vel að því að olíur, eldsneyti og önnur efni sem notuð eru á vélar berist ekki út í umhverfið. Notuðum efnum skal koma rétta leið til förgunar.

Endurnýting og meðferð úrgangs

  • Draga skal eftir megni úr því sorpi sem fellur til vegna starfseminnar.
  • Flokka skal og ganga frá úrgangi í samræmi við leiðbeiningar sveitar­félags og sorp­þjónustu á hverjum stað.
  • Stöðugt skal draga úr pappírsnotkun, m.a. með því að prenta báðum megin á blöð og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu. Minnismiða má búa til úr afgangs­pappír eða notuðum pappír.
  • Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, s.s. rafhlöðum, prent­hylkjum, ljósa­perum og málningarvörum.
  • Öllum öðrum úrgangi skal fargað á viðeigandi hátt.
  • Þar sem lífrænn úrgangur er ekki hirtur og jarðgerður af hálfu sveitarfélags skal koma upp aðstöðu til jarðgerðar.

Samgöngur

  • Velja skal fyrst og fremst umhverfisvænar leiðir í samgöngum þegar ferð­ast er á veg­um Skógræktarinnar, t.d. óska eftir vistvænum ökutækjum á bílaleig­um og leigubíla­stöðvum, samnýta eigin bifreiðar og leigu­bíla, nýta almennings­­samgöngur og ganga eða hjóla styttri vega­lengdir.
  • Halda skal fjarfundi eftir því sem kostur er. Óska skal eftir raf­rænni þátttöku í fundum, málþingum og ráðstefnum þegar hentar. Óska skal eftir því að reglulegir fundir al­þjóð­legra hópa verði a.m.k. að einhverju leyti haldnir með rafrænum hætti.
  • Við kaup á bifreiðum fyrir Skógræktina skal velja sparneytin og visthæf öku­tæki. Árið 2030 skulu öll ný ökutæki á vegum Skógræktarinnar knúin endur­nýjan­legri orku og a.m.k. helmingur allra ökutækja í rekstri.

Kostnaðarmat

Metinn verður kostnaður eða sparnaður af hverri aðgerð. Upplýsingarnar liggja fyrir í grænu bókhaldi.

Umhverfisvísar og fræðsla

Skógræktin skal halda grænt bókhald og hafa upplýsingar úr því aðgengilegar á vef stofnunarinnar. Með því skal vakta árangurinn með það að markmiði að stuðla að betri nýtingu auðlinda, draga úr sóun og auka endurnýtingu og endurvinnslu. Starfsfólk Skógræktarinnar fær reglulega fræðslu um umhverfismál.

  1. Flugferðir og akstur – grænt bókhald
  2. Flokkun, endurvinnsla, sorp – vigta á starfstöðvum
  3. Kolefnislosun og -binding – bókhald, mælingar og vottun