Meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins.

Almennt um skóginn

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í hinum gömlu „höfuðskógum Íslands“, Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi.

Staðsetning og aðgengi

Vegfarendur á leið milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu sem vilja njóta landslagsins og ekki eru á hraðferð geta farið Grenivíkur veg út með Eyjafirði að austan, fram hjá Laufási og um Dalsmynni yfir í Fnjóskadal.  Þar handan við Fnjóská blasir við frá þjóðveginum á alllöngum kafla einn af stórskógum Íslands, Mela- og Skuggabjargaskógur.

Vilji fólk komast í skóginn er hins vegar styttra að aka um Víkurskarð eða Vaðlaheiðargöng og út að bænum Draflastöðum vestan megin í Fnjóskadal. Beygt er til norðurs frá þjóðvegi nr. 1, vestan Fnjóskár, skammt neðan Víkurskarðs og fram hjá Draflastöðum. Jeppafær vegur liggur þaðan að Mela- og Skuggabjargaskógi. Hann er ekki vel merktur en ekki er um marga akvegi að ræða á þessu svæði og því erfitt að villast. Það er svolítið ævintýri að komast að skóginum en vel þess virði.

Aðstaða og afþreying

Engin sérstök aðstaða er til útivistar í skóginum nema það sem skógurinn býður á náttúrlegan hátt. Víða er þægilegt að ganga um þennan vegna þess hve stórvaxinn hann er og er hann að því leyti ólíkur þéttvöxnu birkikjarri sem víða má finna og gjarnan er torfært göngufólki.

Saga skógarins

Skógræktin eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var síðan friðaður fyrir beit. Þessar jarðir fóru svo snemma í eyði að á þem voru aldrei reist steinsteypt hús. Þar eru því eingöngu rústir torfbæja og tún sem aldrei voru unnin á nútímamáta. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur að ráði og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám.

Trjárækt í skóginum

Á skóglausu svæði í kringum gamla bæjarstæðið á Skuggabjörgum var gróðursett nokkuð af lerki, furu og greni um og eftir 1985. Annars er skógurinn stórvaxinn, náttúrlegur birkiskógur sem hefur þróast lítt snortinn í u.þ.b. 60 ár. Birkið er síst lágvaxnara en í Vaglaskógi og mikið um hvítstofna tré. Skógurinn er hreint út sagt einhver glæsilegasti birkiskógur landsins.

Annað áhugavert í skóginum

Fnjóská liðast um Fnjóskadal fyrir neðan skóginn og fjallasýn er fögur, meðal annars til Flateyjardals. Í skóginum er mjög gott berjaland og fuglalíf mikið.