Timburbyggingar kosta ekki meira en steinsteyptar byggingar og ending þeirra er engu síðri, jafnvel meiri. Vegna mikillar koltvísýringslosunar sem hlýst af notkun stáls og steinsteypu verða hönnuðir bygginga að snúa sér að því að hanna byggingar úr timbri. Það er auðveld og árangursrík loftslagsaðgerð.

Norðmenn og fleiri þjóðir huga æ meir að aukinni notkun timburs í byggingar. Þessir gríðarmiklu loftbitar eru í brottfararsal flugstöðvarinnar á Gardemoen-flugvelli við Ósló og koma í stað mengandi stáls eða steinsteypu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞau orð hafa gjarnan verið látin falla að steinsteypa sé „hið íslenska byggingarefni“, eða eitthvað í þá veru. Þetta er auðvitað lýsing á þeirri staðreynd að flestar byggingar á Íslandi eru úr steinsteypu. Það þýðir þó ekki að svo þurfi endilega að vera eða að seinsteyptar byggingar séu eitthvað „íslenskari“ en byggingar úr öðrum efnum. Í aðgerðum gegn hlýnun loftslagsins er þetta atriði sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun hér á landi, en full ástæða er þó til slíkrar umfjöllunar. Steinsteypa skilur nefnilega eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor.

Eigi mannkyninu að takast að hægja á hnattrænni hlýnun verður að velta við öllum steinum til að finna mögulegar leiðir. Í þeim öllum felast breytingar og því munu þær allar taka nokkurn tíma í innleiðingu svo forðast megi verstu efnahagslegu og umhverfislegu afleiðingar loftslagsbreytinga. Þess vegna þarf að byrja strax. Sumir vilja ráðast á vegginn þar sem hann er hæstur og taka á verstu losurum gróðurhúslofttegunda, svo sem samgöngum og almennri neyslu, en þar er líka mesta tregðan til breytinga. Allur almenningur þarf að breyta hegðun sinni svo árangur náist og vilji til þess er takmarkaður. Það mun því taka langan tíma.

Á öðrum sviðum er mun minni tregða og breytingar geta jafnvel haft efnahagslega og umhverfislega jákvæð áhrif til viðbótar við að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Dæmi um það væri að breyta um áherslur í byggingarefnum húsa, hverfa frá steypu og stáli og yfir í við.

Virka efnið í sementi, sjálft límið, er kalsíumoxíð. Það er framleitt með því að hita (brenna) kalkstein, sem er kalsíumkarbónat á efnafræðingamáli. Við þá vinnslu losnar koltvísýringur út í andrúmsloftið. Jafnan er svona:

Auk sements eru síðan önnur steinefni, sandur, möl og bindijárn í steinsteypu. Járnvinnsla hefur enn meira kolefnisfótspor en sementsframleiðsla, hvort sem járnið er frumunnið eða endurunnið og flutningur á þungum sandi og möl skilar líka sínu. Sement er ekki lengur framleitt á Íslandi og því þarf að flytja það inn.

Timbur þarf líka að flytja inn því innlendir skógar framleiða lítið magn enn sem komið er. Vinnsla og flutningur timburs skilur vissulega eftir sig kolefnisfótspor en bæði er það umtalsvert minna en kolefnisfótspor steinsteypu og svo nemur sá koltvísýringsútblástur aðeins broti af því sem trén drógu úr andrúmsloftinu og bundið er í viðnum. Að skipta út steinsteypu, stáli og áli fyrir timbur og aðrar viðarafurðir í byggingum er með því besta sem hægt er að gera í loftslagsmálum. Niðurstöður rannsókna sýna að fyrir hvert tonn af timbri sem notað er í stað steinsteypu dragi úr losun á CO2 út í andrúmsloftið um að jafnaði 2,2 tonn.* Og þetta er hægt að gera, hægt í orðins fyllstu og upprunalegustu merkingu. Það er hægt af því að það felur ekki í sér að allur almenningur breyti um hegðun og það er hægt af því að það er hagkvæmt. Timburbyggingar kosta ekki meira en steinsteyptar og þær endast jafnlengi eða lengur. Allt sem þarf að gerast er að hönnuðir bygginga auki notkun timburs á kostnað steinsteypu.

* Study analyses contribution of wood products to climate change mitigation

Texti: Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri