Stórbrotið svæði með fjölbreyttu landslagi og gömlum, ævintýralegum skógi – þeim sem næst kemst náttúrulegum birkiskógi á Íslandi.

Almennt um skóginn

Leiðin að Þórsmörk er nokkuð torfær og góður jeppi er því nauðsynlegur ef aka skal á Þórsmörk. Þangað má líka taka rútu, hjóla eða ganga. Ferðalagið er vel þess virði því Þórsmörk er einhver fegursti staður á Íslandi. Svæðið er stórbrotið með fjölbreyttu landslagi og ævintýralegum skógi – þeim sem kemst næst náttúrulegum birkiskógi hér á landi. Skálar og tjaldsvæði eru í umsjón ferðafélaga.

Staðsetning og aðgengi

Mörkin er  hálendistunga vestur af Mýrdalsjökli á milli Krossár og Markarfljóts, í rúmlega 150 km fjarlægð frá Reykjavík. Goðaland liggur inn af Þórsmörk.

Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á þjóðveg 249 við Seljalandsfoss. Mælt er með því að fólk ferðist á Þórsmörk á öflugum fjórhjóladrifnum farartækjum sem hátt er undir, enda er farið yfir ár og læki á leið þar inn eftir.

Aðstaða og afþreying

Þórsmörk er þekkt útivistarparadís á Suðurlandi og vinsæll ferðamannastaður.

Skálar og tjaldsvæði eru í umsjón ferðafélaga. Skáli Ferðafélags Íslands er í Langadal (Skagfjörðsskáli), skáli Kynnisferða í Húsadal og Farfuglar eru með skála í Slyppugili. Á svæðinu eru sturtur og baðlaug fyrir lúna ferðamenn. Tjaldstæði eru í Langadal, Össugili í Húsadal, Slyppugili, Stóra-Enda og Litla-Enda. Í Goðalandi er Útivist með skála og tjaldstæði í Básum.

Merktir göngustígar eru víða um svæðið og suðurendi hins svo kallaða Laugavegar er á Þórsmörk, en hann er talinn meðal 10 bestu gönguleiða í heimi.

Saga skógarins

Árið 1919 fóru 40 bændur úr Fljótshlíð fram á það að Skógræktin tæki að sér vörslu Þórsmerkur og girti landið af því að það væri í stórhættu vegna uppblásturs. Var landið afhent Skógræktinni og var Þórsmörk girt árið 1924 ásamt nálægum afréttum.  Árið 1990 var girðingin flutt mun vestar og lokar nú ein girðing við Gígjökul öllu Þórsmerkursvæðinu fyrir beit. Við friðunina hefur landið tekið miklum stakkaskiptum og hefur birki dreift sér um alla Mörkina og á nálæga afrétti. Undanfarinn aldarfjórðung hefur útbreiðsla birkisins á Þórsmörk rúmlega tvöfaldast, úr fjórum ferkílómetrum í tíu.

Trjárækt í skóginum

Merkur er árangur beitarfriðunar og sjálfboðavinnu í uppgræðslu undanfarna áratugi. Birki hefur bæði sáð sér á Krossáraura og í yfir 500 m hæð í fjallshlíðum, t.d. í Tindfjöllum. Lítið var gróðursett af innfluttum trjátegundum á svæðinu en þó er það að finna ýmsar tegundir á nokkrum stöðum. Talsvert er enn um rofið land sem unnið er í að græða upp. Sjálfboðaliðahópar fólk hvaðanæva úr heiminum vinna þrekvirki á hverju sumri að viðhaldi og gerð stígamannvirkja og að landbóta- og uppgræðslustarfi. Leitast er við að mannvirkin falli sem best í landslagið og í mannvirkin er eingöngu notað íslenskt timbur úr skógum Skógræktarinnar.

Annað áhugavert á svæðinu

Náttúra er stórbrotin á Þórsmörk, fjölbreytt og um leið fögur. Sjá má jökla, jökulár, hamragil, tinda, dali, skóg og fjölgresi.

Frá Þórsmörk liggja margar vinsælar og fjölfarnar gönguleiðir, m.a. Laugavegurinn og Fimmvörðuháls.

Á Valanhnjúki er hringsjá í  458 m hæð.