Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hefur samið við Skógræktina um að þróa kolefnisverkefni í landi jarðarinnar Freyshóla á Fljótsdalshéraði. Þar hyggst fyrirtækið binda kolefni með nýskógrækt á um 30 hektara svæði. Gróðursetningu á að ljúka vorið 2023 og með verkefninu verða til vottaðar kolefniseiningar sem tryggja ábyrga kolefnisbindingu á móti samsvarandi losun vegna starfsemi Eskju. Með þessu verður Eskja fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið sem ræðst í ábyrga kolefnisjöfnun sam­kvæmt kröfum Loftslagsráðs.
Starfsfólk verktakans Gone West hefur nú lokið gróðursetningu sem líklega er sú stærsta sem um getur í sögu skógræktar á Íslandi. Hópurinn gróðursetti hátt í hálfa milljón birkiplantna á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar í nýliðnum septembermánuði.
Á Líffræðiráðstefnunni sem haldin verður dagana 14.-16 október stendur Skógræktin fyrir málstofu undir þemanu Loftslagsbreytingar og skógrækt – tækifæri og áskoranir í skóglausu landi. Ráðstefnan fer fram annað hvert ár og er nú haldin í tíunda sinn.
Skógrækt bænda á Íslandi skilar afurðum og tekjum talsvert fyrr en vænta mátti, sem rennir nýjum stoðum undir búskap og afkomu fólks í sveitum landsins. Þetta segir Hrefna Jóhannesdóttir, skógfræðingur og bóndi á Silfrastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði, í samtali við Morgunblaðið.
Í aðsendri grein eftir Svein Runólfsson og Andrés Arnalds í Morgunblaðinu 28. september er spurt hvort ekki sé löngu tímabært að hætta notkun stafafuru hér á landi. Svarið er nei. Hvorki stafafura né aðrar trjátegundir eru ágengar hér á landi.