Í nýútkomnu tölublaði af Riti Mógilsár er lýst úttekt á kolefnisbindingu sem átt hefur sér stað í Kolviðarskógi á Hofssandi frá síðustu mælingu árið 2014. Í ljós kemur m.a. að töluverð sjálfsáning birkis á sér stað sem mun hraða kolefnisbindingu svæðisins. Þá hefur binding í trjágróðri á svæðinu tvöfaldast á þeim sex árum sem liðu milli mælinga. Í spá fram til 2030 er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu á árlegri bindingu.
Um 100 metra löng göngu- og hjólabrú sem að verulegu leyti er smíðuð úr alíslensku timbri er nú tilbúin til notkunar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Brúin liggur yfir Þjórsá við Búrfell og verður einnig opnuð hestafólki þegar framkvæmdum sem nú standa yfir við Búrfellsvirkjun er lokið.
Samningur hefur verið undirritaður við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið um að verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður verði stækkað og nautgripabændum boðin þátttaka í því. Auglýst hefur verið eftir fimmtán þátttökubúum í nautgriparækt sem hafa áhuga á að setja sér skriflega aðgerðaráætlun fyrir búreksturinn, hrinda markmiðum í framkvæmd og vera virkir þátttakendur í vegferð landbúnaðarins að loftslagsvænum lausnum.
Íslendingar hlutu fimm af átta styrkjum sem úthlutað var í vor í samvinnu NordGen og Norrænna skógrannsókna, SNS. Megináherslan í íslensku umsóknunum var á skógarplöntuframleiðslu og rannsóknir sem henni tengjast. Alls nemur upphæð styrkjanna sem renna til Íslands 62.000 norskum krónum sem samsvarar tæpum 900.000 íslenskum krónum.
Framkvæmdir við skógrækt eru hafnar á Ormsstöðum í Breiðdal. Þar verður gróðursett til skógar á um 140 hekturum lands á næstu tveimur árum með aðstoð frá samtökunum One Tree Planted. Ummerki um þá jarðvinnslu sem þar fer nú fram hverfa á fáum árum en jarðvinnslan flýtir fyrir því að skógur komi í landið.