Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Lambhaga, hefur útnefnt gráreyni að Skógum í Þorskafirði sem tré ársins 2020. Tréð var sæmt titlinum við hátíðlega laugardaginn 29 ágúst. Gráreynir hefur ekki áður verið útnefndur tré ársins hjá félaginu.
Ákveðið hefur verið að aflýsa Fagráðstefnu skógræktar 2020 sem ráðgerð hafði verið í októbermánuði á Hótel Geysi í Haukadal. Stefnt er að því að Fagráðstefna 2021 verði haldin á sama stað 6.-8. apríl 2021 með fyrirvara um breytingar.
„Miklar skemmdir sjást á stafafuru og skógarfuru í sumar. Á Héraði litar dautt barr heilu lundina brúna.“ Þannig hefst inngangur að frétt sem birtist í fréttum Sjónvarps laugardaginn 22. ágúst. Þar er rætt við skógræktarstjóra, sem segir að furan þoli illa salt sem ýrðist yfir landið í janúar. Trén hafi eins konar ofnæmi fyrir saltinu.
Sitkagrenið á Klaustri sem borið hefur titilinn hæsta tré landsins undanfarin ár vex um hálfan metra á ári. Að óbreyttu nær það 30 metra hæð sumarið 2022. Metingur hefur verið með Sunnlendingum og Austfirðingum um hvorir eigi hæstu öspina á Íslandi. Þótt Sunnlendingar geti státað af hæsta sitkagreninu verða þeir að bíta í það súra með öspina. Sú hæsta er á Hallormsstað og hefur náð yfir 26 metra hæð.
Aðsókn að tjaldsvæðum Skógræktarinnar í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi hefur verið með mesta móti í sumar. Frá byrjun ágústmánaðar og fram til 17. ágúst voru gistinætur á Hallormsstað orðnar um 6.500 en fyrra met í ágústmánuði var frá árinu 2002 þegar gistinætur urðu um 4.300. Íslendingar hafa verið mest áberandi í sumar en fjöldi útlendinga hefur farið vaxandi fram undir þetta.