Vegna illviðrisins sem nú gengur yfir landið liggur nú fyrir að ráðstefnan „Tímavélin hans Jóns“ sem fara átti fram í Valaskjálf á Egilsstöðum á morgun, miðvikudaginn 2. desember, getur ekki farið fram eins og fyrirhugað hafði verið. Í dag var því ákveðið að fresta ráðstefnunni fram í janúar. Stefnt er að því að dagskráin verði lítið eða ekkert breytt þrátt fyrir frestunina.
Rússasúpa er fastur liður á árlegum jólamarkaði sem haldinn er í húsakynnum Barra á Héraði. Í súpunni er hangikjöt, grænar baunir og fleira jólalegt en ekki er síður jólalegt það sem á markaðnum fæst, jólatré og greinar, eldiviður, allt í jólamatinn, handverk og fleira. Jólakötturinn er nú haldinn í tíunda sinn og fer að þessu sinni fram laugardaginn 12. desember.
Á loftslagsráðstefnunni miklu sem hófst í gær í París var haldinn sérstakur skógarmálafundur þar sem leiðtogar sautján skóglendra ríkja úr öllum byggðum heimsálfum gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um skóga og loftslagsmál. Ríkin lýsa því yfir að skógar séu lykillausn í loftslagsmálum. Leiðtogarnir ítrekuðu nauðsyn þess að gripið yrði til virkra aðgerða til réttlátrar efnahagsþróunar í dreifbýli um leið og eyðing skóga yrði stöðvuð og endurreisn skóglendis efld að mun.
Meiningin er að leggja fram sérstakt frumvarp á vorþingi um sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt. Stefnt er að því að stofnanirnar sameinist á miðju næsta ári. Í frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir er lagt til að hin nýja stofnun verði látin heita Skógræktin.
Sverrir Thorstensen fuglamerkingamaður talar um fugla í skógum á fyrsta fræðslufundi vetrarins í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri. Fundurinn verður á morgun, föstudaginn 27. nóvember, kl. 10. Í erindi sínu sýnir Sverrir myndir Eyþórs Inga Jónssonar, organista og fuglaáhugamanns, og ræðir um áhrif skógræktar á fuglalífið á Íslandi, um fuglamerkingar og fleira.