Rússasúpan á sínum stað

Rússasúpa er fastur liður á árlegum jólamarkaði sem haldinn er í húsakynnum Barra á Héraði. Í súpunni er hangikjöt, grænar baunir og fleira jólalegt en ekki er síður jólalegt það sem á markaðnum fæst, jólatré og greinar, eldiviður, allt í jólamatinn, handverk og fleira. Jólakötturinn er nú haldinn í tíunda sinn og fer að þessu sinni fram laugardaginn 12. desember.

Auk súpunnar góðu geta gestir gætt sér á nýbökuðum vöfflum með kakói og notið skemmtiatriða sem lífga upp á daginn og koma öllum í jólaskapið. Jólamarkaðurinn í Barra, Valgerðarstöðum í Fellum, hefst klukkan 12 og stendur til kl. 16.

Að markaðnum stendur Skógrækt ríkisins, Félag skógarbænda á Austurlandi, Héraðs- og Austurlandsskógar og Barri gróðrarstöð.