Forsíða fitjuskrárUndanfarin ár hafa ýmsar stofnanir og fyrirtæki safnað upplýsingum og gögnum um svæði, aðgerðir og úttektir í skógrækt. Þar á meðal eru Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands, Hekluskógar, Landgræðsla ríkisins og Landsvirkjun. Settir höfðu verið upp gagnagrunnar hjá þessum aðilum en gagnaskráning hefur ekki verið með samræmdum hætti. Ekki hafði verið til sameiginlegur staðall fyrir skráningu landupplýsinga á þessu sviði fyrir utan staðalinn IST 120:2012, Skráning og flokkun landupplýsinga – Uppbygging fitjuskráa. Sá staðall nær aðeins yfir hluta skráninga og var því ákveðið að setja saman fitjuskrá fyrir skógrækt sem byggð væri á ÍST 120 staðlinum, en fitjuskrár eru ekki gefnar út af Staðlaráði Íslands og eru þar af leiðandi ekki staðlar.

Þessari fitjuskrá fyrir svæði, aðgerðir og úttektir á sviði skógræktar er ætlað að auðvelda yfirsýn og utanumhald um þau gögn sem aflað er og enn fremur auka gæði landupplýsingagagna. Gert er ráð fyrir að notendur landupplýsinga á sviði skógræktar noti ÍST 120 staðalinn og fitjuskrána jöfnum höndum, m.a. vegna skylduskráninga ÍST 120 staðalsins sem ekki koma fram í fitjuskránum. Skráin var gerð árið 2013.