Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Á vormánuðum árið 2009 skrifaði Þröstur Eysteinsson, þáverandi sviðstjóri þjóð­skóg­anna en nú skógræktarstjóri, sögulega yfirlitsgrein í Ársrit Skógræktarinnar í tilefni af 100 ára afmæli stofnunarinnar. Greinin sem bar titilinn Öld Skógræktar ríkisins er uppistaðan í því sögulega yfirliti sem hér fer á eftir.

Aðdragandi til 1908

Áratugurinn fram að 1908 markar upphaf skógræktar á Íslandi. Danski sjóliðsforinginn Carl H. Ryder, sem verið hafði í Íslandssiglingum um nokkurt skeið, gerði sér grein fyrir því sem allt of fáir Íslendingar sjá, nefnilega að í skóglausu landi vantar skóg. Hann fékk skógfræðiprófessorinn Carl V. Prytz til liðs við sig og saman stofnuðu þeir Islands Skovsag, sem mætti þýða sem skógræktarmálefni Íslands. Þeir útveguðu styrki og réðu skógfræðinga, fyrst Christian E. Flensborg og síðar Agner F. Kofoed-Hansen, til að annast tilraunir í skógrækt á Íslandi.

Flensborg kom til Íslands öll sumur frá 1899 til 1906 en Kofoed-Hansen sumrin 1906 og 1907. Flensborg, ásamt Einari Helgasyni garðyrkjumanni, stofnaði til Furulundarins á Þingvöllum árið 1899 og Grundarreitar í Eyjafirði árið 1900 og fóru þar fram tilraunir með innfluttar trjátegundir. Hann stofnaði einnig til gróðrarstöðva við Rauðavatn, á Hallormsstað og á Vöglum í Fnjóskadal. Á öllum þessum stöðum vaxa enn tré frá þessum tíma.

Ríkið keypti tvo höfuðskóga Íslands, Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg, til að forða þeim frá eyðingu. Heimild þess efnis var veitt með lögum frá Alþingi 1898 og voru þetta jafnframt fyrstu skref í náttúruvernd á Íslandi.

Þeir Ryder og Prytz öfluðu stuðnings við skógrækt meðal stjórnmálamanna og annarra á Íslandi og má þar telja Hannes Hafstein Íslandsráðherra fremstan í flokki. Hann fékk Ryder, Prytz og Dahlerup sandgræðslufógeta á Jótlandi til að semja lagafrumvarp um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Frumvarpinu var tekið fremur fálega á Alþingi, sandgræðslukaflinn var felldur niður og frumvarpið varð að lögum með aðeins eins atkvæðis meirihluta þann 22. nóvember 1907.

Með lögunum var stofnað til Skógræktarinnar. Agner F. Kofoed-Hansen var ráðinn skógræktarstjóri og tók hann til starfa 15. febrúar 1908. Með því voru skógræktarmálefni Íslands komin í hendur íslenska ríkisins og Skógrækt ríkisins meðal fyrstu ríkisstofnanna lands sem hafði tæpum fjórum árum áður fengið heimastjórn.

1909-1918

Skógræktin fékk í vöggugjöf umsjón með Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi, Furulundinum á Þingvöllum og Grundarreit. Meðal fyrstu verka Kofoed-Hansens skógræktarstjóra var að ráða tvo skógarverði: Guttorm Pálsson á Hallormsstað og Einar E. Sæmundsen á Vagli. Auk þess réð hann Gunnlaug Kristmundsson til að vinna að sandgræðslu á Suðurlandi. Skógræktarlög gerðu ráð fyrir að skógarverðir tækju að sér sandgræðslu en Gunnlaugur hafði lært sandgræðsluaðferðir í Danmörku og var því tilvalinn til verksins. Með þessu má segja að Kofoed-Hansen hafi fylgt eftir hugmyndum Ryders, Prytz og Dahlerups sem komu fram í frumvarpinu, frekar en lögunum sem Alþingi samþykkti endanlega.

Á bréfa- og blaðaskrifum má lesa að Kofoed-Hansen var nokkuð umdeildur. Stjórnarskipti urðu 1908 og hann naut lítils stuðnings frá nýju stjórninni. Tíðarandinn var auk þess þannig að landsmenn voru ekki áhugasamir um að hlýða tilsögn dansks manns í einu eða neinu og því reyndist Kofoed-Hansen erfitt að framfylgja því ákvæði skógræktarlaga um að leiðbeina um skógrækt.

Haldið var áfram með tilraunir með innfluttar trjátegundir fyrstu árin en eftir 1912 dalaði áhugi Kofoed-Hansens á því, væntanlega vegna mikilla affalla og þess hversu erfitt var að fá fræ af heppilegum uppruna. Hann hafði þó alltaf trú á síberíulerki, þar sem hann taldi íslenska jarðveginn henta því vel. Í hans tíð sem skógræktarstjóri komst hann þó aðeins tvisvar yfir lerkifræ frá Rússlandi, árin 1913 og 1933. Lerktré úr sáningunni 1913 á Hallormsstað og Vöglum eru nú meðal glæsilegustu trjáa landsins.

Gerðar voru miklar tilraunir með beina sáningu birkis og fékk skógræktarstjóri skógarverðina á Hallormsstað og Vöglum til að safna og senda sér fræ til sáningar sem nam hundruðum kílóa. Ekki verður séð að neitt hafi komið úr því.

Árið 1914 fékk Skógræktin umsjón með tveimur skógum í viðbót: Vatnaskógi í Svínadal og Laugarvatnsbrekkum. Voru báðir friðaðir sama árið. Það ár var einnig samþykkt á Alþingi að fela Búnaðarfélagi Íslands umsjón með sandgræðsluframkvæmdum og var Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslumaður fluttur þangað frá Skógræktinni.

1919-1928

Gróðrarstöðvar Skógræktarinnar á Hallormsstað og Vöglum fjölguðu birki, reynivið, gulvíði og blæösp og seldu einkum til garðeigenda í þéttbýli. Ekki var fjöldinn mikill en garðmenning Íslendinga var hafin. Kofoed-Hansen hvatti til þess að trjágörðum yrði komið upp á lóðum opinberra bygginga í Reykjavík. Hann stóð m.a. að því að koma upp birkiskjólbeltum við Menntaskólann í Reykjavík og standa nokkrar birkihríslurnar þar enn þrátt fyrir átroðning í gegnum árin. Hugmynd hans um að rækta skóg á Arnarhóli náði þó ekki fram að ganga.

Árið 1925 kom út bókin Skógfræðileg lýsing Íslands eftir Kofoed-Hansen skógræktarstjóra. Þar safnaði hann saman þekkingu byggða á 25 ára reynslu af skógrækt á Íslandi auk þess sem fjallað var um eiginleika jarðvegs, sandfok og uppgræðslu.

Skógræktin eignaðist og friðaði Ásbyrgi og Sigríðarstaðaskóg í Ljósavatnsskarði árið 1927. Þá fékk Skógræktin umsjón með Þórsmörk og Goðalandi sama ár.

Ásókn í eldivið jókst mikið samfara uppbyggingu þéttbýlis. Nýju bárujárnsklæddu timburhúsin og steinsteyptu húsin reyndust köld og látið var loga á eldavélunum til að hita húsin auk þess að elda mat. Jarðvarmaveita var ekki komin til sögunnar, rafmagn ekki komið í flest hús og erfitt með innflutning á kolum vegna gjalseyrisleysis. Hart var sótt að síðustu skógarleyfunum og voru þær víða rjóðurfelldar. Árið 1928 var sett reglugerð um það hvernig skyldi höggva birkiskóga, þ.e. með stakfellingu trjáa innan úr skóginum en ekki rjóðurfellingu. Bann við rjóðurfellingu skóga var tilraun til að bjarga síðustu skógarleifunum og það er enn í gildi.

1929-1938

Á árunum 1927-1933 lagði Kofoed-Hansen út ellefu birkisáðreiti á vestanverðu landinu. Eftir langa reynslu hafði hann komist að því að bæði þurfti að friða land fyrir beit og flekkja gróðurinn ef birkisáning átti að heppnast. Besta útkoman var að Haukagili í Vatnsdal og stendur þar nú glæsilegur birkiskógur. Útkoman var einnig sæmileg í Hjarðarholti í Laxárdal en á öðrum stöðum heppnaðist sáningin ekki jafnvel og eru þar nú í mesta lagi hríslur á strjálingi.

Árið 1930 var Skógræktarfélag Íslands stofnað á Þingvöllum. Á næstu árum voru skógræktarfélög stofnuð víða um land. Tilurð fjöldahreyfingar áhugafólks var ómetanlegt framfaraskref í sögu skógræktar á Íslandi en fram til þess tíma höfðu örfáir menn verið sem hrópendur í eyðimörkinni að reyna að fá íslensku þjóðina til að skilja mikilvægi þess að vernda skógarleifarnar og rækta nýja skóga. Með tilkomu skógræktarfálaganna varð til vettvangur fyrir fólk sem var áhugasamt um skógrækt og í ljós kom að það var býsna margt fólk.

Árið 1933 kom Hákon Bjarnason heim frá skógfræðinámi í Danmörku og var ráðinn framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Hans fyrsta verk var að stofnsetja gróðrarstöðina í Fossvogi sem var í rekstri á vegum Skógræktarfélags Íslands og síðan Skógræktarfélags Reykjavíkur í um 70 ár. Meirihluti trjáa á höfuðborgarsvæðinu kom þaðan en skógræktin í Fossvogi,var ekki síður mikilvæg uppeldisstöð fyrir ungt skógræktarfólk.

Hákon Bjarnason tók við af Kofoed-Hansen sem skógræktarstjóri 1935. Með honum kom aukinn áhugi á nýskógrækt með gróðursetningu trjáa. Tilraunareitir Flensborgs gáfu þá fátt annað til kynna en að hér gæti fjallafura vaxið en sú tegund gefur ekkert meira af sér en íslenska birkið. Lerkið frá 1913, ásamt örfáum skógarfurum, rauðgrenitrjám og blágrenitrjám á Hallormsstað lofuðu þó góðu. Hákon vissi af allmörgum tegundum nytjatrjáa sem yxu við svipuð loftslagsskilyrði og á Íslandi, einkum í Noregi og Alaska, og lagði kapp á að fá plöntur og síðan fræ frá þeim slóðum. Árin 1937 og 1938 bárust ungplöntur allmargra tegunda frá gróðrarstöðvum í Noregi. Mörgum þeirra var komið fyrir í nýrri gróðrarstöð Skógræktar ríkisins í Múlakoti í Fljótshlíð. Flestar lifa enn og margar urðu uppsprettur græðlinga og fræja sem nýst hafa í skógrækt og trjárækt.

Árið 1933 barst til Íslands hálft kíló af lerkifræi frá Rússlandi. Því var sáð á Hallormsstað og plönturnar sem upp af fræinu uxu gróðursettar í Atlavíkurlund og Guttormslund 1937 og 1938.

1939-1948

Árið 1940 voru sett ný skógræktarlög. Í þeim fólst engin breyting á markmiðum upphaflegu laganna frá 1907 en bannið við rjóðurfellingu skógar úr reglugerðinni frá 1928 var fært inn í lögin og Skógræktin var færð undir hið nýstofnaða atvinnuráðuneyti. Við þessa breytingu var farið að tala um Skógrækt ríkisins.

Árið 1939 keypti Skógrækt ríkisins jörðina Jafnaskarð við Hreðavatn og sama árið eignaðist stofnunin Sauðhússkóg þar skammt frá. Kofoed-Hansen hafði starfað talsvert á Vesturlandi, m.a. með því að koma upp sáðreitum birkis á bújörðum og með því að semja við KFUM um afnot þeirra af Vatnaskógi en Skógræktin átti enga starfstöð þar sem var sambærileg við Hallormsstað eða Vagli. Jafnaskarð átti að verða sú starfstöð en svo fór þó ekki.

Kristjan Kirk, verkfræðingur og forstjóri í Århus, keypti stóran hluta höfuðbólsins Haukadals í Biskupstungum árið 1938. Hann lét girða landið og gera upp kirkjuna 1939 og lét síðan afhenda Skógræktinni Haukadal í júní 1940. Þar með varð Haukadalur fyrsta stóra landsvæðið sem Skógræktin eignaðist fyrst og fremst til nýskógræktar en ekki skógverndar.

Í seinni heimsstyrjöldinni lokuðust samskiptaleiðir til Noregs en opnuðust til vesturheims. Skógræktarstjóri notfærði sér það til að koma á samböndum við Alaska. Þaðan barst á stríðsárunum allmikið sitkagrenifræ og nokkuð fræ af öðrum tegundum ásamt fyrstu græðlingum alaskaaspar.

Hákon ætlaði sitkagreni einkum til skógræktar á Suðurlandi auk þess sem mikil þörf var á plöntum til gróðursetningar í Haukadal. Græðireiturinn í Múlakoti var of lítill og því keypti Skógræktin jörðina Tumastaði í Fljótshlíð 1944 í þeim tilgangi að stofna þar til gróðrarstöðvar. Þar var síðan um árabil rekin stærsta gróðrarstöð landsins. Meðal fyrstu verka á Tumastöðum var gróðursetning sitkagrenis í lítinn lund í brekkunni fyrir ofan tilvonandi gróðrarstöð. Þar sem gróðursett var til lundarins í júní 1944 hefur hann alla tíð gengið undir nafninu Lýðveldislundurinn.

Í tilefni af stofnun lýðveldisins var Landgræðslusjóður stofnaður. Markmið hans var að veita styrki til verkefna sem stuðluðu að nýskógrækt, stöðvun sandfoks og uppgræðslu lands. Hákon Bjarnason átti mestan þátt í stofnun sjóðsins og var fyrsti formaður stóðsstjórnar.

Hákon Bjarnason þroskaðist sem helsti talsmaður skógræktar á þessum árum. Hann skrifaði margar tímamótagreinar í Ársrit Skógræktarfélags Íslands en sú þekktasta er e.t.v. Ábúð og örtröð (1942) þar sem hann dregur upp skýra mynd af ósjálfbærri meðferð Íslendinga á landi sínu í gegnum aldirnar og þeirri skógar-, gróður- og jarðvegseyðingu sem hlaust af.

Sala birki eldiviðar var tekjulind fyrir Skógrækt ríkisins frá upphafi, enda snýst skógrækt um nýtingu skógarauðlindarinnar samfara vernd hennar. Með tilkomu hitaveitu og rafmagns í flest hús var sú sala loks úr sögunni í lok fimmta áratugarins. Áfram var birki þó selt í litlu magni til smíða og reykingar.

1949-1958

Skógrækt ríkisins eignaðist nokkrar jarðir fyrir og eftir 1950, bæði jarðir með skógarleifum til friðunar og nýskógræktarsvæði. Má þar nefna Straum við Hafnarfjörð, Stálpastaði í Skorradal, Norðtunguskóg, Vagli á Þelamörk og Skuggabjörg, Þórðarstaði, Belgsá og Bakkasel í Fnjóskadal. Skógræktin leigði Hvamm í Skorradal og hluta Reykjarhóls við Varmahlíð í Skagafirði, þar sem reist var gróðrarstöðin Laugarbrekka.

Mikil aukning var á plöntuframleiðslu í gróðrarstöðvum Skógræktar ríkisins og umfangsmikil gróðursetning hófst, bæði á vegum Skógræktarinnar og skógræktarfélaga sem áttu nú kost á styrkjum frá Landgræðslusjóði til plöntukaupa. Mest var gróðursett á Hallormsstað, í Haukadal, á Stálpastöðum og í Vaglaskógi en nokkur gróðursetning fór fram í flestum löndum Skógræktar ríkisins. Gróðursetning var einnig notuð til að efla félagsleg tengsl og hvetja fólk til skógræktar. Skiptiferðir skógræktarfélaga milli Íslands og Noregs voru farnar þar sem Íslendingar gróðursettu í Noregi en Norðmenn á Íslandi. Kennaraskólanemar gróðursettu í Haukadal á hverju ári og vinnustaðahópar og átthagafélög á Þingvöllum, svo dæmi séu nefnd. Margir tóku þátt í að sveifla haka og rækta nýjan skóg.

Tegundavalið helgaðist af því fræi sem hægt var að fá og hvernig gekk að rækta plöntur upp af því í gróðrarstöðvum. Hundruð kílóa bárust af sitkagrenifræi frá Alaska en flestar plönturnar drápust í gróðrarstöðvunum og komust aldrei út. Enn verr gekk með fjallaþöll og marþöll. Tengsl komust á við Sovétríkin og þaðan barst mikið fræ af síberíulerki en minna af rússalerki. Lerkirækt gekk best á Hallormsstað, í Ásbyrgi og í Eyjafirði. Best gekk að rækta rauðgreni og skógarfuru og var því mest gróðursett af þeim tegundum. Undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar voru þó verulegar skemmdir farnar að koma fram í ungum skógarfurugróðursetningum af völdum furulúsar.

Skógrækt ríkisins stækkaði. Skógarverðir störfuðu á Austurlandi, í Norður-Þingeyjarsýslu, Fnjóskadal, Eyjafirði, á Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Suðurlandi. Auk þess byggðist þekkingargrunnur Skógræktar ríkisins upp með heimkomu fimm háskólamenntaðra skógfræðinga. Skógrækt ríkisins stofnaði til skógarvarðarnáms og var það fyrsta skógfræðimenntun sem boðið var uppá hérlendis.

Hákon Bjarnason lét gera kvikmynd, Faðir minn átti fagurt land, sem var að einhverju leyti byggð á greininni um Ábúð og örtröð. Hann ferðaðist með myndina og sýndi í skólum, á skógræktarfélagsfundum og öðrum samkomum um land allt. Hákon skrifaði og talaði fyrir því að Íslendingar ættu að koma sér upp skógarauðlind þannig að þjóðin gæti sjálf framleitt það sem hún þyrfti af timbri. Til að sýna fram á möguleikana fékk hann smiði til að framleiða húsgögn úr íslensku birki. Stólar úr þeirri framleiðslu eru t.d. í fundarsalnum á Mógilsá, orðnir fimmtíu ára gamlir of standa fullkomlega fyrir sínu.

Ný skógræktarlög voru sett 1955. Markmið laganna voru enn þau sömu og frá 1907, þ.e. að vernda skógarleifar sem fyrir eru, að rækta nýja skóga þar sem hentar þykir og að leiðbeina um skóga og skógrækt. Hins vegar voru í lögunum ýtarleg ákvæði um girðingar og ákvæði sem bannaði vetrarbeit í skóglendi. Ekki verður með vissu sagt að það ákvæði hafi haft mikil áhrif. Hins vegar dró verulega úr vetrarbeit á þessum áratug vegna aukinnar túnræktar og betri meðvitundar um velferð búfjár. Við það minnkaði álagið á birkiskógana. Áfram var þó erfitt að fá land til nýskógræktar og allt þurfti það að vera rammlega girt svo kindurnar ætu ekki blessuð trén.

1959-1968

Áfram var lögð áhersla á að Skógrækt ríkisins eignaðist land, ræktaði plöntur og gróðursetti. Meðal jarða sem Skógræktin eignaðist um og eftir 1960 voru Skriðufell í Þjórsárdal, Stóra-Drageyri í Skorradal, Ytra-Fellsreitur og Hjarðarholtsreitur í Dalasýslu, Hafursá á Héraði og Jórvík í Breiðdal.

Fyrir 1960 var ljóst að skógarfuran var öll meira eða minna að drepast vegna furulúsar. Þetta var mikið áfall því miklar vornir höfðu verði bundnar við furuna. Síðast var skógarfura gróðursett í nokkru magni 1960. Annað áfall kom svo 9. apríl 1963 þegar gerði mjög óvenjulegt hret eftir langvarandi hlýindi. Mikið drapst af trjám á Suðurlandi, einkum síberíulerki, sitkabastarður og alaskaösp. Nokkrir bændur voru farnir að rækta skjólbelti og notuðu til þess þingvíði. Hann kól allur og afleiðingin varð sú að áhugi manna á skjólbeltarækt nánast hvarf.

Af sitkagreni í gróðrarstöðinni á Tumastöðum lifðu aðeins um 3.000 plöntur hretið af. Það vori hinir svo kölluðu Íslendingar, þ.e. plöntur komnar upp af fyrsta fræinu sem þroskast hafði á fyrsta sitkagreninu frá 1937. Íslendingarnir vaxa nú í skjólbeltum og brekkunni á Tumastöðum og hefur fræ af þeim (þriðja kynslóð á Íslandi) verið uppistaðan í sitkagrenirækt flest árin síðan 1995.

Önnur afleiðing hretsins 1963 var sú að Haukur Ragnarsson var sendur til Alaska um haustið til að safna græðlingum og fræi á fleiri stöðum en áður hafði verið gert. Einkum hafa margir asparklónar úr þeirri söfnun slegið í gegn á seinni árum.

Furulúsin og aprílhretið höfðu þau áhrif að verulega dró úr gróðursetningu. Menn héldu áfram að gróðursetja lerki á Hallormsstað og stafafura kom að einhverju leyti í staðinn fyrir skógarfuru en ekki þó í sama magni. Rauðgreni lifði vel en það óx afar hægt. Sitkagreni var erfitt í uppeldi og menn trúðu ekki á alaskaösp sem skógartré.

Menn stóðu frammi fyrir því að endurskoða stefnuna. Brýn þörf var á rannsóknum til að svara aðkallandi spurningum, enda dugar þekking flutt frá öðrum löndum bara að vissu marki. Ákveðið var að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var rannsóknastöð Skógræktar ríkisins reist á Mógilsá í Kollafirði árið 1967 fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum sem gefin var í tilefni af heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961.

1969-1978

Hákon Bjarnason skógræktarstjóri var þekktur fyrir skoðanir sínar á landnýtingu og var í raun sá sem kom þeirri staðreynd á framfæri að gróðureyðing á Íslandi væri ósjálfbæru skógarhöggi og ofbeit sauðfjár að kenna en ekki köldu veðri eða eldgosum, eins og hagsmunagæslumenn hefðbundins landbúnaðar héldu fram (og halda sumir enn fram í dag). Fræg urðu skoðanaskipti Hákonar við Halldór Pálsson búnaðarmálastjóra um þau mál. Fyrir vikið myndaðist tortryggni milli skógræktarfólks og bænda, þó svo að margir bændur væru einnig meðlimir í skógræktarfélögum. Ein afleiðing þessa ástands var sú að meirihluti landeigenda tók engan þátt í skógrækt og mjög erfitt reyndist að fá land til skógræktar. Skógrækt ríkisins hafði verið flutt til landbúnaðarráðuneytisins þegar það var stofnað 1965 og var þar hornreka, enda litu fæstir á skógrækt sem landbúnað. Hún átti bara enn síður heima í sjávarútvegsráðuneytinu eða iðnaðarráðuneytinu.

Ýmsir vildu breyta þessari stöðu mála. Fjárveiting fékkst til að bjóða nokkrum bændum, á því svæði landsins þar sem skógræktarskilyrði voru talin best, að rækta nytjaskóga á jörðum sínum. Verkefnið var kallað Fljótsdalsáætlun og hófst með gróðursetningu á Víðivöllum í Fljótsdal í sumarbyrjun 1970. Skógrækt ríkisins sá um verkefnið að öllu leyti. Hún samdi við bændur, lét girða skógræktarsvæðin, framleiddi plönturnar og sá um gróðursetningu. Eingöngu var gróðursett lerki.

Almennt var gróðursetning þó áfram í lægð eftir áföllin um og eftir 1960 og tíðar kalskemmdir á trjám á hafísárunum. Framfarir urðu í plöntuuppeldi með tilkomu lítilla gróðurhúsa sem bættu mjög árangur sáningar. Menn voru einnig að átta sig á því að ekki var nauðsynlegt að hafa birkiskóg eða kjarr sem skjólgjafa fyrir innfluttu tegundirnar. Hægt var að rækta skóg í algjörlega skóglausu landi og það gekk meira að segja betur með ljóselskar tegundir eins og lerki og furu. Smá saman minnkaði gróðursetning í birkiskógana. Úr rauðgrenigróðursetningum frá sjötta áratugnum var farið að grisja jólatré og fengust af sölu þeirra fyrstu tekjur Skógræktar ríkisins úr ræktuðum skógum.

Við grisjun í tæplega fertugum Guttormslundi féllu til nokkrir flettingarhæfir bolir. Þeir voru sagaðir niður í panil sem var síðan notaður til að klæða fundarherbergi Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum. Þetta var fyrsta framleiðsla á borðviði úr gróðursettum skógi á Íslandi og þótti mikil auglýsing fyrir skógrækt.

Árið 1977 tók Sigurður Blöndal við af Hákoni Bjarnasyni sem skógræktarstjóri og hafði Hákon þá gegnt starfinu í 42 ár.

1979-1988

Árið 1979 var eitt kaldasta ár tuttugustu aldar á Íslandi og miklar skemmdir urðu á trjám, einkum á norðanverðu landinu. Sitkalús var komin til sögunnar og óvíst hvaða áhrif hún myndi hafa. Nokkur tregða var því á að gróðursetja sitkagreni og bastarð. Enn óx rauðgreni hægt og var lítill áhugi orðinn á gróðursetningu þess nema til jólatrjáaræktar. Í upphafi níunda áratugarins virtist aðeins rússalerki enn vænlegt til nytjaskógræktar. Rússalerkifræ fékkst nú úr sænskum frægörðum svo ekki var lengur þörf á að nota síberíulerki. Stafafura kom einnig til greina en var þó enn ekki búin að sanna sig.

Miklar framfarir urðu í ræktunartækni með tilkomu stórra gróðurhúsa og fjölpottabakka. Fyrstu fjölpottaplönturnar voru framleiddar á Mógilsá og gróðursettar 1982 á nokkrum stöðum. Sú tilraun tókst svo vel að á fáum árum í framhaldi þess breyttist skógarplöntuframleiðslan í landinu alfarið yfir í fjölpottaframleiðslu. Byggt var stórt gróðurhús á Grundarhól við hlið rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá til að þróa aðferðir við fjölpottarækt og til að framleiða slíkar plöntur í miklu magni. Grundarhólsstöðin var þó aðeins rekin sem framleiðslugróðrarstöð í fá ár. Með fjölpottaræktun náðust fyrst tök á að framleiða sitkagreni og blágreni skammlaust.

Fyrstu gróðursetningar Fljótsdalsáætlunar fóru að setja svip sinn á land og samskipti við bændurna tókust ágætlega. Nokkrar fleiri jarðir í Fljótsdal hófu skógrækt og áhugi bænda kviknaði víðar um land á að taka þátt í skógrækt með styrkjum frá ríkinu. Einkum var sá áhugi mikill í Eyjafirði. Árið 1984 var kafla um nytjaskógrækt á bújörðum bætt við skógræktarlög. Á grundvelli hans var Skógrækt ríkisins heimilt að veita styrki til skógræktar á bújörðum á bestu skógræktarsvæðum landsins. Markmið skógræktarinnar skyldi einkum vera viðarframleiðsla. Segja má að þetta hafi verið útvíkkun á Fljótsdalsáætlun yfir á önnur svæði þar sem skógræktarskilyrði voru hvað best. Því voru aðeins jarðir í inndölum austan-, norðan- og vestanlands og í uppsveitum sunnanlands gjaldgengar.

Í framhaldinu hófu nokkrar jarðir á Norður-, Vestur- og Suðurlandi, auk jarða á Héraði utan Fljótsdals þátttöku í nytjaskógrækt og námu styrkirnir 80% af stofnkostnaði. Framlög úr ríkissjóði voru þó af skornum skammti og því komust fáar jarðir að, færri en 10 til að byrja með. En þetta var þó byrjun og áhugi á skógrækt meðal bænda jókst. Um leið voru fyrstu ræktunaráætlanir gerðar fyrir skógrækt á bújörðum.

Stofnað var til þróunarverkefnis um iðnvið, þ.e. trjávið sem fyrst og fremst var ætlaður sem orkugjafi eða kolefnisgjafi í iðnaðarframleiðslu. Hugmyndin var að rækta hraðvaxnar tegundir, einkum alaskaösp og víðitegundir á frjósömu landi. Það verkefni náði ekki að fæðast en rannsóknir til undirbúnings þess haf nýst vel og urðu t.d. upphaf nýtingar á alaskaösp í skógrækt en til þess tíma hafði hún svo til eingöngu verið ræktuð í görðum.

Sú hugsun að skógar væru mikilvægir til útivistar fyrir almenning hlaut aukinn skilning. Atlavík, Ásbyrgi og Vaglaskógur höfðu lengi verið náttúrlegir staðir fyrir mannamót en önnur nýting skóga til útivistar hafði verið lítil. Með aukinni velmegun og bílaeign þjóðarinnar varð þar breyting á. Ferðalög fólks um landið jukust og þar með heimsóknir í skógana. Vinna við rekstur tjaldsvæða Skógræktar ríkisins varð stærri hluti starfsins og tekjur af tjaldstæðaleigu jukust.

Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, var mikill stuðningsmaður skógræktar. Með einföldum gróðursetningarathöfnum og alþýðlegum málflutningi gerði hún meira en nokkur annar til að sýna fram á ágæti og mikilvægi skógræktar fyrir land og þjóð. Á níunda áratug tuttugustu aldar viðurkenndi þorri Íslendinga loksins að sennilega væri eitthvert vit í skógrækt.

1989-1998

Fimm Íslendingar útskrifuðust með háskólagráður í skógfræði á 6. áratugnum en aðeins tveir, auk fimm skógtækna, næstu tuttugu árin. Eftir 1980 varð þar aftur breyting á og alls útskrifuðust fimmtán íslenskir skógfræðingar og fimm skógtæknar á árunum 1980-1995. Þessi mikla endurnýjun í skógfræðingastétt átti eflaust mestan þátt í þeim gríðarlegu framförum í skógrækt sem áttu sér stað á tíunda áratugnum.

Hin svo kallaða Mógilsárdeila setti svip sinn á árin 1989 og 1990. Hún verður ekki rakin hér en útkoman varð sú að rannsóknastöðin var áfram hluti Skógræktar ríkisins, forstöðumaður og flestir sérfræðingar á Mógilsá hættu störfum og nýr forstöðumaður og sérfræðingar voru ráðnir í staðinn. Deilan var Skógrækt ríkisins erfið en hún vakti athygli þjóðarinnar á skógrækt og sýndi að fyrir sumum væri skógrækt hjartans alvara en ekki bara tómstundagaman.

Árið 1990 tók Jón Loftsson við af Sigurði Blöndal sem skógræktarstjóri. Það ár var ákveðið með lögum að færa aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins frá Reykjavík til Egilsstaða.

Árið 1990 hófst verkefnið Landgræðsluskógar á vegum Skógræktarfélags Íslands, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Verkefnið var hugarfóstur Sigurðar Blöndals skógræktarstjóra og fólst í því að safna peningum frá fyrirtækjum svo hægt væri að auka plöntuframleiðslu. Plönturnar yrðu síðan afhendar samkvæmt samningum til skógræktarfélaga og annarra aðila sem sæu um gróðursetningu. Plönturnar skyldu einkum gróðursettar í rýrt og rofið land og skógarnir yrðu opnir almenningi til útivistar. Með Landgræðsluskógum var íslenskt birki aftur tekið í sátt skógræktarfólks en það hafði lítið verið gróðursett síðan um 1950. Landgræðsluskógaverkefnið hefur verið starfrækt allar götur síðan og hefur fyrirkomulag þess þróast eftir þörfum.

Nytjaskógrækt á bújörðum styrkt af Skógrækt ríkisins gekk vel en Skógræktinni tókst ekki að sannfæra stjórnvöld um að auka fjárveitingar til þess þrátt fyrir augljósan áhuga bænda á þátttöku. Árið 1991 voru sett lög um Héraðsskóga en undirbúningur þess verkefnis hafði staðið yfir í þrjú ár. Með Héraðsskógum var umsjón með ríkisstyrkjum til nytjaskógræktar á bújörðum færð frá Skógrækt ríkisins til verkefnis sem heyrði beint undir landbúnaðarráðuneytið og var auk þess með ráðherraskipaða stjórn sem í sat m.a. fulltrúi skógarbænda. Þessi breyting á fyrirkomulagi reyndist skipta öllu máli og strax var hægt að bjóða tugum bænda framlög til skógræktar á eigin jörðum.

Með tilkomu Héraðsskóga losnaði um fjármagn hjá Skógrækt ríkisins, sem gat aukið styrkveitingar í öðrum landshlutum. Skógræktarráðunautar voru ráðnir til starfa í öllum landshlutum og fleiri jarðir komust að í skógrækt, flestar á nytjaskógasvæðum á Norður- og Suðurlandi. Einnig komu styrkir til skjólbeltaræktar til sögunnar.

Sagan endurtók sig svo á Suðurlandi og þar urðu Suðurlandsskógar til með lögum árið 1997. Stjórnarfyrirkomulagið var það sama og hjá Héraðsskógum en áherslan var ekki eingöngu á nytjaskógrækt heldur einnig á landbótaskógrækt og skjólbeltarækt.

Með tilkomu þessara verkefna jókst árleg gróðursetning í landinu úr um einni milljón plantna árið 1989, í ríflega þrjár og hálfa milljón árið 1998. Mest var gróðursett af rússalerki öll árin, með birki í öðru sæti og stafafuru í því þriðja. Aukin gróðursetning kallaði á meira öryggi í fræöflun. Flest var hægt að flytja inn en ekki þó fræ af íslensku birki og sum árin var skortur á því. Kynbætur og frærækt hófst á birki og lerki. Settar voru út viðamiklar klónatilraunir með alaskaösp og víðitegundir og framleiðsla græðlinga í miklu magni af skilgreindum klónum hófst. Einnig voru gróðursettar kvæmatilraunir fleiri tegunda en áður hafði gerst. Þá varð sú þróun að einkareknar gróðrarstöðvar tóku við skógarplöntuframleiðslu en Skógrækt ríkisins dró sig smám saman út úr þeim rekstri.

Kynningarmál Skógræktar ríkisins voru tekin fastari tökum en áður. Skógarnir voru opnaðir almenningi betur með merkingum, stígagerð og úrbótum á tjaldsvæðum. Haldnir voru skógardagar, listviðburðir og trjásafn var formlega opnað í Mörkinni á Hallormsstað 1993, á 90 ára afmæli gróðrarstöðvarinnar. Sala viðar úr skógunum jókst nokkuð, einkum sala arinviðar en sala jólatrjáa dalaði.

Samstarf við aðrar þjóðir á sviði skógræktar jókst verulega, einkum vísindasamstarf við Norðurlöndin (SNS). Íslendingar tóku einnig þátt í ráðherrafundum um vernd skóga í Evrópu (MCPFE) og evrópsku vísindasamstarfi á sviði skógræktar (COST). Fyrsta alþjóðlega vísindaráðstefnan á sviði skógræktar var haldin á Laugarvatni 1991 og fleiri fylgdu í kjölfarið. Þetta samstarf var í senn símenntun fyrir íslenska skógfræðinga og kynning á íslenskri skógrækt út á við.

Trén héldu áfram að vaxa. Árið 1995 náði tré 20 m hæð á Íslandi í fyrsta sinn. Það var rússalerki í Atlavíkurlundi gróðursett 1937. Var Davíð Oddsson, forsætisráðherra, fenginn til að hengja skjöld á tréð. Mesta eftirtekt skógræktarmanna vakti þó hvað sitkagreni um land allt var loksins tekið að vaxa. Það var líka farið að þroska fræ reglulega og var því óþarft að flytja inn sitkagrenifræ sum árin. Ljóst var að sitkalús dró úr vexti en drap ekki trén. Sitkagreni bættist því aftur í hóp nytjatrjáa við hlið rússalerkis og voru tegundirnar þá aftur orðnar tvær. Enn var stafafuran ekki búin að sanna sig og sama má segja um alaskaösp.

1999-2008

Árið 1999 voru sett lög um landshlutaverkefni í skógrækt og voru Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum og loks Austurlandsskógar stofnaðir á grundvelli þeirra. Þá áttu loks bændur um land allt kost á að fá ríkisframlög til skógræktar á sínum jörðum. Skógrækt ríkisins hafði með verkefninu nytjaskógrækt á bújörðum og með ráðningu skógræktarráðunauta lagt grunninn að landshlutaverkefnunum en nú tóku þau við sem aðalvettvangur nýskógræktar í landinu. Lögin um landshlutaverkefni í skógrækt voru síðan endurskoðuð 2006 og voru þá sérlögin um Héraðs- og Suðurlandsskóga afnumin.

Hekluskógaverkefnið hófst árið 2006 í sameiginlegri umsjón Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og varð sjálfstætt verkefni 2008. Er það metnaðarfyllsta einstaka nýskógræktarverkefni hingað til, með það að markmiði að koma upp birkiskógi á um 90.000 ha eyðilands í nágrenni Heklu til að draga úr foki eftir öskufall.

Aukin skógrækt á síðasta áratug tuttugustu aldar og áfram eftir aldamót kallaði fram gagnrýnisraddir um hugsanleg neikvæð áhrif skógræktar á ásýnd lands og lifandi náttúru. Framræsla votlendis til skógræktar var gagnrýnd þótt hún hafi reyndar aldrei verið meira en fikt. Gróðursetning innfluttra tegunda í birkiskóga var gagnrýnd en hún var að mestu úr sögunni eftir 1970. Skógrækt var talin hættuleg fyrir tiltekna fuglastofna, fornleifar, búsetulandslag og vatnsgæði. Margir virtust hafa áhyggjur af að missa útsýni og í tísku var að gera mikið úr hættu innfluttra trjátegunda fyrir líffræðilega fjölbreytni. Með rannsóknum var kannað hvað væri til í þessum áhyggjum og var rannsóknastöð Skógræktar ríkisins þar í fararbroddi. Sumar þessar áhyggjur voru byggðar á röngum forsendum og aðrar ýktar, því umfang nýskógræktar var áfram mjög lítið þrátt fyrir aukninguna.

Rannsóknir beindust í auknum mæli að vistfræði og að áhrifum skaðvalda í skógrækt. Asparryð var komið til sögunnar og miklar skemmdir urðu sum árin af völdum fiðrildalirfa. Þá var mikið rætt um hlýnandi loftslag og kolefnisbinding með nýskógrækt var rannsökuð og mæld.

Hugtakið þjóðskógarnir var tekið upp yfir skóga í eigu og umsjá Skógræktar ríkisins og voru það alls 57 jarðir og jarðarpartar árið 2008. Meirihluti skóglendis innan þjóðskóganna er friðaður birkiskógur eða kjarr en einnig eru þar elstu og stærstu gróðursettu skógar landsins og mikið land sem bíður eftir skógi.

Áhersla á þjónustu við útivist almennings í þjóðskógunum jókst enn. Nýir stígar voru lagðir, m.a. fyrir hreyfihamlaða. Tjaldsvæði voru stækkuð og ný dvalarsvæði útbúin. Borð, bekkir og skýli voru smíðuð úr grisjunarviði og viðarkurl úr skóginum var notað í stígagerð í auknum mæli. Rannsóknir á væntingum fólks til útivistar í skógum hófust. Allan áratuginn jókst aðsókn að tjaldsvæðunum.

Mesta breytingin í þjóðskógunum var þó aukin áhersla á grisjun. Eftirspurn eftir arinviði jókst stöðugt og birki varð fyrir vikið nytjatré á ný. Vaglaskógur og Þórðarstaðaskógur stóðu að mestu undir framleiðslunni. Eftispurn eftir borðum og plönkum úr lerki var svo mikil að biðlisti myndaðist og ýtti það mjög undir grisjun á eldri lerkireitum í Hallormsstaðaskógi. Farið var að nota innlenda greniboli í að reisa fiskihjalla. Útboð á grisjun í þjóðskógunum hófst í smáum stíl og til urðu verktakar í skógarhöggi.

Árið 2008 hafði álit manna á alaskaösp sem nytjatré aukist en asparskógar voru enn of ungir til að hægt væri að tala um að hún hafi sannað sig. Stafafura var þó loks farin að sanna sig, a.m.k. sem jólatré, viðarmassaframleiðandi og til arinviðar ef ekki sem efni í borð og planka. Það gerðist einnig að rauðgreni grænkaði og tók til við að vaxa almennilega um land allt, svipað og sitkagreni hafði gert tíu árum áður. Nytjategundirnar voru því orðnar fjórar (rússalerki, sitkagreni, stafafura og rauðgreni) og nokkuð örugglega var sú fimmta að bætast við (ösp).

Á aldarafmæli Skógræktar ríkisins var aftur gerð breyting á ráðuneytaskipan og Skógræktin sett undir umhverfisráðuneytið. Landshlutaverkefnin í skógrækt urðu þó eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og var skógrækt þar með skipt upp milli tveggja ráðuneyta.

2009-2018

Alllengi hafði verið til umræðu að efna til sameiningar stofnana á sviði landnýtingarmála undir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Á árinu 2015 hófst undirbúningur að sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt ásamt umsjón með Hekluskógum. Skipaði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um málið.

Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður fór fyrir starfshópnum sem skilaði niðurstöðum í september 2015. Í hópnum sátu einnig Vilhjálmur Árnason alþingismaður, Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Jón Loftsson skógræktar­stjóri fyrir hönd Skógræktar ríkisins og Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fulltrúi landshlutaverkefna í skógrækt. Með hópnum starfaði Guðrún Ragnarsdóttir ráðgjafi auk ritara.

Starfshópurinn rýndi í kosti þess og galla að sameina allt skógræktarstarf ríkisins og lagði mat á ávinning og áskoranir sem uppi yrðu í kjölfar hennar. Haft var náið samstarf við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands. Niðurstaðan var að sameining landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins væri æskileg og skapaði tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu. Samhæfing skógræktarstarfsins gæti stuðlað að eflingu atvinnulífs og rennt styrkari stoðum undir búsetu í byggðum landsins. Þá væri markmiðið að gera stjórnsýslu skógræktarmála skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn.

Sameiningin var undirbúin af kostgæfni með víðtæku samráði og virkri þátttöku starfsfólks. Starfshópur skipaður skógræktarstjóra, fjármálastjóra Skógræktar ríkisins, forstöðumanni Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, framkvæmdastjórum landshlutaverkefnanna, fulltrúa ráðuneytisins og ráðgjafa Capacent, vann að undirbúningi sameiningarinnar, stefnumótun og áherslum. Þrír vinnuhópar starfsfólks fjölluðu um innri mál, ytri mál og fagleg mál nýrrar stofnunar og kynntu niðurstöður sínar á starfsmannafundi sem nær allt starfsfólk stofnananna sótti. Þar var unnið að stefnumótun með þjóðfundarfyrirkomulagi. Ráðgjafar Capacent tóku jafnframt einkaviðtöl við alla starfsmenn. Allur sá efniviður sem aflað var með þessari vinnu nýttist við undirbúning sameiningarinnar og mótun nýrrar stofnunar.

Sameiningin var samþykkt með lögum frá Alþingi í júní 2016 og ný stofnun, Skógræktin, tók til starfa 1. júlí sama ár.

Í árslok 2015 lét Jón Loftsson af starfi sem skógræktarstjóri eftir 26 ár í embætti. Þröstur Eysteinsson, sem þá hafði gegnt starfi sviðstjóra þjóðskóganna, hafði þá verið ráðinn skógræktarstjóri úr hópi ellefu umsækjenda og tók við embættinu 1. janúar 2016. Meginverkefni Þrastar fyrsta árið var að leiða sameininguna til lykta ásamt starfsfólkinu sem myndaði hina nýju stofnun. Meginþorri starfsfólks hittist á starfsmannafundi á vordögum 2016 til að kynnast betur og vinna samræmingarvinnu. Sú vinna hélt áfram eftir sameininguna en 1. janúar 2017 gekk endanleg sameining í garð með sameiginlegu bókhaldi og rekstri.

Áhersla var lögð á að samræma vinnubrögð og aðferðir á sviði skógræktar á lögbýlum. Í árslok 2016 kom út tilraunaútgáfa nýrrar handbókar fyrir skógræktarráðgjafa. Fjórir sviðstjórar voru ráðnir til starfa og embætti fagmálastjóra endurvakið. Hugur var í starfsfólkinu en vonir um aukin fjárframlög með tilkomu nýrrar stofnunar brustu. Því var aukin áhersla lögð á að kynna landsmönnum og stjórnmálafólki möguleika skógræktar sem aðgerðar í loftslagsmálum og byggðamálum og til að byggja upp eina helstu auðlind lífhagkerfisins sem taka skal við af olíuhagkerfinu á komandi áratugum. Ásamt Skógræktarfélagi Íslands og Landssamtökum skógareigenda lagði Skógræktin fyrir stjórnvöld vel mótaða og rökstudda tillögu um fjórföldun skógræktar í landinu. Aukins stuðnings tók að gæta í samfélaginu á skógrækt sem kom m.a. í ljós í könnun sem Skógræktin, SÍ og LSE létu gera meðal landsmanna vorið 2018. Yfirgnæfandi hluti landsmanna reyndist fylgjandi aukinni skógrækt og taldi mikilvægt að rækta skóg til að binda koltvísýring.

2019-

lög um skóga og skógrækt voru samþykkt samhljóða á Alþingi 19. maí 2019. Aðdragandinn að lagasetningunni var langur og þegar Skógræktin varð til við sameiningu stofnana 2016 var höfð hliðsjón af þeim lagadrögum sem þá lágu fyrir og breyttust ekki í meginatriðum í meðferð þingsins.

Með nýju lögunum voru sameinuð í einn lagabálk öll lög sem snerta skóga og skógrækt á Íslandi. Lög um skógrækt á lögbýlum eru til dæmis hluti af þessum lögum. Nýmæli í lögunum er að hugtakið þjóðskógar hefur nú í fyrsta sinn fengið lagalegt gildi. Jafnframt er nú í; fyrsta sinn tekið á loftslagsmálum í löggjöf um skógrækt. Þá er skýrt kveðið á um að byggja skuli upp sjálfbæra skógarauðlind til fjölbreyttra nota og að nota skuli skógrækt til jarðvegsverndar og sem vörn gegn náttúruvá. Þetta þýðir að kolefnisbinding er nú eitt af lögbundnum hlutverkum Skógræktarinnar. Stofnunin á nú samkvæmt lögum að binda kolefni með skógrækt og stuðla að sem mestri kolefnisbindingu skóga. Einnig er nú í fyrsta sinn ákvæði í lögum um gerð lands- og landshlutaáætlana um skógrækt og jafnframt er nú lögbundin skylda Skógræktarinnar halda skógaskrá fyrir landið. Þar á meðal annars að tilgreina þá skóga sem teljast vistfræðilega merkilegir og þar með er hægt að framfylgja ákvæðum þar að lútandi í lögum um náttúruvernd.

Lögbundna skilgreiningu á skógi hefur ekki verið að finna í íslenskum lögum þar til nú. Með nýju lögunum er bætt úr því og þar með er orðið óumdeilanlegt hvað skuli kallast skógur og hvað ekki. Lögin efla einnig eftirlitshlutverk Skógræktarinnar með skóglendi á Íslandi og veita stofnuninni heimild til að beita sektum ef ástæða þykir til vegna brota á ákvæðum um meðferð skóga.

Skipuriti Skógræktarinnar var breytt snemma árs 2020 í ljósi reynslunnar af því skipuriti sem stofnuninni var mótað eftir sameininguna 2016. Eftir breytinguna eru svið Skógræktarinnar þessi:

  1. Skógarþjónustusvið sinnir einkum samstarfi og þjónustu við skógrækt á lögbýlum. Sviðstjóri er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.
  2. Þjóðskógasvið sinnir einkum ræktun og vernd skóga í umsjón Skógræktarinnar. Sviðstjóri er Hreinn Óskarsson.
  3. Rannsóknasvið sinnir rannsóknum, skógmælingum og tengdum verkefnum. Undir það heyrir loftslagsdeild Skógræktarinnar sem m.a. skilar tölum um bindingu í íslensku skóglendi til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
  4. Rekstrarsvið sér um fjármál stofnunarinnar, áætlanir og uppgjör, en undir það heyra líka mannauðsmál, kynningarmál, skipulagsmál, fræðslu- og markaðsmál.

Sviðin og sviðstjórar þeirra heyra beint undir skógræktarstjóra og það gerir embætti fagmálastjóra einnig. Fagmálastjóri er skógræktarstjóra til fulltingis og hefur alþjóðasamskipti og samstarf á sinni könnu. Frá ágúst 2023 heyrir mannauðsstjóri einnig beint undir skógræktarstjóra en tilheyrði áður rekstrarsviði.

Á árinu 2019 hófst Skógræktin handa við undirbúning þess að unnt yrði að búa til með nýskógrækt á Íslandi seljanlegar kolefniseiningar með alþjóðlegri vottun. Horft var til erlendra fyrirmynda að kerfum sem gera þetta kleift og var helst farið eftir breska regluverkinu UK Woodland Carbon Code. Útkoman var fyrsta útgáfa regluverksins Skógarkolefnis sem gefið var út í samnefndu riti í árslok 2019. Verkið var unnið í samráði við ýmsa aðila, meðal annars vottunarfyrirtækið iCert. Unnið var að því samhliða að undirbúa fyrstu skógræktarverkefnin hérlendis sem hljóta alþjóðlega vottun. Með stofnun Loftslagsskrár Íslands, (International Carbon Registry), árið 2000 varð til íslenskt kerfi sem nota má til að búa til alþjóðlega vottaðar kolefniseiningar með skógrækt á Íslandi. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að notast við erlend kröfusett, erlenda vottun og erlenda kolefnisskráningu.

Vorið 2023 kom út útgáfa 2,0 af Skógarkolefni um leið og nýr vefur, skogarkolefni.is, var opnaður. Með nýju útgáfunni hafði Skógarkolefni verið þróað áfram í samræmi við þróun íslensks laga- og regluumhverfis og tilkomu tækniforskriftarinnar ÍST TS 92:2022 Kolefnisjöfnun: Kröfur með leiðbeiningum (Carbon offsetting: Specification with guidance) sem er að finna á vef Staðlaráðs Íslands. Eðli slíkra krafna er að vera í sífelldri þróun með stöðugum endurbótum í átt að auknum gæðum og í takti við þróun samfélags og umhverfis. Áhugi á því að ráðast í kolefnisverkefni samkvæmt kröfusetti Skógarkolefnis fer vaxandi og á árinu 2023 var á annan tug verkefna komið í gang og tugir verkefna í undirbúningsferli á vegum ýmissa aðila. 

Loftslagsdeild rannsóknasviðs Skógræktarinnar nýtti það mikla gagnasafn sem orðið hefur til með Íslenskri skógarúttekt og skýrslugjöf um kolefnisbúskap skóga til að útbúa reiknivél þar sem áætla mætti með einföldum hætti líklega bindingu mismunandi trjátegunda á mögulegum nýskógræktarsvæðum á láglendi á Íslandi næstu áratugina. Reiknivélin fékk nafnið  Skógarkolefnisreiknir og var aðgengileg á bráðabirgðavef þar til sérstakur vefur var opnaður sumarið 2023.

Árið 2020 var gerður samningur við bandarísku góðgerðasamtökin One Tree Planted um skógrækt á 170 hekturum lands að Ormsstöðum í Breiðdal. Gerð var áætlun um gróðursetningu á 140 hekturum þessa svæðis á árunum 2021 og 2022. Þetta er stærsta erlenda fjármögnun skógræktar á Íslandi á síðari árum og áhugi er á því hjá One Tree Planet að ráðast í fleiri verkefni hérlendis. Með vaxandi umræðu og vitund um loftslagsbreytingar hefur erlendum fyrirspurnum um skógræktarmöguleika á Íslandi farið mjög fjölgandi. Samstarfi var einnig komið á við ýmsa aðila, meðal annars fyrirtækið Land Life Company sem starfar víða um heim að útbreiðslu skóglendis með fjölbreyttum markmiðum og með fjármagn frá ólíkum áttum.

Á vordögum 2022 tilkynnti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að hún hefði látið hefja forathugun á sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Í ágúst sama ár gaf ráðherra út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt auk aðgerðaáætlunar. Yfirskrift hennar er Land og líf og þar er sett fram landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt með framtíðarsýn til ársins 2031. Aðgerðaáætlunin nær fram til ársins 2026. Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir sumarleyfi vorið 2023, föstudaginn 9. júní, var samþykkt frumvarp um sameiningu stofnananna tveggja í nýja stofnun sem skyldi heita Land og skógur. Sameiningin skyldi ganga í gildi um áramótin. Í kjölfarið var auglýst eftir forstöðumanni hinnar nýju stofnunar og sóttu níu um starfið.

Lokaorð

Þegar horft er um farinn veg er ljóst að Skógræktin hefur náð miklum árangri, e.t.v. ekki svo miklum mældum í auknu flatarmáli nýskóga en eyðingunni var snúið við og birkiskógunum var bjargað. Mestur árangur mælist í formi vitundarvakningar meðal almennings. Íslendingar sem um aldamótin 1900 höfðu fæstir séð tré og töldu sig þar með vita að tré gætu ekki vaxið á Íslandi. Þeir vita nú að hér geta vaxið skógar til viðarnytja og sumir hafa jafn vel áhyggjur af því að þeir vaxi of vel. Þekking og færni á sviði skógræktar byggðist upp og úrvinnsla afurða úr grisjunarviði er hafin.

Grunnurinn hefur verið lagður og allt er til staðar til að nú sé hægt að byggja hér upp skógarauðlind til raunverulegra hagsbóta fyrir Ísland og Íslendinga. Nú er bara að láta ekki deigan síga. Skógrækt, hverju nafni sem hún nefnist, er alltént mikilvægt verkefni á þessari öld til að skapa auðlind, bæta landið og búsetuskilyrðin og hamla gegn loftslagsbreytingum.

Helstu heimildir

Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson. 1999. Íslandsskógar, hundrað ára saga. Mál og mynd 1999: 267 bls.

C. E. Flensborg, C. V. Prytz, C. Ryder, og A. F. Kofoed-Hansen. 2007. Islands Skovsag: Skógræktarmálefni Íslands, skýrslur og ritgerðir 1901-1916. Landbúnaðarráðuneytið 2007.

Ársrit Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarritið. 1930-2019.

Skýrslur skógarvarða, Ársrit Skógræktarinnar og fleira efni á www.skogur.is

  • Grunnur að þessari grein birtist fyrst í Ársriti Skógræktar ríkisins fyrir árið 2008.