Greni á mismunandi aldri í Þjórsárdalsskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHvar á að rækta jólatré og hvernig?

Í öðrum löndum er algengt að jólatré séu ræktuð í stórum stíl á ökrum. Slík ræktun er mjög vélvædd og sérhæfð. Þróaðar hafa verið sérstakar vélar til ýmissa verka og til að standa undir þeirri fjárfestingu þarf veltan að vera mikil. Rækta má jólatré á ökrum í smærri stíl án mikillar vélvæðingar og komast af með lágmarksbúnað og nýta vinnuafl í stað vélarafls. Hérlendis hafa jólatré að mestu leyti verið ræktuð með því sem kalla mætti sjálfbæra ræktun í skógi. Trén eru ýmist tekin innan úr skógarreitum sem hluti af grisjun eða ræktuð innan um önnur tré, til dæmis í nytjaskógum bænda eða skógræktarfélaga.

Hér að neðan er nánar fjallað um sjálfbæra ræktun og akurræktun, staðarval, áburðarnotkun, eitrun og fleira.

Sjálfbær ræktun

Flest þeirra jólatrjáa sem höggvin eru á Íslandi eru tínd innan úr skógarreitum, gjarnan tré sem ekki hafa verið meðhöndluð sérstaklega til að verða jólatré. Í vaxandi mæli hafa skógareigendur þó farið að gróðursetja með jólatré í huga og til dæmis nýtt sér skjól af eldri trjám í skógum sínum til að auka líkurnar á að fá falleg jólatré. Nýgrisjaðir skógar geta hentað mjög vel til jólatrjáaræktar, ekki síst lerkiskógar þar sem birta er hæfileg en líka skjól fyrir vindi og vörn gegn vor- og haustfrostum. Til dæmis er eðli fjallaþins og grenitegunda að vaxa upp í skjóli eldri trjáa og afföll af þessum tegundum geta orðið mjög mikil á bersvæði. Stafafuru er hins vegar eðlislægt að vaxa upp á berangri ekki síður en í skógi og getur jafnvel gefið fallegri og þéttari jólatré á bersvæði.

Þegar jólatré eru ræktuð með sjálfbærum hætti er að jafnaði gróðursett í óræktað land en ekki í tún. Gott er að gefa slíkum trjám meiri áburð en almennt er gert í nytjaskógrækt. Áburðurinn er gefinn eftir þörfum. Fylgst er með trjánum á hverju ári, klipptir af tvítoppar og lögun trésins formuð eftir því sem nauðsynlegt er. Gróðursett er inn í eyður þar sem tré hafa drepist eða skemmst og þegar fullvaxin jólatré hafa verið felld. Eftir því sem tímar líða eru gjarnan skilin eftir góð tré sem móðurtré til að efla vistkerfi svæðisins og ýta undir sjálfsáningu gæðatrjáa.

  • Kostir aðferðarinnar er að hún er sjálfbær að mestu, áburðarnotkun lítil, engin varnarefni notuð, lægri stofnkostnaður og minni fyrirhöfn og kostnaður við viðhald. Þessi aðferð hentar vel sem aukabúgrein með almennri nytjaskógrækt.
  • Gallar aðferðarinnar eru að í slíkri jólatrjáarækt eru fá tré á stóru svæði. Erfiðara er að ná trjánum út en af akri, aðferðin útheimtir mikla vinnu og tekjur verða minni en af vel heppnaðri akurrækt.

Jólatrjáaakur að vetri í Newburgh í Maine í Bandaríkjunum. Mynd: Justin Russell/Piper Mountain Christmas Tree Farm.Akurræktun

Flest lifandi jólatré sem keypt eru inn á íslensk heimili eru nordmannsþinur sem ræktaður er á ökrum í Danmörku. Akurræktun eða þaulræktun jólatrjáa er stór búgrein í Danmörku og fleiri Evrópulöndum en einnig vestan hafs, bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Í Danmörku eru framleiddar um tíu milljónir jólatrjáa á ári. Þar af eru 80% nordmannsþinur sem ræktaður er á ökrum. Stærstur hluti framleiðslunnar fer til útflutnings.  Í Þýskalandi eru framleiddar um 24 milljónir jólatrjáa árlega, aðallega fyrir innanlandsmarkaðinn. Talsvert er líka framleitt af jólatrjám í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Póllandi. Vestan hafs er stórfelld jólatrjáarækt í Mexíkó, ýmsum ríkjum Bandaríkjanna og í Kanada. Þá er jólatrjáaræktun ný en vaxandi búgrein í Ástralíu og jafnvel í Kína.

Misjafnt er eftir tegundum hvort þær eru aðallega ræktaðar á ökrum eða í skógi. Í Evrópu er nordmannsþinur ein algengasta tegundin í akurræktun en vestan hafs til dæmis glæsiþinur (Abies fraseri). Af öðrum tegundum sem nýttar eru sem jólatré í Evrópu má nefna evrópuþin (Abies alba), rauðgreni (Picea abies) og skógarfuru (Pinus sylvestris). Í Norður-Ameríku eru nokkrar tegundir algengastar og fer það eftir svæðum, til dæmis áðurnefndur og glæsiþinur (Abies fraseri), balsamþinur (Abies balsamea), degli (Pseudotsuga menziesii) og broddgreni. Skógarfura (Pinus sylvestris), sem er evrópsk tegund, er líka ein mest ræktaða tegundin í jólatrjáarækt vestan hafs.

Ýmiss konar vélbúnaður er fáanlegur til akurræktunar jólatrjáa. Mynd af vef Damcon, www.damcon.nl.Þegar jólatré eru ræktuð á akri er valið svæði með frjósömum jarðvegi, til dæmis tún. Jarðvegurinn er opnaður með plóg eða herfi og algengt er að eitrað sé markvisst til að losna við gras og illgresi. Einnig er notað eitur gegn skordýrum og sveppum. Notaður er tilbúinn áburður til að auðga jarðveginn. Stöðugt er fylgst með plöntunum til að forma þau og hlúa að þeim svo sem stærstur hluti þeirra verði að seljanlegum jólatrjám. Eftir tiltekinn tíma eru öll trén skorin upp og byrjað upp á nýtt.

Akurræktun jólatrjáa er mjög sérhæfð búgrein. Hún er skilvirk vegna mikillar tæknivæðingar og gefur mikið af sér hjá þeim sem náð hafa góðum tökum á henni.

  • Kostir akurræktunar jólatrjáa felast aðallega í skilvirkni og vinnusparnaði. Mörg tré eru á litlu svæði. Þau eru því aðgengileg til umhirðu og uppskeru. Veltutími á hverja einingu lands er stuttur og búast má við miklum tekjum
  • Gallar akurræktunar jólatrjáa eru að stofnkostnaður er hár, aðferðin krefst mikillar vinnu og akurræktun virðist vera erfið við íslenskar aðstæður. Það helgast bæði af því að enn vantar meiri þekkingu og reynslu í þessum efnum en hér er líka mikil hætta á að vor- og haustfrost skemmi tré á bersvæði. Lítið er til í landinu af sérhæfðum vélum til akurræktunar jólatrjáa og veltan stendur ekki undir slíkri fjárfestingu enn sem komið er.

Else Møller skógfræðingur stýrir langtímatilraun með hraðræktun jólatrjáa á ökrum hérlendis með dönsku aðferðinni. Tilraunin var sett af stað á Hvanneyri árið 2009 í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Vesturlandsskóga. Tveimur tilraunum var bætt við 2011 í Skagafirði og við Kirkjubæjarklaustur. Markmið verkefnisins er að kanna hvaða aðferðir henta best við akurræktun og hvaða trjátegundir gefa besta árangurinn. Fyrstu niðurstöður verkefnisins birti Else í BS- og MS-ritgerðum sínum í skógfræði við LbhÍ.

Staðarval

Að velja rétt ræktunarsvæði með tilliti til vaxtarskilyrða er frumskilyrði fyrir vel heppnaða jólatrjáaræktun og árangurinn veltur fyrst og fremst á því. Best er að velja hallandi brekkur með 5°-8°halla, helst til norðurs. Forðast skal frostpolla og flatlendi því þar eru mestar líkur á að plöntur skemmist í haust- og vorfrostum. Einnig skal forðast mjög þurr svæði og svæði þar sem mikil hætta er á frostlyftingu, sérstaklega mela og mjög rofið mólendi. Rétt er að velja svæði sem eru aðgengileg allan ársins hring og svæði sem njóta skjóls frá góðu skjólbelti eða skógi. Til dæmis má nýta svokallaða skógarskápa, skjólgóð svæði inni í grónum skógi. Einnig má ala upp jólatré í nýgrisjuðum, ungum  lerkiskógi sem er nægilega bjartur til að jólatrén verði hæfilega þétt. Erfitt er að finna svæði sem hafa alla þessa kosti en því fleiri kosti sem tiltekið svæði hefur, því betra.

  • Sjálfbær ræktun. Fyrir furu hentar land sem er ríkt af tegundum eins og rjúpnalaufi (holtasóley) og berjalyngi. Greni þarf frjósamara land, til dæmis graslendi.
  • Akurræktun. Frjósamur jarðvegur er skilyrði svo akurræktun jólatrjáa sé möguleg. Gömul tún koma einna helst til greina.

Vélanotkun

Of oft gleymist að skoða aðgengi þegar jólatrjáaræktun er valin staður. Við akurræktun er trjánum sinnt allan ársins hring og því er ráðlegt að hafa ræktunarsvæðið nálægt þjóðvegum eða vegum með nægilegt burðaþol fyrir umferð tækja og tóla sem nota þarf við ræktunina. Þetta auðveldar umferð til og frá svæðinu og tryggir aðgengi yfir vetrartímann. Við jólatrjáaræktun fer lokahögg fram í nóvember og desember og því er mikilvægt að tryggja aðgengi að svæðinu á þeim tíma. Ýmiss konar sérhæfðar vélar hafa verið þróaðar til notkunar við akurræktun jólatrjáa, jarðvinnsluvélar, tæki til eiturúðunar, sláttuvélar, klippur og fleira.

Eins er mikilvægt að hafa gott aðgengi innan ræktunarsvæðisins með því að leggja út slóðir (um 3 m breiðar) með ákveðnu millibili. Á stærri ræktunarsvæðum er mælt með að hafa 20 raðir af trjám milli slóða (um 24 m). Með þessu skipulagi er hægt að vélvæða ræktunarferlið og framkvæma flestar aðgerðir með dráttarvélum og tækjum sem notuð eru í ræktuninni. Slóðirnar eru grasi grónar og slegnar yfir sumarið, til að auðvelda umgengni og vernda jarðveginn fyrir skemmdum af umferð. Grassvörðurinn kemur líka í veg fyrir að trén verði forug þegar þau eru dregin um svæðið við lokahögg.

Við akurræktun er mælt með að vinna jarðveginn áður en gróðursetning hefst, til að bæta vaxtarskilyrðin fyrir plönturnar. Við jarðvinnslu hækkar jarðvegshitinn, hlutfall loftrýmis og jarðvegsöndun eykst, niðurbrot lífrænna efna eykst og þar með umsetning næringarefna sem munu bæta vaxtarskilyrði plantna. Annar ávinningur við jarðvinnslu er að hún auðveldar rótarvöxt hjá ungplöntum eftir gróðursetningu. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að jarðvinnsla stuðlar að auknum rótarvexti sem er forsenda fyrir lifun og vexti plantna. Gegnum ræturnar ná plönturnar í vatn og næringarefni til vaxtarins og það er því mikilvægt að jarðvegurinn sé þéttur í kringum ræturnar til að upptaka vatns og næringarefna geti átt sér stað. Hins vegar hefur of þéttur, kaldur eða þurr jarðvegur hamlandi áhrif á vöxt.

Helsti ókostur við jarðvinnslu er að yfirborð jarðvegsins opnast og fræforðinn í efstu jarðlögunum fær tækifæri til að spíra og getur síðan valdið miklu tjóni í nýgróðursetningu ef ekkert er gert til að sporna gegn samkeppnisgróðri. Við jarðvinnsluna eykst líka hættan á frostlyftingu, vindrofi og vatnsrofi.

Við jarðvinnslu á ökrum er mælt með plægingu og tætingu með pinnatætara. Til að þjappa jarðveginn og minnka þornun er hægt að fara yfir svæðið með valtara (Lundquist, 1997). Við plægingu snýst gamla yfirborðið við og nýtt yfirborð með minni illgresisforða kemur upp. Til að lofta jarðveginn sem myndast eftir plægingu er pinnatætarinn notaður. Mælt er með 20-25 cm plægingardýpt og 16-20 cm tætingardýpt á ökrum hérlendis. Ef of djúpt er farið getur plæging í jarðvegsþunnu og þurru landi leitt til vandamála, þar sem upp geta komið ófrjósöm jarðvegslög með lélega vatnsheldni.

Við jólatrjáaræktun erlendis er algengt að jarðvinna ræktunarsvæðið til að losna við samkeppnisgróður og minnka hættu á frostskemmdum. Jarðveginum er frá gróðursetningu til lokahöggs haldið lausum við annan gróður til að minnka samkeppni um vatn og næringarefni og til að koma í veg fyrir barrskemmdir sem geta orðið af völdum illgresis. Þessi aðferð hefur lítið verið reynd á Íslandi vegna aukinnar hættu á myndun holklaka, frostlyftingu og vindrofi. Aðrar aðferðir hafa verið reyndar hérlendis við jólatrjáaræktun á ökrum eins og gróðursetning í opna plógstrengi, gróðursetning með sumarrýgresi (Lotium multiflorum) og gróðursetning í plast eins og við skjólbeltaræktun. Aðferðirnar eiga það sameiginlegt að samkeppnisgróður, aðallega gras, er fljótur að koma upp og vaxa yfir trjáplönturnar.

Við gróðursetningu í jarðunninn akur sýndu fyrstu niðurstöður úr tilrauninni á Hvanneyri 2009, að lifun plantna jókst þegar hraukað var í kringum hverja plöntu við gróðursetningu. Hraukun er þekkt aðferð í gróðrarstöðum, þá er mold hreykt að hverri plöntu til að draga úr frostlyfting, útþornun og til að beina yfirborðsvatni frá ungum plöntum. Hraukun er því aðferð sem mælt er með við jólatrjáaræktun á ökrum á Íslandi.

Áburðarnotkun

Við ræktun jólatrjáa er mikilvægt að taka jarðvegssýni til að kanna ástand jarðvegsins. Greind er samsetning steinefna í jarðvegi, kalsín (Ca), kalí (K), magnesín (Mg), natrín (Na) og fosfór (P). Mæling á sýrustigi (pH) skiptir líka máli fyrir upptöku næringarefna. Köfnunarefni eða nitur (N) er ekki mælt en yfirleitt er skortur á því í íslenskum jarðvegi. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá þau gildi sem notuð eru til viðmiðunar um ástand jarðvegs. Mj (millijafngildi)er eining sem notuð er við jarðvegssýni og segir til um t.d. magn fosfórjóna í 100g af jarðvegi.

Tafla sem sýnir mæligildi sýrustigs og helstu steinefna í jarðvegi

Jarðvegssýni skal taka á 15 cm dýpi þannig að það sé neðan við rótarlag (nota plönturör). Takið sýni á 5 mismunandi stöðum á sömu spildu og blandið saman í eitt sýni. Safnið öllum sýnum í einn sýnatökupoka. Látið sýnin þorna vel, hreinsið rótarleifar og annað rusl úr. Æskilegt er að magn í hverju sýni sé 300-500 grömm. Sýnapokan skal merkja vel með staðarheiti, nafni jarðeiganda, kennitölu, dagsetningu sýnis. Sýnin eru send til greiningar á rannsóknarstofu LbhÍ á Hvanneyri.

Eitrun

Illgresiseyðing
Ódýrasta, skilvirkasta og mest notaða leiðin til að losna við illgresið á jólatrjáaökrum er eitrun. Til að minnka illgresisálag strax í byrjun er mælt með að eitra allt svæðið með plöntueitri áður en jarðvinnsla hefst, haustið fyrir gróðursetningu. Vandamálið við eitur er að það getur haft neikvæð áhrif á umhverfið og óþekktar afleiðingar til framtíðar. Enn fremur er eitrun trauðla í samræmi við alþjóðleg markmið um sjálfbæra þróun og varðveislu líffjölbreytni. Nú er því víða reynt að draga úr notkun eiturs í jólatrjáarækt, t.d. í Danmörku, og finna aðrar leiðir til að draga úr illgresissamkeppni.

Yfirbreiðsla með plasti, akrýldúk, dagblöðum og kurli við gróðursetningu jólatrjáa hefur verið reynd svolítið hérlendis en það er dýr og vinnufrek aðferð. Ekki er víst að hún henti við jólatrjáaræktun í stærri stíl. Á eftir eitrun er vélhreinsun sú aðferð sem er mest notuð til að halda illgresi í skefjum. Ef nota á vélar er mikilvægt að gera ráð fyrir því þegar gróðursetning er skipulögð svo að svæðið verði véltækt þegar þar að kemur. Oft eru notaðar sérhæfðar vélar við jólatrjáaræktun.

Tilraunir með að halda illgresi í skefjum með beitardýrum hafa verið gerðar í jólatrjáareitum víða. Í Danmörku hafa rannsóknir sýnt að íslenski hesturinn reynist betur í þessu efni en sauðkindin. Beitinni er erfitt að stjórna nema með stöðugu eftirliti. Þá getur vöxtur snarrótar aukist mikið þegar beit er hætt en sú tegund er til óþurftar í jólatrjáarækt. Í  Danmörku vöndu menn sig á að halda jólatrjáaökrum algjörlega lausum við illgresi og til þess þurfti mikið eitur. Undanfarin ár hafa rannsóknir sýnt að þetta sé óþarfi. Nóg er að halda hreinu svæði sem nemur um 40 cm radíus út frá hverju tré. Það er hægt að gera með punkteitrun eða sérhönnuðum vélum (róbótum) sem þó eru enn í þróun.

Tegundir eiturs og aðferðir við eitrun
Við endurvinnslu túna til jólatrjáaræktunar er talið nauðsynlegt að eitra nokkrum vikum fyrir plægingu til að minnka illgresisálagið. Margar mismunandi tegundir af illgresiseitri eru á markaði. Roundup (glífósat) er það eiturefni sem mest hefur verið notað bæði erlendis og hérlendis. Þetta er breiðvirkt og kerfisvirkt eiturefni sem laufblöð plantnanna taka upp. Efnið flyst um plöntuna með æðakerfinu og drepur hana með því að hindra amínósýrumyndun. Mestu áhrifin af Roundup nást þegar rakastig í lofti er hátt, en virknin hverfur ef rignir fyrstu klukkutímana eftir eitrun. Áhrifin sjást eftir hálfan til einn mánuð.

Roundup verkar á margar grastegundir og tvíkímblöðunga. Það binst fast við jarðveg og því er almennt talin lítil hætta á útskolun nema efnið sé notað á sendinn jarðveg. Tíu dögum eftir eitrun er hægt að hefja jarðvinnslu eða gróðursetningu, samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Við úðun fyrir jarðvinnslu að hausti á svæðum með mikla grasþekju er samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda mælt með að nota 5-6 lítra Roundups á ha í 300-400 lítra af vatni ef er notuð úðadæla tengd dráttarvél og í 150-350 lítra af vatni ef baksprauta er notuð. Mælt er með að úða að minnsta kosti 10 dögum áður en jarðvinnsla hefst að hausti. Minni styrkur af Roundup er notaður eftir gróðursetningu (2-4 lítrar á ha) og úðun með skerm er mikilvæg til að hlífa trjánum fyrir eitrunaráhrifum. Hægt er að úða með Roundup allt sumarið ef skermur er notaður.

Eiturnotkun er rótgróin í jólatrjáarækt erlendis. Rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna áhrifin á umhverfið af Roundup-notkun í jólatrjáarækt. Þær rannsóknir benda til að mjög takmörkuð útskolun sé á Roundup í yfirborðsvatni en þó var hægt að finna leifar af efninu og niðurbrotsefnum (amínómetíl-fósfórsýru) í jarðvegslögum sem samsvaraði um 50% af því efni sem hafði verið úðað á viðkomandi svæði. Síðustu misseri hafa líka komið fram vísbendingar um að glífósat geti verið krabbameinsvaldandi og því er vaxandi andstaða við notkun þess víða um lönd.

Óþrif á jólatrjám

Skordýr og sveppir geta valdið verulegu tjóni frá fyrsta ári eftir gróðursetningu og fram að lokahöggi. Einn alvarlegasti sjúkdómur sem leggst á grenitegundir, aðallega rauðgreni, er greniryðsveppur (Chrysomyxa abietis). Þetta greniryð þrífst best við aðstæður þar sem nægjanlegur raki er. Það drepur ekki tréð en liturinn breytist, tréð verður aldrei grænt aftur og því ekki nothæft sem jólatré. Barrfellissveppur grenis (Rhizosphaera kalkhoffii) hefur fundist í minni mæli á rauðgreni hérlendis og er ekki talinn stórt vandamál. Sitkalús (Elatobium abietinum) er skordýr sem veldur miklu tjóni, sérstaklega á blágreni og sitkagreni. Sitkalúsafaraldur kemur upp með jöfnu millibili á Íslandi, sérstaklega eftir mildan vetur, en fjöldi lúsa og umfang faraldursins er nátengt veðurfari. Tré með sitkalús þekkjast á því að barrið verður rauðbrúnt, eldra barrið fyrst.

Sitkalúsin fer líka á rauðgreni en það þolir betur slíka árás. Grenisprotalús gerir ekki greni beinlínis skaða en hefur áhrif á útlit trjánna. Barrið gulnar og vindingur getur komið á árssprota sem lúsin hefur lagst á. Hvorugt er gott í jólatrjáarækt. Köngulingur (Oligonychus ununguis) er lítil spunamítill sem þrífst bæði á rauðgreni og blágreni. Köngulingur drepur ekki tréð en dregur úr vexti, veldur litarbreytingu og leggur fínan spuna yfir tréð og það verður ónothæft sem jólatré. Stafafura er að mestu laus við sveppi og meindýr á Íslandi enn sem komið er. Furubikar (Gremmeniella abietina) hefur þó sést á stafafuru í Heiðmörk. Hann þekkist á því að nálar verða brúnar við blaðfestur og visna síðan. Furulúsin (Pineus pini) sem herjar á tveggja nála furur getur lagst á stafafuru en hérlendis hefur lúsin ekki valdið tjóni á henni. Tré með furulús þekkjast á því að greinar eru hvítar af lús og við rætur nála eru örlitlir vaxullarhnoðrar. Hún þrífst best ef vetur eru mildir.

Varnir gegn skaðvöldum
Algengasta aðgerðin hérlendis til að draga úr skaða af völdum skordýra er úðun með Permasect (permethrin). Það er mjög virkt efni en telst þó hættulítið mönnum. Það er hins vegar skaðlegt vatnalífverum. Permethrin hefur áhrif á taugakerfið í skordýrum líkt og DDT. Í rannsóknum á spendýrum (músum) hafa greinst áhrif efnisins á taugakerfið, á æxlunarfæri og aukin hætta á krabbameini í lungum og lifur ef dýr eru lengi í snertingu við efnið. Nýlegar rannsóknir hafa bent til tengsla permethrins við hrun í stofni hunangs- og býflugna (Bombus sp. og Apis mellifera), sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem efnið er mikið notað. Því er umhugsunarvert hvort nota beri þetta efni í jólatrjáaræktun hérlendis.

Aðrir skaðvaldar

Á stærri skala eru búsmali og fuglar helstu skaðvaldar hérlendis. Rjúpur geta bitið brum af plöntum í leit að fæðu á vetrum. Gæsir geta bitið toppsprotann og eftir stendur planta með greinileg för eftir gæsabeit, stubb af merg og einum árhring sem vísar upp á við. Spörfuglar og ýmsir ránfuglar, þar með taldir hrafnar, geta brotið toppsprota þegar þeir setjast á trén. Erlendis eru mýs þekktar fyrir að naga börk og brum á ungum trjám yfir veturinn og geta með því valdið miklu tjóni fyrstu árin eftir gróðursetningu. Kindur og hross í lausagöngu geta valdið tjóni í jólatrjáareitum og því er mælt með að hafa reiti afgirta. Ef skepnur eru notaðar til að draga úr grassamkeppni á jólatrjáareitum er ekki mælt með að láta þær inn á svæðið fyrr en trén hafa náð ákveðinni stærð.