Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðsluna, Skógræktina og matvælaráðuneytið.

Á vegum verkefnisins hafa skógræktarfélögin séð um gróðursetningu á um 1 milljón trjáplantna árlega frá árinu 1990. Markmiðið er að sameina aðgerðir landgræðslu og skógræktar til að klæða rýr og illa gróin svæði skógi. Gerðir eru þinglýstir samningar um öll svæðin sem kveða m.a. á um að þau skuli vera opin öllum almenningi til útivistar.

Ræktunarsvæði Landgræðsluskóga eru víðs vegar á landinu og eru nú rúmlega 100 talsins. Langflest svæðin eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra. Skógræktarfélögin sjá um framkvæmd verkefnisins á hverjum stað, útvegun lands, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu.

Svæðin eru öll opin almenningi og eru mörg hver orðin ákjósanleg til gönguferða og útivistar.