Stefna Skógræktarinnar í stuttu máli.

Skógræktin var ríkisstofnun sem heyrði undir matvælaráðuneytið og þjónaði skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Stofnunin varð til 1. júlí 2016 við samruna Skógræktar ríkisins og sex stofnana sem þjónuðu skógrækt á lögbýlum, hver í sínum landshluta. Fyrsta janúar 2024 tók ný stofnun, Land og skógur, við öllum verkefnum og skuldbindingum Skógræktarinnar. Meðan nýr vefur er í smíðum fyrir hina nýju stofnun þjónar skogur.is áfram skógræktarhluta vefþjónustu Lands og skógar að einhverju leyti.

Stefnumótun Skógræktarinnar fór fram veturinn 2015-2016 og má nálgast hér á vefnum (sjá undirsíður í dálkinum til hægri) og einnig hlaða niður í heild sinni:

Á vorjafndægri 2020 tók í gildi nýtt og endurskoðað skipurit stofnunarinnar. Þar var meðal annars tekið mið af nýjum lögum um skóga og skógrækt og auknum hlut loftslagsverkefna í starfsemi Skógræktarinnar. Jafnframt var ýmislegt endurskoðað út frá reynslunni af rekstri stofnunarinnar frá 2016. Með breytingum á skipan ráðuneyta sem tók gildi 1. febrúar 2022 færðist Skógræktin úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu yfir í nýtt matvælaráðuneyti. Í ágúst 2023 var mannauðsstjóri færður beint undir skógræktarstjóra frá rekstrarsviði.

Skipurit Skógræktarinnar

Um stefnumótunina

Í janúar 2016 var Capacent falið að veita ráðgjöf og stuðning til stýrihóps um sameiningu landshlutaverkefna í skógrækt og Skógræktar ríkisins í nýja stofnun, Skógræktina. Í stýrihópnum áttu sæti Björn Helgi Barkarson, Sæmundur Kr. Þorvaldsson, Þröstur Eysteinsson, Ólöf Inga Sigurbjartsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Björn B. Jónsson og Valgerður Jónsdóttir. Þá tóku þeir Hreinn Óskarsson, Pétur Halldórsson, Gunnlaugur Guðjónsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson þátt í störfum stýrihópsins. Stýrihópurinn hélt sjö fundi sem stóðu að jafnaði í um þrjár klukkustundir og voru haldnir í Reykjavík.

Vegna stefnumótunarinnar voru skipaðir þrír vinnuhópar til að greina stöðu innri, ytri og faglegra mála og hittust hóparnir þrisvar sinnum undir forystu hópstjóra sem voru Edda Sigurdís Oddsdóttir, Brynjar Skúlason og Halldór Sverrisson. Haldinn var stefnumótunarfundur í mars þar sem niðurstöður vinnuhópanna voru kynntar og allir starfsmenn tóku þátt í að móta tillögur að áherslum og helstu verkefni nýrrar stofnunar.

Ráðgjafar Capacent tóku viðtöl við alla starfsmenn landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins og fóru á vettvang hverrar starfseiningar fyrir sig. Loks voru haldnar vinnustofur með hagsmunaaðilum, þ.e. Landssamtökum skógareigenda og Skógræktarfélagi Íslands.

Í viðtölum og á vinnustofum var markmiðið að afla upplýsinga um það sem gengi vel í núverandi skipan og framkvæmd verkefna og það sem gengi síður og mætti laga í nýrri stofnun. Mestum tíma var varið í að kalla fram tillögur og ábendingar um stjórnun og skipulag nýrrar stofnunar, Skógræktarinnar.