Skemmtilegur útivistarskógur með gönguleiðum að útsýnisskífu þar sem útsýni er mjög gott til allra átta.

Almennt um skóginn

Reykjarhólsskógur er skógarreitur ofan byggðarinnar í Varmahlíð í Skagafirði. Skógurinn í umsjá Skógræktarinnar. Hann tengist nærliggjandi svæðum og myndar fjölbreytt útivistarsvæði með merktum gönguleiðum.

Staðsetning og aðgengi

Best er að komast að Reykjarhólsskógi upp frá götunni Birkimel í Varmahlíð og taka svo fyrstu beygju til norðurs. Við aðkomuna að skóginum er knattspyrnuvöllur og tjaldsvæði.

Aðstaða og afþreying

Í skóginum eru merktar gönguleiðir og útsýnisskífa á Hólnum þar sem útsýni er mjög gott til allra átta. Áningarstaðir eru í skóginum með bekkjum og borðum. Aðliggjandi tjaldsvæði er ekki í umsjón Skógræktarinnar en er þó samliggjandi skóginum með góðri aðstöðu og leiktækjum. Saman myndar tjaldsvæðið með skóginum ákjósanlegan áningar- og dvalarstað fyrir ferðafólk.

Saga skógarins

Skógræktin fékk umsjón með Reykjarhólsreitnum árið 1950 samkvæmt samningi við Héraðsskólann í Varmahlíð. Sýslunefnd Skagafjarðar hafði þá látið girða þar 17,5 ha skógræktarsvæði árið 1943. Stofnað var til græðireits í brekkurótinni til að geyma plöntur. Reitur sá varð að gróðrarstöðinni Laugarbrekku sem rekin var til ársins 2000 og var miðstöð skógarplöntuframleiðslu og dreifingar á Norðurlandi vestra í um hálfa öld.  

Trjárækt í skóginum

Gróðursetning hófst 1947 með þrjú þúsund birkiplöntum af Bæjarstaða­kvæmi og var mestur kraftur í gróðursetningarstarfinu næstu 20 árin. Þá hafði verið gróðursett í meiri hluta girðingarinnar. Vandamál reyndust mörg framan af við ræktun á þessum stað, þar sem sáralítil reynsla var af skógrækt. Langerfiðast var að fást við grasvöxt, þar sem snarrótarpuntur var drottnandi eins og algengt er í Skagafirði, þar sem land er friðað fyrir beit. Eftir að plöntur komust upp úr grasinu og mynduðu samfellt krónuþak – sem varð auðvitað fyrr en ella vegna þess hve þétt var gróðursett – hafa margar trjátegundirnar vaxið ótrúlega vel, langtum betur en menn gátu vænst í upphafi.  Þannig má álykta, að það hafi reynst happadrjúgt við aðstæður á Reykjarhóli að gróðursetja þétt til þess að kæfa snarrótarpuntinn sem fyrst. Eftir 1980 var ljóst, að nauðsynlegt væri að hefja grisjun í hinum ofurþétta skógi. Fyrst var grisjað í Reykjarhólsskógi árið 1984 en frá 1988 hefur árlega verið grisjað, bæði brotin tré eftir snjóþyngsli og ákveðin svæði kerfisbundið, svo að nú er skógurinn kominn í allgott horf.

Sigurður Jónasson skógarvörður

Þegar uppeldi plantna í Varmahlíð hófst á vegum skógræktarnefndar Skagafjarðarsýslu árið 1944 var Sigurður Jónasson ráðinn til að annast það. Fyrstu plönturnar voru afhentar árið 1947 en árið 1950 tók Sigurður við starfi skógarvarðar á Norðurlandi vestra þegar Skógræktin tók við landinu á Reykjarhóli og gróðrarstöðinni. Sigurður gegndi starfinu til dauðadags árið 1978. Hann getur með réttu kallast faðir skógræktar í Skagafirði. Honum tókst að þróa aðferðir í plöntuuppeldi í Varmahlíð og Laugabrekku við mjög erfiðar aðstæður svo að árangur varð smám saman góður. Hann færði hinum mörgu eigendum skógarreita í Skagafirði og Húnavatnssýslum trjáplöntur heim í hlað og leiðbeindi þeim við gróðursetningu. Hann fann aðferð til þess að hlífa trjáplöntumnum við hinum mikla grasvexti sem áður er minnst á og fyrir þett uxu upp hinir mögu trjálundir við sveitabæi á svæðinu sem nú blasa við, auk skóganna á Reykjarhóli og Hólum í Hjaltadal.

Annað áhugavert í skóginum

Örnefnin Reykjarhóll, Laugarbrekka og Varmahlíð eru til marks um jarðhita á svæðinu. Alllangt er síðan hann var virkjaður og nýttur til húshitunar í Varmahlíð.