Forvarnir eru öflugasta vopnið gegn flutningi skaðvalda á trjám milli landa og heimsálfa. Litlar og dreifðar vísindastofnanir hérlendis rýra möguleika Íslendinga til öflugra rannsókna á þessu sviði en það má vega upp með efldu samstarfi, bæði innanlands og á norrænum vettvangi. Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu NordGen um skógarheilsu í framtíðinni sem haldin var nýverið í Hveragerði.

Þetta var tveggja daga ráðstefna og fyrri daginn héldu tíu sérfræðingar frá Norðurlöndunum og Bretlandi erindi á Hótel Örk í Hveragerði um skaðvalda og horfur í þeim efnum á komandi tíð. Seinni daginn voru skoðuð tilrauna- og skógræktarsvæði á Suðurlandi og endað í Sagnagarði Landgræðslunnar í Gunnarsholti.

Dagskrá

Þröstur Eysteinsson setti ráðstefnuna og nefndi að tré dæju alltaf á endanum af völdum skaðvalda. Að setningunni lokinni flutti Lise Lykke Steffensen, forstjóri NordGen, ávarp og ræddi mikilvægi norræns rannsóknarsamstarfs og hlutverk NordGen, ekki síst á sviði skóga og skógræktar.

Inngangserindi ráðstefnunnar hélt breski skógfræðiprófessorinn Hugh Evans sem sagði forvarnir öflugasta vopnið gegn flutningi skaðvalda á trjám milli landa og heimsálfa. Mest sé hættan af innflutningi lifandi plantna í mold en einnig fylgi hætta innflutningi á óunnu timbri, sérstaklega með berki. Skaðvaldar geti sömuleiðis borist með öllum fólks- og vöruflutningum milli landa. Í þessu ljósi sé mikilvægt að huga að forvörnum og einnig að efla vöktun svo finna megi nýja skaðvalda svo fljótt sem mögulegt er. Þá sé líklegra að snúast megi til varna sem bera árangur.

Juha Tuomola, sem situr í áhætturannsóknarteymi finnsku matvælastofnunarinnar Ruokavirasto. Hann fór í erindi sínu yfir vinnu að sérstöku kerfi sem ætlað er að meta hættuna á innflutningi skaðvalda á barrviðum til Norðurlanda og mögulegri útbreiðslu þeirra þar. Kerfið á að greina hvaða skaðvöldum er mikilvægast að vinna gegn enda koma mjög margir skaðvaldar til greina og mikilvægt að vita hvað af þeim sé líklegast að geti borist til landanna og valdið skaða svo haga megi aðgerðum samkvæmt því.

Ljóst er að ræktendur skógarplantna standa einnig frammi fyrir ýmsum nýjum viðfangsefnum með hlýnandi loftslagi. Af skaðvöldum á skógarplöntum í uppeldi hjá gróðrarstöðvum er talið að skordýr muni ekki síst sækja í sig veðrið eftir því sem fram kom í erindi Anne Uimari frá finnsku náttúruauðlindastofnuninni LUKE.

Miðað við önnur lönd hafa fáir skaðvaldar borist til Íslands sem herja á helstu nytjatrjátegundir landsins. Það þýðir þó ekki að Íslendingar geti andað rólega og aðgerðarlausir. Mikilvægt er að verjast innflutningi slíkra skaðvalda eins og kostur er, ekki síst með því að huga að innflutningsleiðum þeirra, hvort sem m það er með varningi, lítt unnum viði, fólki, farartækjum eða öðru. Í fyrirlestri Guðmundar Halldórssonar, skordýrafræðings hjá Landgræðslunni, kom fram að helstu skaðvaldar sem nú herja á birki væru allir innfluttir.  Guðmundur segir að efla þurfi eftirlit með innflutningi og aukins mannafla sé þörf til að verjast innflutningi skaðvalda.

Halldór Sverrisson talaði því næst um kynbætur á alaskaösp í leitinni að asparklónum sem hefðu mótstöðu gegn sveppasjúkdómnum asparryði. Þetta starf hefur gengið vel eins og fjallað hefur verið um áður hér á skogur.is og vakti þetta starf mikla athygli ráðstefnufólks í Hveragerði.

Viðbrögð við ógnum sem steðja að norrænum skógum voru einnig viðfangsefni í fyrirlestri sem Hans Peter Ravn frá Hafnarháskóla hélt. Hann ræddi m.a. flutningsleiðir skaðvalda milli landa svo sem með innflutningi á aðföngum og gróðri til garðyrkju, á viðarkurli til brennslu o.fl. Hann benti meðal annars á þann möguleika að nýta alþjóðlegt samskiptanet grasagarða til að afla upplýsinga um skaðvalda á tilteknum trjátegundum. Þetta samstarf er mjög rótgróið og náið og gefur að mati Hans færi á að meta hættuna á mögulegum innflutningi skaðvalda eða þau áhrif sem ætla mætti að það hefði ef þeir næðu bólfestu í nýju landi. Samstarf er mikilvægt, segir hann, og var alls ekki einn um að nefna samstarf sem mikilvægt vopn í þessum efnum.

Jørgen Eilenberg frá Hafnarháskóla ræddi því næst um nýjar, ágengar tegundir sem gætu borist til landa Evrópusambandsins og fjallaði um áhættumat, varnir og mögulega notkun lífrænna varna.

Þá sagði Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Skógræktinni, frá rannsóknum sem nú er unnið að á einum þeirra innfluttu skaðvalda sem farnir eru að herja á birki hérlendis, birkikembu (Eriocrania unimaculella). Þar er meðal annars spurt: Hversu mismikið er íslenskt birki útsett fyrir birkikembu. Þegar hefur komið í ljós nokkur á því hversu mjög þessi skaðvaldur herjar á mismunandi birkikvæmi. Þetta virðist til dæmis fara eftir blaðstærð birkisins og hversu snemma trén laufgast á vorin. Áhugavert verður að fylgjast áfram með þeim rannsóknum.

Áður en síðasta erindi ráðstefnunnar var haldið kvaddi Aðalsteinn Sigurgeirsson sér hljóðs á ráðstefnunni. Hann situr í stjórn HealGenCar ekur athygli á rannsóknarfé sem stendur til boða hjá HealGenCar til rannsóknarverkefna sem snerta skógerfðafræði og trjáheilsu. Endilega kynnið ykkur þetta verkefni. HealGenCAR er samstarfsvettvangur um framhaldsrann­sóknir í skógarheilsu- og skóg­erfða­fræð­um til stuðnings líf­hagkerf­inu. Samstarfið nýtur stuðnings SNS, Samnorræna skógarrann­sókna, sem er samnorræn stofnun um skógrækt og skógarrannsóknir, og á vegum þess eru í boði myndarlegir styrkir til rannsóknarverkefna sem Aðalsteinn vakti athygli fundarfólks á.

Þá tók til máls Edda Sigurdís Oddsdóttir, skógvistfræðingur og sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Hún sýndi áhugaverð kort sem sýna hversu mögulegt útbreiðslusvæði sitkagrenis á Íslandi gæti stækkað með hækkandi meðalhita. Kortin sýna að ef meðalhiti á landinu hækkar um fjórar gráður gæti sitkagreni vaxið nánast um allt Ísland. En tegundin hefur ekki einungis tækifæri heldur býr hún við ógnanir líka. Sitkalúsin sem herjar á sitkagrenið nýtur nefnilega líka góðs af hærri meðalhita. Nokkur von býr í náttúrlegum óvinum sitkalúsarinnar, segir Eda, s.s. maríubjöllum, fuglinum glókolli og sníkjuvespum. En hver verða áhrif hærri hita á þessa óvini lúsarinnar? Því er ósvarað.

Í skoðunarferðinni seinni dag ráðstefnunnar var komið við í Garðyrkjuskólanum á Reykjum og litið á svæðið fyrir ofan þar sem aukinn jarðhiti eftir síðustu Suðurlandsskjálfta hefur haft áhrif á grenitré í skógi. Þessi áhrif eru viðfangsefni í alþjóðlega rannsóknarverkefninu ForHot. Tilraunasvæðið í Hrosshaga í Biskupstungum þar sem asparklónar eru skoðaðir með tilliti til ryðþols var líka skoðað, því næst farið á Hekluskógasvæðið þar sem ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með birkiskóggræðslu á svörtum söndum, þá litið inn í skóginn í Sandártungu Þjórsárdal og skoðunarferðin endaði loks í Sagnagarði Landgræðslunnar í Gunnarsholti.

Alls sóttu um sjötíu manns ráðstefnu NordGen í Hveragerði, þátttakendur víða að úr heiminum en flestallir starfandi að skógrækt og skógræktarrannsóknum á Norðurlöndunum. Næsta NordGen-ráðstefna verður haldin í Noregi að ári og þá verður fagnað hálfrar aldar afmæli þess norræna samstarfs að skógræktarrannsóknum sem nú er hluti af norrænu erfðavísindastofnuninni NordGen.

Daginn eftir að ráðstefnunni lauk, 19. september, var tengsladagur SNS haldinn í Reykjavík þar sem fólk kom saman og hitti mögulegt samstarfsfólk í vinnu að vísindalegum verkefnum, sérfræðinga sem akkur væri að komast í samband við eða myndar samstarfshópa og samstarfsnet. Meðal þátttakenda voru doktorsnemar sem hlutu ferðastyrk til að  geta tekið þátt í þessum viðburðum.

Texti: Pétur Halldórsson