Ef vel vorar er snjór á bak og burt og hægt að snúa sér að útiverkum af krafti. Það sem ekki var hægt að gera í apríl vegna veðurs eða tímaskorts verður að gera í maí. Klipping tvítoppa, formun og botnklipping ásamt áburðargjöf, eru hefðbundin vorverk en nú er líka komið að gróðursetningu.

Blágreni á öðru ári frá gróðursetningu undir skermi í nýgrisjuðum lerkiskógi. Mynd: Pétur HalldórssonVorverkin í maí

Enn lengjast dagarnir, að mestu orðið bjart allan sólarhringinn, farfuglar spóka sig á túnum eða synda á tjörnum og fara senn að setjast upp. Ef vel vorar er snjór á bak og burt og hægt að snúa sér að útiverkum af krafti. Það sem ekki var hægt að gera í apríl vegna veðurs eða tímaskorts verður að gera í maí.

Tvítoppar, formun og botnklipping

Fyrsta og mikilvægasta verkefnið er að fara um jólatrjáareitina og klippa tvítoppa ef þessu verki er ekki þegar lokið. Tvítoppa má klippa frá þriðja ári eftir gróðursetningu. Gott er að laga tvítoppa áður en lengdarvöxtur toppsins byrjar. Enn er þó ekki komin tími til að búa til nýja toppa eftir t.d. toppbrot. Best er að bíða með það fram í júlí.

Formun grenis og þins má hefja þegar trén eru komin í 80-100 cm hæð og eru í góðum vexti. Gott er að gera þetta í maí ef tíminn leyfir. Annars má það bíða fram eftir sumri (sjá nánar umfjöllun um aprílverkin).

Botnklipping trjáa til að mynda legg er gerð þegar trén eru komin í 80-90 cm hæð. Þetta er ágætt að gera núna en má líka bíða þangað til seinna á árinu þegar það er minni að gera. Fjarlægðar eru allar greinar af neðstu 5-10% stofnsins. Þetta sparar vinnu við lokahögg og auðveldar umhirðu.

Áburðargjöf

Það er til bóta fyrir trén að þau fái næringu eins snemma og hægt er. Virkni rótarkerfisins hjá trjánum byrjar löngu áður en trén byrja að grænka og því þurfa þau að fá næringarefni og vatn um leið og frost fer úr jörðu til að komast í góðan vöxt.   

Blákorn eða svipaður þrígildur áburður er oftast besti kosturinn því hann inniheldur steinefni og snefilefni sem henta vel við flestar aðstæður. Ef ræktunarsvæðið er á frjósömu túni er þó mælt með að spara áburðarmagnið. Tré yngri en fimm ára þarf að hámarki 12 g af tilbúnum áburði. Ef trén eru gróðursett í rýrari jarðveg er hægt að nota aðeins meira.

Mikilvægt er að auka magn áburðar eftir því sem trén stækka og að velja köfnunarefnisríkan áburð sem einnig er auðugur að magnesíni síðasta árið fyrir lokahögg til að styrkja græna litinn.

Gróðursetning

Það er ákveðinn kostur að gróðursetja jólatré á hverju ári til að tryggja jafna og jafnvel vaxandi uppskeru til framtíðar. Fjöldinn þarf ekki endilega að vera mikill. Betra er að miða við það sem fólki finnst að það geti ráðið við og komist yfir að sinna allan ræktunartímann sem er um 10 til 15 ár. Hvað mikið hver og einn ræktandi vill grjóðursetja er hans val og fer eftir tíma, áhuga, aðgangi að landi o.fl.

Skilvirkast er að gróðursetja t.d. 100 plöntur innan afmarkaðs svæðis hvert ár og gróðursetja frekar þétt (120-150 cm millibil). Þetta auðveldar vinnuferlið til muna þegar farið er út til að sinna trjánum seinna í ræktunarferlinu.

Mælt er með að skrá hjá sér fjölda plantna, tegund, kvæmi, verð (kr.) og staðsetningu. Skráningin auðveldar að halda utan um og fylgjast með þróun reita og bæta inn upplýsingum og öðru sem getur nýst við gróðursetningu í framtíðinni. Við lokahögg verður hægt að sjá hvort trén og ræktunin skilaði viðunandi afkomu.

Gagnlegt getur verið fyrir ræktendur að setja sér langtímamarkmið og stefnu fyrir jólatrjáaræktun og gróðursetja í takt við það hæfilegan fjölda trjáa á hverju ári sem sinna má með góðu móti árlega með öllu sem fylgir þessari ræktun eins og botnklippingu, áburðargjöf, tvitoppaklippingu, formklippingu, eftirliti o.s.frv.