Nytja- og útivistarskógur á Þelamörk í Hörgársveit við Eyjafjörð.

Almennt um skóginn

Að mestu ræktaður skógur við þjóðveg 1 á Þelamörk í Hörgársveit skammt frá Akureyri. Unnið er að því að bæta skóginn með tilliti til útivistar, einkum með grisjun og skógvegagerð. Grisjunin er um leið snar þáttur í þroska skógarins sem nytjaskógar.

Staðsetning og aðgengi

Vaglir á Þelamörg eru við þjóðveg nr. 1, um 10 km norðan og vestan Akureyrar. Skógurinn er fyrir ofan veg og er aðkoma að honum yst (næst Akureyri). Brunnsvæði vatnsveitu Akureyrar er á Hörgáreyrum fyrir neðan skóginn.

Aðstaða og afþreying

Þjónustuslóðir liggja um skóginn og hægt er að ganga eftir þeim. Bílastæði er skammt ofan þjóðvegar, heldur frumstætt, og lítið annað hefur enn verið gert fyrir ferðalanga enn.

Saga skógarins

Um 1930 uppgötvaði Jónas Þór, forstjóri Gefjunar á Akureyri, nokkra jarðlæga birkianga í móa á Vöglum á Þelamörk þegar hann var þar í berjamó. Þetta þótti merkilegt því í öllum Eyjafirði vestanverðum var hvergi að finna birki nema innst inni í Leyningshólum og í Garðsárgili í Öngulsstaðahreppi hinum forna. Hafði Jónas Þór, ásamt Skógræktarfélagi Eyfirðinga, forgöngu um að fá að girða litla girðingu utan um birkið á Vöglum 1933. Árið 1934 gerði svo Skógræktarfélagið samning við landeiganda (ríkið) um leigu á 5 ha spildu til friðunar en Skógræktin tók við þeim samningi tveimur árum síðar að beiðni Skógræktarfélagsins. Girðingin var stækkuð um 50 ha 1972 og árið 1979 fékk Skógræktin afhenta jörðina alla. Núverandi skógræktargirðing nær utan um 156 hektara.

Trjárækt í skóginum

Sjálfsáð birki og víðir breiddist nokkuð út eftir friðun og þar sem fyrst var friðað er nú allhávaxinn birkiskógur á um 2 hekturum lands.  Gróðursetning hófst 1954 og hefur alls verið gróðursett í tæplega 50 hektara. Um 100 hektarar lands innan girðingar eru enn skóglausir en þar er reyndar birki víða að sá sér nú og mun það svæði að mestu breytast í birkiskóg á komandi áratugum. Timburnytjar eru þegar hafnar í skóginum með grisjun og hefur timbur frá Vöglum á Þelamörk verið selt sem iðnviður til Elkem á Grundartanga. Slík sala auðveldar grisjunina og dregur úr kostnaði við hana um leið og hún stuðlar að betri skógi.

Annað áhugavert í skóginum

Gott berjaland er á Vöglum á Þelamörk, bæði ofan skógar innan girðingar og ofan girðingar. Ýmsar fuglategundir má sjá í skóginum, bæði skógarfugla og mófugla. Einnig er ekki óalgengt að sjá uglu og smyril í skóginum.