Plöntur afhentar að Sandnesi í Steingrímsfirði. Ljósmynd: Sæmundur ÞorvaldssonMeð tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt á sínum tíma jókst skógrækt til muna á lögbýlum landsins. Landeigendur í öllum landshlutum geta sótt um framlög til skógræktar á jörðum sínum. Landshlutaverkefnin voru sjálfstæðar stofnanir allt þar til þær sameinuðust Skógrækt ríkisins 1. júlí 2016 og til varð ný stofnun, Skógræktin. Þróun hvers verkefnis réðst af aðstæðum og áherslum í hverjum landshluta. Engu að síður höfðu þau alltaf góða samvinnu sín á milli, auk þess að vinna með skógræktarfélögum landsins og Skógrækt ríkisins.

Eftir sameininguna hefur gefist enn betra tækifæri til samræmingar og samvinnu auk þess sem þekking starfsfólks og reynsla nýtist betur hvarvetna um landið. Verkefnin eru nú hluti af skógarauðlindasviði Skógræktarinnar og eru starfsmenn allir fagmenntaðir á sviði skógræktar. Hlutverk þeirra er að leiðbeina skógarbændum við verklegar framkvæmdir og aðstoða við áætlana- og skipulagsgerð.

Verkefnum í skógrækt á lögbýlum var áður skipt á fimm stofnanir í jafnmörgum landshlutum. Eftir sameininguna 2016 hefur landshlutaskiptingin minni þýðingu en áður. Ráðgjafar starfa að vísu á starfstöðvum í öllum landshlutum og sinna verkefnum fyrir bændur hver á sínu svæði en jafnframt sérfræðiþjónustu og afmörkuðum verkefnum fyrir allt landið eftir sérþekkingu og skyldum hvers og eins. Þjónusta við skógarbændur er nú stærsta viðfangsefni Skógræktarinnar.

Skipting landsins eftir verkefnum um skógrækt á lögbýlum fram til 2016Aðdragandi

Árið 1970 voru samþykkt lög um Fljótsdalsáætlun með það að markmiði að rækta skóg í samvinnu við bændur á nokkrum jörðum í Fljótsdal. Eftir góða reynslu voru árið 1983 samþykkt lög um skógrækt á bújörðum. Ári síðar var kafla um skógrækt á bújörðum bætt við skógræktarlög. Tóku skógarbændur í öllum landshlutum þátt í því verkefni. Lögin gerðu ráð fyrir að eigendur jarða með hagstæð skógræktarskilyrði á völdum stöðum á landinu fengju framlög til skógræktar. Þessi starfsemi var í umsjá Skógræktar ríkisins.

Jákvæð áhrif skógræktar á þeim jörðum sem tóku þátt í Fljótsdalsáætlun urðu til þess að stofnað var til Héraðsskóga með lögum árið 1991. Þá fengu skógarbændur í fyrsta sinn aðild að stjórn slíks verkefnis. Verkefnið var viðamikið og landeigendur á Héraði fengu greidd 97% af stofnkostnaði við skógræktina. Athyglisvert þótti að búsetuþróun var jákvæð í þeim hreppum sem voru aðilar að verkefninu en á sama tíma varð fólksfækkun í öðrum sveitarfélögum á Austurlandi.

Fjármögnun og framkvæmd

Í áætlunum var gert ráð fyrir að landshlutaverkefnin myndu byggjast hratt upp og að fjárveitingar yrðu auknar verulega ár frá ári. Þetta gekk eftir fyrstu árin, en eftir að Alþingi ályktaði árið 2003 um árlega aukningu framlaga nokkur ár fram í tímann hættu fjárveitingar að aukast og drógust síðan talsvert saman. Árið 2006 voru þau lög sem áður höfðu gilt um landshlutaverkefni í skógrækt endurskoðuð ásamt lögum sem höfðu gilt um Héraðsskóga og Suðurlandsskóga. Alþingi samþykkti ný lög um landshlutaverkefnin í skógrækt (95/2006) og störfuðu öll landshlutaverkefnin samkvæmt þeim lögum eftir það.

Í nýju lögunum var markmið verkefnanna áfram að rækta skóg á 5% (188.000 ha) láglendis neðan 400 m.y.s. en ekki var lengur áskilið í lögum að það skyldi gert á 40 árum. Fyrir hvert landshlutaverkefni skyldi gerð skógræktaráætlun til 40 ára sem tæki mið af skógræktar­legum og hagrænum forsendum. Áætlunina, eða einstaka þætti hennar, átti að endurskoða á 10 ára fresti, eða oftar ef ljóst væri að forsendur hefðu brostið. Landshlutaáætlun skyldi taka mið af fjárveitingum sem Alþingi ætlaði verkefnunum í sérstakri ályktun þar um.

Augljós árangur

Jafnvel þótt ekki hafi náðst öll markmið sem sett voru með fyrstu lögunum um landshlutaverkefni í skógrækt er óhætt að segja að verkefnin hafi borið þann árangur að nú vaxa myndarlegir skógar á lögbýlum vítt og breitt um landið. Þetta starf hefur orðið til þess að skógar á Íslandi hafa stækkað að mun. Margir skóganna eru komnir á grisjunarstig og víða eru bændur farnir að njóta ávaxtanna af vinnu sinni með margvíslegum hætti, bæði með auknu skjóli og frjósemi á jörðum sínum og með afurðum eins og eldiviði, viðarkurli, efni í girðingastaura og jafnvel flettingarhæfu efni. Vísir að úrvinnsluiðnaði er að myndast á frjálsum markaði. Allt mun þetta verða sýnilegra á komandi árum.

Sem fyrr er greint eru landshlutaverkefni í skógrækt nú hluti af sameinaðri stofnun, Skógræktinni, og tilheyra þar skógarauðlindasviði. Verkefnin voru rekin með lítt breyttu sniði til ársloka 2016 en þá tók við nýtt skipulag þeirra og starfsemi var mótuð upp á nýtt. Undir lok árs var tekin í notkun sameiginleg handbók sem skógræktarráðgjafar fara eftir í störfum sínum. Handbókin er endurskoðuð reglulega.