Rögnvaldur Erlingsson og Hallgrímur Þórarinsson, bændur á Víðivöllum ytri I og II, við gróðursetning…
Rögnvaldur Erlingsson og Hallgrímur Þórarinsson, bændur á Víðivöllum ytri I og II, við gróðursetningu á berróta lerki með bjúgskóflu 1970. Ljósmynd: Halldór Sigurðsson - myndasafn Skógræktarinnar
[Grein þessi birtist í Bændablaðinu 22. október 2020 og er birt hér með leyfi höfundar]

Hinn 25. júní á þessu ári var liðin hálf öld frá því að þeir Rögnvaldur Erlingsson og Hallgrímur Þórarinsson, bændur á Víðivöllum ytri, gróðursettu fyrstu trjáplönturnar í svonefndri Fljótsdalsáætlun. Þessi gróðursetning markaði upphaf bændaskóga á Íslandi sem nú þekja um 21 þúsund hektara og eru um helmingur ræktaðra skóga í landinu. Í þessari grein er tímamótanna minnst með því að rifja upp aðdragandann og skoða afraksturinn.

Norsku ræturnar frá Örsta

Fljótsdalsáætlun átti sér langan aðdraganda. Rætur hennar liggja til Sunnmæri í Noregi þar sem Hans Berg, héraðsskógameistari í Örsta, setti fram „Örsta-áætlunina“ árið 1950. Hún leiddi til skógræktarverkefna í Norður-Noregi og á Vesturlandinu. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og Valtýr Stefánsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, horfðu til þessarar norsku áætlunar þegar þeir hvöttu íslensk stjórnvöld til að setja fjármuni í ræktun barrskóga á Íslandi á 6. áratugnum. Þeir töluðu fyrir daufum eyrum og ráðamenn höfðu litla trú á að hægt væri að stunda nytjaskógrækt hérlendis.

Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 1960 var í fyrsta sinn lagt til opinberlega að bændur sem ættu hentug lönd fengju styrki til skógræktar. Sem fyrr komst lítil hreyfing á málið enda átti skógræktarhugsjónin undir högg að sækja þar sem ræktun norsku skógarfurunnar brást vonum og miklar kalskemmdir urðu á trjám á Suðurlandi í apríl 1963.

Skóggræðsla með búskap kynnt á Atlavíkursamkomu

Austur á Fljótsdalshéraði sýndu lerkiteigar góðan vöxt á sama tíma. Jónas Pétursson, þingmaður Austurlands, lagði fram þingsályktunartillögu 1965 um að Skógrækt ríkisins á Hallormsstað yrði falið að rækta lerki til framleiðslu girðingarstaura til að fullnægja þörf landsmanna. Sama ár boðaði stjórn Skógræktarfélags Íslands Sigurð Blöndal, skógarvörð á Hallormsstað, og Þórarin Þórarinsson, formann Skógræktarfélags Austurlands, á sinn fund til að ræða hugsanlega Fljótsdalsáætlun. Um vorið kannaði Sigurður undirtektir bænda í Fljótsdal við skipulagðri skógrækt og á Atlavíkursamkomu Skógræktarfélags Austurlands sumarið 1965 kynnti Einar G.E. Sæmundsen, gjaldkeri Skógræktarfélags Íslands, hugmyndina um að á 25 árum yrðu 1500 hektarar í Fljótsdalshreppi teknir undir skógrækt.

Fjárveiting til girðingarframkvæmda fékkst ekki fyrr en á fjárlögum 1969. Í apríl það ár fengu allir bændur í Fljótsdal bréf um skóggræðslu með búskap samkvæmt Fljótsdalsáætlun, undirritað af skógræktarstjóra og formönnum Skógræktarfélags Íslands og Austurlands, þar sem boðað var til fundar í maí. Á þann fund, sem haldinn var í Végarði, var vel mætt. Í júlí fóru Baldur Þorsteinsson og Sigurður Blöndal í heimsókn til þeirra bænda sem voru reiðubúnir að taka þátt í verkefninu til að skoða fyrirhuguð skógræktarlönd. Í kjölfar þess var ákveðið að hefja girðingarframkvæmdir í landi Víðivalla ytri þá um haustið. Girðingunni var lokað sama dag og gróðursetning hófst, 25. júní 1970.

Nytjaskógrækt hluti af auðlindum landsins

Samningar Fljótsdalsáætlunar kváðu á um að Skógrækt ríkisins greiddi allan stofnkostnað, þ.e. girðingar, plöntur og gróðursetningu. Bændur legðu hins vegar til landið, héldu við girðingum og hefðu forgangsrétt að vinnu við skógræktina. Skógræktin átti að fá 10% af brúttóverðmæti afurða skógarins þegar farið yrði að nýta hann.

Fljótsdalsáætlun var hluti af fjárlagalið Skógræktarinnar frá 1969 til 1989. Framkvæmdir urðu minni en upphaflega var gert ráð fyrir en verkefnið teygði sig fljótlega út fyrir hreppamörk Fljótsdals. Þær jarðir sem tóku þátt í Fljótsdalsáætluninni voru: Víðivellir ytri I og II, Brekka, Geitagerði, Hjarðarból, Víðivallagerði, Vallholt, Skriðuklaustur, Melar og Droplaugarstaðir auk fjögurra jarða í Vallahreppi: Gunnlaugsstaða, Mjóaness, Strandar og Vallaness.

Tíu árum eftir að fyrstu trén voru gróðursett á Víðivöllum var farinn að sjást árangur og á Hallormsstað var hægt að sýna fólki hvernig þessir skógarlundir yrðu í framtíðinni. Tiltrú manna á nytjaskógrækt jókst jafnt og þétt og í landgræðslu- og landverndaráætlun 1982–1986 var gert ráð fyrir fjármagni í héraðsskógræktaráætlanir. Nýjum kafla var bætt inn í skógræktarlögin árið 1984 um nytjaskóga á bújörðum. Þar með var heimilað að ríkið greiddi allt að 80% af stofnkostnaði við slíka skógrækta að uppfylltum vissum skilyrðum. Í skýrslunni Auðlindir um aldamót, sem tekin var saman af hópi sem forsætisráðherra skipaði árið 1986, fékk skógrækt sérkafla og þar kemur fram að nytjaskógrækt sé raunhæfur kostur og geti „haft mikilvæg þjóðhagsleg áhrif og farið vel saman við önnur landnot, m.a. útivist, sumarbyggð og ýmsar greinar landbúnaðar“.

Fljótsdalsáætlun fullkomnuð með Héraðsskógum

Vaxandi áhugi var á Héraði fyrir aukinni skógrækt, ekki síst samhliða samdrætti í sauðfjárrækt og niðurskurði vegna riðuveiki. Vorið 1989 samþykkti Alþingi þingsályktun þingmanna Austurlands um að landbúnaðarráðherra yrði falið að láta semja 10 ára áætlun um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði. Tæpu ári síðar var skipuð verkefnisstjórn til að vinna að framgangi þingsályktunarinnar og 27. maí 1989 samþykkti ríkisstjórn Íslands „að klæða skyldi skógi allt nýtanlegt skógræktarland á Fljótsdalshéraði á næstu 40 árum“. Haldnir voru fundir með íbúum í Eiðahreppi, Egilsstaðahreppi, Vallahreppi, Skriðdalshreppi, Fljótsdalshreppi og Fellahreppi til að kanna hug bænda. Viðtökur voru jákvæðar og þeir sem höfðu tekið þátt í Fljótsdalsáætlun vildu flestir ganga beint inn í nýtt verkefni. Um haustið var kynnt greinargerð um Héraðsskóga á Fljótsdalshéraði og unnin fjárhagsáætlun til tíu ára fyrir verkefnið. Fjárveitingar urðu hins vegar minni en vonir stóðu til og enn dró ríkisvaldið lappirnar. Árið 1990 var gerð 40 ára kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir 15.000 hektara undirlendis, samin drög að lögum um Héraðsskóga og samningum við bændur. Þá lá fyrir að allt að 90 landeigendur væru reiðubúnir til þátttöku í verkefninu. Lög um Héraðsskóga voru að lokum samþykkt 11. mars 1991 frá Alþingi. Þar með var burðugt afkvæmi Fljótsdalsáætlunar fætt og næsta áratuginn urðu til landshlutabundin skógræktarverkefni víðar um land. Með skipulags- og lagabreytingum árið 2016 voru þessi verkefni öll felld undir nýja stofnun, Skógræktina.

Tvöföldun skóglendis á 60 árum

Á 6. áratugnum dreymdi frumherjana íslensku um að hægt yrði að fullnægja 80% af viðarþörf Íslendinga með ræktun barrskóga. Íslenskur viður vegur enn lítið á móti innflutningi en skógarnir hafa stækkað og nytjar eru að aukast. Íslenskur iðnviður, sem er nýttur t.d. við framleiðslu kísilmálms, hefur á síðustu árum verið á pari við innfluttan. En skógar landsins eiga enn langt í land með að anna eftirspurn eftir söguðum trjáviði. Árangurinn er samt sýnilegur. Fyrir 60 árum var skógarþekja landsins innan við 1%. Nú ná náttúrulegir birkiskógar yfir um 1,5% af flatarmáli Íslands, eða 155 þús. hektara. Ræktaður skógur er á um 43 þús. hekturum þannig að skógar Íslands þekja samtals um 2% landsins, eða tæp 4% láglendis.

Í dag er opinber stefna um að byggja upp skógarauðlind og nota til þess a.m.k. 5% af láglendi landsins til að efla byggð í sveitum og auka timburframleiðslu. Gera má ráð fyrir að skógrækt vaxi einnig fiskur um hrygg á næstu árum vegna kolefnisbindingar til að vinna gegn loftslagsbreytingum og skógarbændur geta tekið þátt í því átaki. Á Héraði er skógarþekja láglendis komin í um 20% og viðarmagn nytjaskóganna eykst ár frá ári. Áætlað er að standandi viðarmagn bændaskóga á Héraði verði orðið um 292 þús. rúmmetrar árið 2024. Það þýðir að æ stærra hlutfall þess skógar sem er fellt verður að verðmætum timburafurðum eins og borðviði sem leiðir þá til minni innflutnings á þeirri vöru.

Hálf öld er skammur tími í lífi skógar

Mjór er mikils vísir og lerkiplönturnar átta þúsund sem plantað var fyrir hálfri öld á Víðivöllum ytri í Fljótsdal eru orðnar að gildum trjám sem er flett í borðvið. Það er við hæfi að á sama bæ hefur verið byggt upp fyrirtæki sem sérhæfir sig í að vinna skógarafurðir. Fljótsdalsáætlun hefur þannig sannað gildi sitt og sýnt fram á að skógrækt sem búgrein er raunhæfur kostur á Íslandi líkt og í Norður-Noregi.

En hálf öld er skammur tími í lífi skógar og kynslóðin sem gróðursetur lifir sjaldnast að sjá afrakstur erfiðisins. Þeir víðsýnu bændur sem árið 1970 lögðu lönd undir fjarlæga draumsýn um nytjaskóga hafa kvatt en yngri kynslóðir tekið við þessari náttúruauðlind nýrra tíma. Að líkindum verður það þriðja kynslóðin sem nýtur mestu ávaxtanna þegar haldið verður upp á aldarafmæli bændaskógræktar eftir önnur fimmtíu ár. Þá verða „skínandi fagrir skógar, skreytandi hlíð og fjöll“ eins og Hákon Aðalsteinsson heitinn, skógarbóndi á Húsum í Fljótsdal, komst að orði í kvæði sínu um framtíðarsýn skógarbóndans. Það er við hæfi að ljúka greininni á síðasta erindi þess kvæðis.

Þýtur í bjarkarblöðum
blærinn um sumardag.
Hljómar í hjörtum glöðum
heillandi sálmalag.
Framtíðarsýn ég sé.
Læt ég um landið óma
lúðursins fögru hljóma
engill í eigin tré.

Skúli Björn Gunnarsson
Félag skógarbænda á Austurlandi

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson