Helsta markmiðið með landsáætlun í skógrækt er að taka stefnu og fyrirætlan Íslendinga í skógrækt saman á einn stað. Um leið verður tækifærið notað til að endurskoða áherslur, uppfæra upplýsingar og efna til samráðs. Í landsáætlun verður því fjallað um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt.

Blandaður íslenskur skógur með lerki, alaskaösp, stafafuru, greni og birki. Ljósmynd: Pétur HalldórssonDrög að landsáætlun voru lögð fram til kynningar og umsagnar á vef Skógræktarinnar vorið 2021 ásamt umhverfismati áætlunarinnar. Umsagnarfrestur er liðinn og hefur texti áætlunarinnar verið endurskoðaður með tilliti til umsagna sem bárust. Áætlunin er nú til meðferðar hjá ráðuneytinu og gert er ráð fyrir að ráðherra leggi það fyrir Alþingi til samþykktar.

 

Drög að landsáætlun

 Innsendar  umsagnir 

 

Landsáætlun í skógrækt (hér eftir skammstafað LSK2020) er unnin skv. 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Áætlunin skoðast sem ferli sem er sífellt að þróast frekar en verkefni með upphaf og endi. Í ferlinu skiptast á tímabil með misjöfnum áherslum. Ferlið hefst á lýsingu, stöðugreiningu, stefnumótun og áætlanagerð. Stefnan og áætlun um framkvæmd hennar er síðan samþykkt með formlegum hætti af umhverfis- og auðlindaráðherra. Síðan tekur við framkvæmd áætlunarinnar og jafnframt árangursmat. Eftir fimm ár hefst svo ferlið á ný með stöðugreiningu.

LSK2020 er háð lögum um umhverfismat áætlana og matið því samþætt mótun stefnunnar. Verður þar fylgt leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og náið samráð haft við þá stofnun.

Verkefnisstjórn

Í samræmi við ofangreind lög skipaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verkefnisstjórn landsáætlunar í skógrækt með erindisbréfi dags. 28. júní 2019. Ber verkefnisstjórnin ábyrgð á gerð áætlunarinnar og nýtur við það stuðnings frá sérfræðingum og öðru starfsfólki Skógræktarinnar. Samkvæmt lögum nr. 33/2019 er skógræktarstjóri formaður nefndarinnar og einn fulltrúi er tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Aðrir fulltrúar í verkefnisstjórn eru skipaðir af ráðherra án tilnefningar en tveir þeirra skulu vera faglærðir í skógrækt. Verkefnisstjórnin vinnur í umboði ráðherra og skilar tillögum að landsáætlun í skógrækt til hans. Ráðherra kynnir áætlunina fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Áætlunin öðlast síðan gildi með samþykki ráðherra.

Verkefnisstjórn er þannig skipuð:

 • Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, formaður
 • Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor
 • Jón Ásgeir Jónsson skógfræðingur
 • Maríanna Jóhannsdóttir skógarbóndi
 • Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur
 • Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur
 • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur, tilnefnd af SÍS

Ritari verkefnisstjórnar er Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.

Lýsing

Landsáætlun í skógrækt er ferli eins og hér er sýnt. Það sem hér er til umfjöllunar, LSK2020, felur í sér stöðugreiningu, stefnumótun og áætlanagerð. Þeirri vinnu lýkur með samþykkt ráðherra. Mynd: SkógræktinVið upphaf vinnu að gerð landsáætlunar í skógrækt skal skv. lögunum, taka saman lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð LSK2020, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun stefnunnar. Um LSK2020 gilda einnig lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana sem fyrr segir. Slíkt mat ber að vinna fyrir áætlanir sem undirbúnar og samþykktar eru af stjórnvöldum, unnar samkvæmt lögum og marka stefnu fyrir framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda nr. 106/2000. Fyrsta skref í ferli umhverfismats er gerð matslýsingar, þar sem fram kemur: Yfirlit um efni áætlunar; tengsl við aðrar áætlanir; upplýsingar um grunnástand; umhverfisþætti; þætti sem taldir eru valda áhrifum; viðmið og umhverfisverndarmarkmið og að lokum umfjöllun um matsferlið og samráðsaðila.

Lýsingum sem setja skal fram við upphaf vinnu við LSK2020 og við gerð umhverfismats þeirrar áætlunar ber því að nokkru leyti saman og eru settar fram í skjali sem heitir LSK2020 - Lýsing fyrir gerð landsáætlunar í skógrækt.

 

Framkvæmd og eftirfylgni

Eftir útgáfu LSK2020 verður hafist handa við að framfylgja henni. Skógræktarstjóri ber ábyrgð á því. Eftirfylgni og upplýsingaöflun um framgang mála verður á hendi Skógræktarinnar og mun hún taka breytingum miðað við núverandi stöðu eftir því sem ákveðið verður í LSK2020. Þá verður einnig innleidd eftirfylgni með umhverfisáhrifum áætlunarinnar eftir því sem við á. Vísar sem notaðir verða til að greina árangur landsáætlunarinnar eru eftirfarandi:

 • Flatarmál ræktaðra skóga – vísar til árangurs í uppbyggingu skógarauðlindar
 • Flatarmál náttúruskóga – vísar til árangurs í útbreiðslu náttúruskóga
 • Flatarmál skóglendis á rofsvæðum – vísar til árangurs við að nota skógrækt til uppgræðslu
 • Flatarmál varanlegrar skógareyðingar – vísar til árangurs í skógvernd
 • Kolefnisbinding í skógum – vísar til árangurs í að ná markmiðum í loftslagsmálum
 • Hlutfall ræktaðra skóga undir ræktunaráætlunum – vísar til árangurs í skipulagningu skógræktar

Upplýsingar sem þannig verða til nýtast svo við endurskoðun áætlunarinnar sem á sér stað eigi seinna en árið 2025.

Birki. Ljósmynd: Pétur Halldórsson