Skyldur og skipulag

Skógræktin vinnur samkvæmt lögum nr 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum.

Öllum starfsmönnum ber skylda til að kynna sér og þekkja ábyrgð sína, þær ráðstafanir sem gera þarf til að tryggja öryggi í starfi og leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang öryggismála innan stofnunarinnar.

Yfirumsjón öryggis- og vinnuverndarmála er í höndum mannauðsstjóra en skógræktarstjóri ber endanlega ábyrgð á öryggismálum starfsmanna.

Öryggis- og heilsuáætlun

Markmið öryggis- og heilsuáætlunar Skógræktarinnar er að auka öryggi starfsmanna og tryggja það að þeir geti unnið í öruggu og heilsusamlegu umhverfi. Í áætluninni er öryggis- og heilsustefnu stofnunarinnar lýst með ráðleggingum um heilsueflingu, hollt mataræði og heilbrigða hreyfingu, slysavarnir og vinnuvistfræðilega þætti. Almennum öryggisreglum er lýst og jafnframt öryggisreglum vegna skógarhöggs og meðferðar keðjusaga. Í skjalinu eru viðbragðsáætlanir vegna slysa á fólki, skógarelda og eldasvoða á vinnustað en einnig leiðbeiningar um hvernig tilkynna beri um vinnuslys og önnur óhöpp eða skrá minni háttar atvik. Farið er yfir áhættumat og starfsumhverfi og fjallað um hlutverk öryggisnefndar Skógræktarinnar. Loks er að finna í skjalinu ráðleggingar um líkamsbeitingu og mögulegar hættur í vinnuumhverfi starfsfólks.

Áætlanir um viðbrögð

Viðbragðsáætlanir þær sem hér er að finna að neðan eru ætlaðar til þess að tryggja öryggi starfsmanna, gesta og almennings. Ætlast er til að starfsfólk kynni sér viðbragðsáætlanir og geti brugðist rétt við ef hættuástand verður.