Lat: Larix

Lerki (fræðiheiti: Larix), áður kallað lævirkjatré eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt (Pinaceae) og ættbálkinum Pinales.

Meira um

Dáríulerki (Larix gmelinii) er mjög ráðandi í barrskógum  í austanverðri Síberíu, myndar þar víðáttumestu skóga heims og er þar með ein algengasta trjátegund jarðar. Annars staðar eru lerkitegundir yfirleitt þáttur í skógum þar sem greni eða furutegundir ríkja.

Engin lerkitegund er ættuð úr mjög hafrænu loftslagi og því skortir nokkuð á að þær séu aðlagaðar íslensku veðurfari. Hins vegar virðast þær kunna mjög vel við íslenska eldfjallajarðveginn og vaxa því betur í rýru landi en aðrar ættkvíslir trjáa. Síberíulerki (Larix sibirica) hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki (Larix sukaczewii), náskylt síberíulerki eða afbrigði af sömu tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku loftslagi og sjúkdómum. Rússalerki er nú eitt algengasta skógræktartré á Íslandi og hefur náð yfir 23 metra hæð. Evrópulerki (Larix decidua) hefur einnig verið notað á Íslandi. Tré af þeirri tegund gróðursett snemma á 20 öld hafa tvisvar verið útnefnd tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands.

Elstu lerkitré sem vitað er um á Íslandi eru í Mörkinni Hallormsstað, sáð um 1904. Einnig eru um aldargömul tré í Skrúði Dýrafirði, Vaglaskógi, Grundarreit Eyjafirði og á Akureyri. Evrópulerki verður oft kræklótt og bugðótt hér á landi og með stóra krónu. Þannig getur það orðið svipmikið garðtré. Blendingur af evrópulerki og rússalerki hefur verið þróaður hjá Skógræktinni og kallast 'Hrymur'. Um 10 til 14 tegundir eru í ættkvíslinni eftir því hvernig á er litið (Wikipedia)