Grillað í grenndarskóginumGrenndarskógur er ungur eða eldri skógur í göngufæri frá skólanum og er notaður í skipulegu útinámi sem tengist skólanámskrá og aðalnámskrá grunnskóla. Honum er ætlað að auka fjölbreytni í skólastarfi og styðja við markmið um einstaklingsmiðað nám. Skógurinn getur líka verið vettvangur ýmiss konar viðburða sem tengjast skólastarfinu.

Einkenni grenndarskóga

Samningur um grenndarskóg

Samningur um grenndarskóg gefur skóla formlegri aðgang að tilteknu skógarsvæði og ákveðið rými til að taka ákvarðanir um nýtingu hans og tengingu við allar námsgreinar og skólastig. Í samningnum eru að jafnaði ákvæði um hvers konar mál þarf að leita samþykkis landeigenda með en það geta verið atriði er varðar uppbyggingu á aðstöðu og aðgerðir sem tengjast fellingu trjáa, svo dæmi séu tekin.

Skólarnir hafa notað grenndarskógana með mismunandi hætti en njóta fræðslu og ráðgjafar frá Lesið í skóginn. Þróun útinámsins einkennist af nokkurs konar grasrótarstarfi einstakra starfsmanna skólanna sem mestan áhuga hafa á skógartengdu útinámi.

Börn í Þjórsárskóla við störf í grenndarskógi sínumGrenndarskógur í skólastarfi

Tugir grunn- og leikskóla á landinu hafa fengið aðgang að grenndarskógi í formlegu samstarfi við Lesið í skóginn.Margir aðrir skólar vítt og breitt um landið nota þjóðskógana, skóga skógræktarfélaga og fleiri skóga án þess að vera í formlegu samstarfi.

Frá upphafi hefur verið unnið með það að markmiði að tengja allar námsgreinar grunnskólans við nám í grenndarskóginum í samþættu útinámi. Útinám er í eðli sínu þverfaglegt vegna þess að erfitt er að skoða einn afmarkaðan þátt án þess að kynna sér annan. Að því leiðir að samstarf skóla og skógaraðila o.fl. er mikilvægt til að ná góðum árangri í notkun grenndarskógarins.

Samkvæmt ströngustu skilgreiningu um útinám er skóli ekki að fylgja henni nema að námið fari reglubundið fram utandyra og það hafi skýr markmið. Það komi í stað hefbundins innináms og sé skipulega undirbúið, framkvæmt úti og jafnvel unnið áfram þegar inn er komið.

Grenndarskógur verður að vera í göngufæri frá skólanum svo hann geti talist grenndarskógur. Það þarf að vera hægt að ganga í hann innan marka tveggja kennslustunda og dvelja þar um stund við nám og leik. Gerður er samningur á milli skólans og landeigendans um afnotin og við Lesið í skóginn um aðstoð við innsetningu á útináminu með fræðslu fyrir starfsfólk í grenndarskóginum. Með samningnum getur skóli leitað eftir ráðgjöf og leiðbeiningum hvenær sem er. Skólafólk leitar oftast eftir aðstoð vegna nýtingar á skóginum, verkefna fyrir nemendur og ráðgjöf varðandi uppbyggingu á aðstöðu til útikennslunnar. Fyrir suma kennara getur það reynst erfitt að vera með nemendur í grenndarskógi án þess að hafa aðstöðu s.s. skýli, borð og bekki en fyrir aðra skiptir það minna máli. Flesir eru þó sammála um að það sé gott og nauðsynlegt að hafa  góða aðstöðu til útinámsins.  Það sé fyrst og fremst spurning um hvernig hún er gerð og að það sé fólk úr skólanum og nærumhverfinu sem byggir hana upp.

Nám í grenndarskógi

Grenndarskógurinn ýtir undir útivist, hreyfingu og fjölbreytt skólastarf. Eftir því sem útinámið er tengt við fleiri námsgreinar er líklegra að fleiri nemendur nái að mynda tengsl við umhverfi sitt  og nýta dvölina þar í eigin þágu og þroskast í gegnum viðfangsefnin. Ef markmið um einstaklingsmiðað nám eru höfð í huga á hver nemandi að fá viðfangsefni við hæfi og þá skiptir fjölbreytni í verkefnavali miklu máli, auk þess sem hraðinn sem unnið er á verður að henta þroska og getustigi einstaklingsins. Markmiðið með fjölbreyttu skólastarfi er m.a. að skapa virðingu á milli ólíkra nemenda. Þannig skapast virðing sem hefur áhrif á sjálfímynd og samskipti nemenda.

Útinám í grenndarskógi skiptir miklu máli í þessu uppeldishlutverki skólanna. Einkum vegna þess að skógur býður upp á fjölbreytilegar aðstæður eftir árstíðum, skógargerðum og því hvernig  unnið er með einstakar námsgreinar og samþættingu þeirra í útináminu.

Þá má ekki gleyma samfélags- og skógaruppeldislegum þáttum útinámsins. Það skiptir máli að skógarfræðslan nái yfir mikilvægi skógarins fyrir náttúru, mannlíf,  menningu og efnahag. Börn alist upp við það að njóta skógarins, læri að umgangast hann sem auðlind og skilja hvers virði hann er vistfræðilega fyrir sjálfbærni í samtímanum. Það getum við kallað skógaruppeldi.

Í skógaruppeldislegu tilliti er mikilvægt að stíga ný skref  með áherslu á almennar skógarnytjar svo að umgengni við skóg verði eðlilegur þáttur í daglegu lífi fólks. Þar skiptir æskan mestu máli. Skógræktaraðilar þyrftu að sameinast um átak í þessum efnum. Það þýðir í raun að komast af ræktunarstiginu yfir á umhirðu og nytjastig skógræktar.

Útivist í skógi er ört vaxandi þáttur í lífsgæðum fólks. Gróðursetning með börnum ætti að fara fram sem næst þeirra heimili þannig að þau geti fylgst með framgangi plantnanna frá ári til árs. Gróðursetningar hafa færst inn í grenndarskógana í auknum mæli í seinni tíð með þátttöku nemenda, starfsfólks og foreldra. Gróðursettar eru gjarnan tegundir sem ekki eru fyrir í skóginum til að auka tegundafjölbreytni og vistfræðilegt fræðslugildi skógarins t.d. með því að planta einni plöntu fyrir hvern árgang, sem fylgist síðan með henni frá ári til árs.

Grenndarskógur er hverfisskógur og nýtist öllum, ekki aðeins skólafólkinuGrenndarskógur er hverfisskógur

Í öllum tilfellum eru grenndarskógarnir opnir almenningi og íbúum hverfisins til afnota. Gert er ráð fyrir þvi að með tímanum verði þeir nokkurs konar hverfisskógar í borgum og bæjum þar sem þannig háttar til. Þar komi fólk saman á góðviðrisdögum og njóti útivistar í fögru umhverfi og í skjóli frá hávaða, vindi og ýmiss konar áreiti.

Lesið í skóginn stuðlar að samstarfi innan hverfa og í grenndarsamfélagi til að skógarnytjarnar hafi sem víðtækust áhrif og vonandi árangursríkust til framtíðar. Foreldrafélög skólanna, klúbbar ýmiss konar og aðrir hafa komið að vinnu í grenndarskógunum, t.d. við stígagerð, umhirðu og við uppbyggingu á aðstöðu. Auk þess hafa börn í vinnuskólum tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum að sumarlagi og tengjast þá grenndarskóginum með nýjum hætti. Þar sem skógurinn er í fullum skrúða á þeim árstíma verða þau að deila honum, m.a. með skordýrum og fuglum.

Nytjaáætlanir fyrir grenndarskóga

Til að grenndarskógarnir nýtist sem best í skólastarfi er mikilvægt að gerðar séu nytjaáætlanir fyrir hvern grenndarskóg. Í því felst að:

  • Kortleggja skóginn og færa inn upplýsingar um ástand trjágróðurs, svo sem magn, hæð, aldur, þéttleika og sverleika hærri trjáa, lýsa landslagi og jarðgerðum.
  • Taka mið af aðstæðum á hverjum stað því þær eru afar misjafnar. Sums staðar eru viðkvæm vistsvæði, svo sem vegna fuglalífs, veiðivatna og áa. 
  • Skrá ræktunarsögu skógarins, minjar og meta friðunargildi einstakra svæða.
  • Gera áætlun sem auðveldar nýtingu á grenndarskóginum í skólastarfi og dreifir álaginu í skóginum.
  • Skilgreina svæði sem hægt er að ganga í og sækja efni til daglegra nota og koma upp efnisbanka  í grenndarskógi eða á skólalóð.
  • Huga að sjónrænum þáttum, t.d. með því að bjarga einstaka trjám, klippa frá trjám, bæta inn tegundum til að auka sjónræna fjölbreytni og upplifunargildi en einnig auka almennt fræðslugildi skógarins. 
  • Skrá þá aðstöðu sem fyrir er og gera áætlun um frekari uppbyggingu, hvar hún verði og hvernig hún verði aðlöguð umhverfinu á sem bestan hátt. Gera verður greinarmun á skemmtigarði og skógi sem ætlaður er fyrir skólastarf.

Það mun fela í sér verulegan vinnusparnað og hagkvæmni í framtíðinni að gera þessar áætlanir sem fyrst svo auðveldara og markivissara verði að sinna umhirðu svæðanna og nýta þau í skólastarfi og grenndarvinnu.

Eitt þurfa allir að hafa í huga sem nýta grenndarskóg í skólastarfi. Ávallt þarf að leyfa skóginum og lífríki hans að njóta sín til fulls.

Hlekkir

Hér má finna nokkra vefi hjá nágrannaþjóðum okkar sem nýta má í skólastarfi. Norðurlöndin hafa um árabil haft samráð og fundað um einstaka þætti í skógartengdu útinámi, miðlað hugmyndum og reynslu á fundum og ráðstefnum. Þangað hefur Lesið í skóginn sótt hugmyndir og stuðning í gegnum tíðina.