Vísindaleg og reglubundin söfnun upplýsinga um skóga og skógrækt á Íslandi. Vöktunarverkefni

ÍSÚ er verkefnahópur sem hefur það að meginmarkmiði að safna saman á vísindalegan hátt upplýsingum um skóga og skógrækt á Íslandi. Úr upplýsingunum sem verkefnahópurinn safnar eru unnin gögn í:

  • árlega skýrslu Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og fleiri skýrslur tengda kolefnisbókhaldi skóga og skógræktar.
  • skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um ástand skóga heimsins sem kemur út á 5 ára fresti, Global Forest Resources Assessments. Síðasta skýrslan, FRA 2015, kom út árið 2015. Á þessu ári (2019) verður unnið við næstu 5 ára skýrslu, FRA 2020. 
  • skýrslu skógræktarmálaráðherra Evrópulanda um stöðu skóga í Evrópu sem gefin er út á 5 ára fresti. Síðasta skýrsla kom líka út 2015, State of Europe’s Forests 2015 Report.
  • erlendar og innlendar skýrslur og greinar fyrir stjórnvöld og almenning.

Meginverkefni ÍSÚ eru:

Gagnagrunnur um skóga á Íslandi

Safnað er saman árlega í landfræðilegan gagnagrunn upplýsingum um staðsetningu og afmörkun nýskógræktar á vegum opinberra stofnana og verkefna ásamt kortlagningu eldri skógræktar. Þessi grunnur er m.a. nýttur til að leggja út mælifleti í Landskógarúttekt (sjá hér á neðan). Vefsjá um skóglendi á Íslandi, bæði ræktaða skóga og náttúrulegt birki, má nálgast á vef Skógræktarinnar. Þar má einnig nálgast landupplýsingagögn um skóglendi á Íslandi.

  • 2016: Haldið var áfram vinnu við gagnasöfnun og samræmingu ásamt gerð fitjuskrár um landfræðileg skógargögn.
  • 2017: Áframhaldandi vinna við gagnasöfnun og samræmingu.
  • 2018: Vinna hófst við endurkortlagningu ræktaðs skóglendis á Íslandi. Árleg gagnasöfnun með hefðbundnum hætti.

Landsskógaúttekt

Í Landsskógaúttekt eru lagðir út mælifletir í skógum landsins á tilviljunarkenndan hátt. Hver reitur er heimsóttur á 5 ára fresti og framkvæmdar skógmælingar, mælingar á botngróðri og fleiri athuganir. Þannig er hægt að fylgjast með framþróun skógræktar, þar með talið kolefnisbindingu skóganna.

  • 2017: Haldið var áfram að mæla árlegan fjölda mæliflata í skógum landsins. Mælifletir í ræktuðum skógum voru flestir mældir þriðja sinn en í annað sinn í birkiskógum og – kjarri.
  • 2018: Haldið var áfram að mæla árlegan fjölda mæliflata í skógum landsins. Mælifletir í ræktuðum skógum voru flestir mældir þriðja sinn. Ný gögn úr mælingunum verða sett inn í útreikninga um skóga og skógrækt í kolefnisbókhald Íslands sem nú er skilað inn þann 15. janúar á hverju ári.

Úttektir á náttúrulegu birki á Íslandi

Verkefnið er mikilvægur hluti af því að vakta vernd og endurheimt birkiskóga á Íslandi auk þess að vera nauðsynleg upplýsingaöflun vegna kolefnisbókhalds skóga á Íslandi.

  • 2018: Haldið var áfram að mæla árlegan fjölda mæliflata í birkiskógum og -kjarri landsins og voru þeir mældir í annað sinn.  Gögn úr mælingunum verða sett inn í útreikninga um skóga og skógrækt í kolefnisbókhald Íslands sem nú er skilað inn þann 15. janúar á hverju ári.

Úrvinnsla jarðvegs- og gróðursýna úr Landsskógarúttekt

Safnað hefur verið miklu magni af jarðvegs- og gróðursýnum í landsskógarúttektum síðustu ára sem enn á eftir að vinna úr og meta kolefnisforða í jarðvegi og gróðri. Til þess þarf fjármagn, einkum til þess að ráða aðstoðarfólk til þess að vinna úr og greina sýni.

Rannsóknarsvið

Skógur og loftslagsbreytingar

Tengiliður Skógræktarinnar

Arnór Snorrason

Starfsmenn Skógræktarinnar

Arnór Snorrason

Bjarki Þór Kjartansson

Björn Traustason

Ólafur Stefán Arnarsson