Grænþvottur

Spurt er: Er kolefnisbindingarverkefni fyrirtækja ekki bara grænþvottur?

Nei. Í stöðlum eða gæðakerfum á borð við Skógarkolefni er gerð krafa um að eigendur verkefna marki sér stefnu um að draga eftir mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda áður en markmið eru sett um bindingu. Sú binding sem ráðist er í á eingöngu að mæta þeirri losun sem viðkomandi getur ekki stöðvað nú þegar. Ekki er í boði að halda óbreyttri losun og grænþvo hana með bind­ingar­verkefnum. Áfram á að vinna að því að draga úr losun og bindingarverkefni mega ekki verða til þess að stöðva áætlanir um samdrátt losunar.

Nánar: skogarkolefni.is

Styrkir til kolefnisverkefna

Spurt er: Þiggja fyrirtæki styrki til kolefnisverkefna?

Nei. Lögaðilar sem ráðast í vottuð kolefnisbindingarverkefni greiða sjálf allan kostnað við verkefnin.

Uppkaup á jörðum

Spurt er: Er það ekki áfall fyrir byggðir landsins þegar aðilar úr öðrum landshluta eða utan úr heimi kaupa upp jarðir, hætta þar hefðbundnum búskap og ráðast í skógrækt til kolefnisbindingar?

Nei, ekki endilega. Vissulega eru dæmi þess að byggð haldist ekki áfram á jörðum sem keyptar eru til skógræktarverkefna. Oftar er það þó svo að húsakosti á jörðunum er haldið við og hann nýttur með einhverjum hætti. Oft þýðir þetta að jarðir sem ella hefðu farið í eyði og grotnað niður öðlast nú nýtt hlutverk, húsum er haldið við og jarðirnar verða áfram vænlegar til dvalar eða jafnvel búsetu, útleigu o.s.frv. Skógræktar­verk­efni skapa verktökum vinnu og tekjur í bráð og lengd og í framtíðinni verðmæti sem þarf að nýta. Umhirða og nýting skóganna verður mikilvæg uppspretta starfa og tekna í framtíðinni í sveitum landsins. Þannig treysta skógarnir búsetugrundvöll í sveitum landsins.

Ógn við matvælaframleiðslu

Spurt er: Dregur það ekki úr möguleikum til matvælaframleiðslu í framtíðinni að taka landbúnaðarland undir skógrækt?

Nei. Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að nytja- og kolefnisskógrækt er landbúnaður. Skógur gefur líka af sér matvæli í formi sveppa og berja til dæmis. Skógi er líka auðvelt að breyta í annars konar ræktarland. Land þar sem skógur hefur áður vaxið er til dæmis frjósamt til akur­yrkju. Auðvelt er að fjarlægja tré og rætur með öflugum tækjum sem þegar eru fyrir hendi. Því má segja að á meðan landið er ekki notað til annars landbúnaðar sé hægt að láta það gera gagn með því að binda kol­efni og búa til verðmæti. Í framtíðinni kann að henta að taka það til annarra nytja og þangað til gerir skógurinn ekkert nema gagn, byggir upp jarðveg og grósku, skapar verðmæti, bindur kolefni o.s.frv. Skjólið sem skógurinn myndar gefur líka aukin tækifæri til ræktunar og aukinnar uppskeru miðað við skjóllaust land.

Áhrif á heimafólk og heimabyggð

Spurt er: Verður það ekki bara aðkomufólk sem vinnur við skógræktina? Er nokkuð upp úr þessu að hafa fyrir heimafólk?

Þetta fer eftir ýmsu, meðal annars framtakssemi heimafólks. Landeigendum bjóðast myndarlegri styrkir til nýskógræktar á Íslandi en þekkist í öðrum löndum og slík verkefni geta stutt við annan landbúnað á viðkomandi jörð, veitir annarri ræktun skjól og aukna grósku, gefur ábúendum færi á launum við skógræktarverkefnin, eykur verðmæti jarðanna og gefur í framtíðinni tekjur af afurðum svo eitthvað sé nefnt.

Nokkuð er nú um að utanaðkomandi aðilar, jafnvel erlendir, fjármagni skógrækt á íslenskum bújörðum. Hvaða áhrif hefur það á heimafólk og heimabyggð? Eftir því sem fleiri skógræktar­jarðir eru í tilteknu héraði eflast líka tækifæri heimafólks til að hafa tekjur af greininni. Þegar umsvifin aukast er líklegra að verktakar geti komið sér upp tækjum sem nauðsynleg eru í skógrækt og við skógarnytjar. Alltaf er þörf á einhverjum tækjabúnaði og kunnáttu sem ekki er síst að finna hjá bændum. Girðingavinna, jarðvinnsla, flutningar á aðföngum, gisting og matur fyrir vinnufólk og fleira stuðlar að umsvifum í viðkomandi héraði. Ungir skógar verða fljótt eftirsóttir til útivistar og það styður við ferðaþjónustu. Smám saman vex upp skógur sem þarf að grisja og á endanum verður til nytjaskógur sem gefur verðmætt timbur. Eftir því sem fleiri slíkir skógar eru á tilteknu svæði, því líklegra verður að upp byggist með tímanum timburiðnaður og þar með störf, tekjur og sterkari byggð. Fleira mætti nefna. Í einhverjum tilfellum eru jarðir keyptar og í kjölfarið leggst þar af búseta. Slík dæmi eru þó undantekning og þvert á móti gerir skógræktin yfirleitt að verkum að staðirnir verða byggilegri í augum fólks og eftirsóttari til búsetu.

Innfluttar tegundir í íslenskan móa

Spurt er: Af hverju er verið að eyðileggja íslenska móa með íslenskum gróðri og setja þar í staðinn innfluttar trjátegundir? Er það ekki í andstöðu við markmið um náttúruvernd?

Nei. Skógrækt með innfluttum trjátegundum er stunduð á landbúnaðarlandi á láglendi. Þetta land er hvergi í upprunalegu ástandi. Íslendingar hafa nýtt þessi svæði í meira en 1100 ár og þar hefur gróðurfar gjörbreyst frá landnámi. Skógur og kjarr hefur horfið en eftir stendur beitar­landslag þar sem næringarefni hafa verið tekin hraðar úr vistkerfunum en þau hafa getað endurnýjast. Þetta eru því rýr svæði sem þarfnast eflingar. Ef þau væru friðuð og ekki ráðist í neinar aðgerðir myndu þau á komandi áratugum breytast hvort sem er. Þar myndi gras og blómgróður sækja á og allar líkur á því að landið myndi breytast í víði- og birkikjarr með tímanum. Með ræktun stórvaxnari tegunda fáum við mun meiri bindingu og mun verð­mætari afurðir úr skóginum í framtíðinni. Ekkert bendir til þess að skortur verði á móum og melum á Íslandi þrátt fyrir aukna skógrækt. Slík svæði eru að stækka með minnkandi beit og uppgræðslu landsvæða. Friðuð og vernduð svæði á Íslandi stækka ár frá ári og skógrækt á litlu broti láglendis er ekki í andstöðu við friðun og náttúruvernd.

Í umræðu um náttúruvernd er nauðsynlegt að líta til framtíðar, ekki síður en til fortíðar. Náttúruvernd getur ekki falist í því einu að vernda það sem er nú eða reyna að endurskapa það sem var áður. Slíkt er óraunhæft og boðar stöðnun eða gengur jafnvel gegn eðli náttúrunnar sem er síbreytileg. Horfa verður líka til framtíðar og huga að því að gera náttúrunni kleift að þróa hraust og heilbrigð vistkerfi á komandi tíð. Heilbrigð og gróskumikil vistkerfi þarf til að tryggja farsæla framtíð fyrir menn og náttúru.

Af hverju ekki bara birki?

Spurt er: Væri ekki eðlilegra að rækta birkiskóga enda birki innlend tegund sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám?

Nei, ekki endilega. Í fyrsta lagi er birki nú þegar mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi. Verulegt átak er í gangi til að breiða út birki, bæði með gróðursetningu, friðun og sjálfsáningu. Það verk gengur vel og nú stækkar birkiskóglendi hraðar en ræktaðir skógar hérlendis samkvæmt reglulegum mælingum Skógræktarinnar á skóglendi landsins. Birki vex nú á um 1,5% landsins en ræktaðir skógar á tæplega hálfu prósenti. En ef markmiðið er einkum kolefnisbinding eða uppbygging viðarauðlindar fyrir framtíðina eru aðrar tegundir en birki vænlegri til árangurs. Þær vaxa hraðar og gefa verðmætari afurðir í fyllingu tímans. Birki fylgir gjarnan með í nytjaskógræktarverkefnum og í kjölfar þeirra má gjarnan sjá mikla sjálfsáningu birkis, jafnvel þótt meginmarkmiðið hafi ekki verið að rækta birki. Það mikilvægasta til útbreiðslu á birkiskóglendi er að land sé friðað fyrir beit búpenings.

Nánar: Loftslagsávinningur norrænu skóganna

Skógur og fuglalíf, lóan og spóinn

Spurt er: Eru ræktaðir skógar ekki ógn við fuglategundir sem Íslendingar bera ábyrgð á?

Nei. Kjörlendi þessara tegunda eru mun stærri en stofnar þessara fugla þarfnast til viðgangs stofna þeirra. Langt er frá því að varpþéttleiki sé í hámarki á landinu. Aðrar ógnir og stærri steðja að þessum fuglum, meðal annars skotveiði í útlöndum og ágangur á búsvæði þessara tegunda þar. Með minnkandi beit á landinu og uppgræðslustarfi Landgræðslunnar, bænda og annarra stækkar kjörlendi þessara fugla mun hraðar en sem nemur því landi sem tekið er til skógræktar. Þá má einnig nefna að nýskógrækt fylgir mjög aukin gróska sem leiðir til þess að skordýralíf eykst að mun og þar með fæða fyrir þessar ábyrgðar­tegundir okkar. Lóur og spóar sjást gjarnan í ætisleit við skógarjaðra, einkum á vorin, enda er þar mikið líf og mikið að hafa. Votlendissvæði eru alltaf undanskilin í skógræktaráætlunum og á skógræktar­svæðum eru langoftast opin svæði inn á milli þar sem t.d. lóa og spói una sér vel og geta sótt í ríkulega grósku sem af skóginum hlýst. Því má jafn­vel rökstyðja að skógrækt stuðli að vexti og viðgangi umræddra fuglategunda, frekar en hitt. Þá má benda á að ræktun eða náttúrleg útbreiðsla birkiskóga á nýjum svæðum hefur sambærileg áhrif á fuglalíf og ræktun skóga með stórvaxnari trjátegundum.

Aukin umsvif mannsins í sveitum landsins með landbúnaði, vegagerð, annarri mannvirkjagerð, uppbyggingu frístundabyggða, stækkun þéttbýlis og fleiri slíkra þátta þrengir vissulega að búsvæðum fugla sem reiða sig á opin svæði. Þetta gildir vissulega einnig um skógrækt. Kvak lóu og vell spóa kann að minnka eða hljóðna sums staðar. Á móti þurfum við því að tryggja að áfram stækki og dafni kjörlendi þessara fugla hærra í landinu og uppi á hálendinu. Minnumst þess að tveir þriðju þess gróðurlendis sem var á Íslandi við landnám hefur annað hvort blásið upp og breyst í auðn eða er í óviðunandi ástandi, þar á meðal víðfeðm svæði á hálendinu sem væntanlega hafa verið aðalbúsvæði lóu og spóa við landnám þegar láglendi var meira og minna vaxið skóg- og kjarrlendi með birki í bland við víði og reynivið.

Jarðvinnsla

Spurt er: Á nýjum skógræktarsvæðum má iðulega sjá land sundurskorið eftir stórtækar jarðvinnsluvélar. Veldur þetta ekki stórfelldri losun kolefnis og varanlegu tjóni á landinu?

Nei. Reglubundnar vísindalegar mælingar sýna að sú losun sem hlýst af jarðvinnslunni er til­tölulega lítil og stöðvast alveg á fáeinum árum eftir að skógur er gróðursettur. Jarðvinnslan flýtir fyrir því að trén nái rótfestu og komist í góðan vöxt. Þar með er skógurinn fljótari að hefja kraftmikla bindingu. Sárin í sverðinum sem virðast stórkarlaleg í byrjun hverfa einnig á nokkrum árum. Jarðvinnsla sker í augu margra á nýjum skógræktarsvæðum en hún stuðlar bæði að betri skógi og meiri kolefnisbindingu auk þess sem hún sparar fjármuni og bætir nýtingu framleiddra skógarplantna.

Tölur úr rannsóknar­verk­efni sem unnið var á árunum 2003-2006, Iðufylgnimælingar á kolefnisjöfnuði ungs lerkiskógar á Austurlandi, sýndu að einungis ellefu árum eftir jarðvinnslu og gróðursetningu nam bindingin í vistkerfinu 7,2 tonnum CO2/ha á ári.[1] [2]

Önnur innlend iðufylgnirannsókn sýndi einnig jákvæðan kolefnisjöfnuð í sjö ára gömlum asparskógi á Suðurlandi. Þar reyndist bindingin í vistkerfinu vera 3,7 tonn CO2/ha á ári.[3] Þessar innlendu niðurstöður benda ekki til þess að eiginlegt kolefnistap verði nema allra fyrstu árin eftir jarðrask og gróðursetningu. Svo virðist vera sem losun vegna jarðvinnslu sé fljótt jöfnuð út með þeirri bindingu sem verður bæði í jarðvegi, botngróðri og trjám. Þegar land er tekið til skógræktar hérlendis felur það í flestum tilfellum í sér beitarfriðun sem þýðir að lífmassi botngróðurs, og þar með kolefnis­bind­ing hans, eykst fyrstu árin. Eftir því sem trén vaxa upp minnkar hlutdeild botngróðursins en kolefnis­binding trjánna eykst. Þessar niðurstöður eru í góðu samræmi við margar aðrar erlendar niður­stöð­ur.[4]

[1] Bjarnadóttir m.fl.,  Tellus (2007), 59B, 891-899
[2] Bjarnadóttir m.fl., Biogeosciences (2009), 6, 2895-2906
[3] Valentini m.fl.,  Nature (2000), 404 (6780): 861-5
[4] Hyvönen m.fl., New Phytol. (2007), 173, 463-480

Nánar:

 

Aðallega efnað fólk úr borginni

Spurt er: Eru ekki fæstir skógarbændur búsettir í öðrum landshlutum en þeim sem skógarjarðir­nar eru í? Eru þetta ekki mest vel stæðir höfuðborgarbúar sem grafa með þessu undan byggð í sveitunum og búa beinlínis til eyðijarðir?

Nei. Í Ársriti Skógræktarinnar 2020 eru teknar saman tölur um búsetu skógarbænda og í ljós kemur að þrír fjórðu hlutar skógarbænda eru búsettir á viðkomandi jörðum eða í sama hér­aði. Einnig sést að á einungis 30% skógarjarða er ekki stundaður annar búskapur. Á 70% skógarjarða er því stundað­ur hefðbundinn búskapur, ferðaþjónusta eða önnur atvinnu­starf­semi. Sáralítið er um að jarðir fari í eyði beinlínis vegna þess að þær séu teknar til skógrækt­ar. Þvert á móti bendir margt til þess að skógrækt styrki byggð í sveitum landsins og hamli gegn fólksfækkun þar.

Nánar: Hvar búa skógarbændur og starfa?