Í vettvangsferðinni sem fjallað er um í myndbandinu var sýndur árangurinn af mismunandi meðferðum, h…
Í vettvangsferðinni sem fjallað er um í myndbandinu var sýndur árangurinn af mismunandi meðferðum, hvort lúpínan var þétt eða gisin, áhrif af ræktun í svörtu plasti og einnig komu í ljós áhrif af því þegar lúpína kom af sjálfsdáðum inn á svæði þar sem hún hafði ekki verið áður. Skjámynd úr myndbandinu

Árangri tilrauna með ræktun þriggja trjátegunda á rýru landi við Keflavíkurflugvöll er lýst í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út. Niðurstaða tilraunanna er meðal annars sú að vel sé hægt að rækta tré á þessu svæði. Sú næringarefnahjálp sem lúpína veitir skipti sköpum en nú er lúpínan tekin að hörfa fyrir grasi og öðrum tegundum. Þar sem áður var hrjóstrugt og rýrt land er nú gróskumikið gróðurlendi með allt að sjö metra háum trjám.

Kennsluveturinn 2020-2021 var á dagskrá hjá Landbúnaðarháskóla Íslands námskeið með yfirskriftinni Skógvistfræði í skóglausu landi. Námskeiðið var blanda af fræðilegu námskeiði og verklegri þjálfun fyrir nemendur og starfandi skógfræðinga. Þar var ekki síst markmiðið að miðla þekkingu um fjölbreyttar aðferðir við nýskógrækt, meðal annars aðferðum sem ekki hefur mikið verið beitt hérlendis. Í umræddu námskeiði voru þátttakendum kynntar nýjustu rannsóknir á þessu sviði skógvistfræði, með áherslu á hvernig vistfræðilegir ferlar eins og sjálfsáning, framvinda, samhjálp og samkeppni eru nýtt við nýskógrækt. 

Kennslu hafði bandaríski vistfræðingurinn og prófessorinn Dennis Riege með höndum og liður í henni voru vettvangsferðir, meðal annars til að skoða tilraunirnar á Miðnesheiði. Hlynur Gauti Sigurðsson, myndatökumaður hjá Kviklandi, slóst í för með Dennis og nemendum hans ásamt Aðalsteini Sigurgeirssyni sem starfað hefur með Dennis að þessum tilraunum frá því þær hófust árið 2002. Dennis Riege hefur stundað rannsóknir á Íslandi æ síðan og m.a. notið myndarlegra styrkja frá National Geographic. Á Miðnesheiði var tekin til rannsóknar ræktun á þremur trjátegundum og áhrifum lúpínu á framvindu þeirra í rýru landi. Í vettvangsferðinni sem fjallað er um í myndbandinu var sýndur árangurinn af mismunandi meðferðum, hvort lúpínan var þétt eða gisin, áhrif af ræktun í svörtu plasti og einnig komu í ljós áhrif af því þegar lúpína kom af sjálfsdáðum inn á svæði þar sem hún hafði ekki verið áður.

Tilraunin á Miðnesheiði var upphaflega mæld og gerð upp árið 2009 og niðurstöður birtar í Scandinavian Journal of Forest Research.  Árið 2013 var hún aftur tekin út og mæld og í kjölfarið birtist grein um verkefnið í Skógræktarritinu. Dennis vinnur nú meðal annars að rannsóknum á skóggræðslu á auðn sem fram fer í Skarfanesi á landi og Skógræktin hefur einnig fjallað um í myndbandi.

Frétt: Pétur Halldórsson