Birkikvæmi víða að af landinu voru reynd í tilraun með birkiskógrækt við Keflavíkurflugvöll. Kvæmi a…
Birkikvæmi víða að af landinu voru reynd í tilraun með birkiskógrækt við Keflavíkurflugvöll. Kvæmi af nálægum svæðum reyndust ekki best. Mest lifði af kvæminu „Þórsmörk“. Mynd úr greininni í IAS
English version

Staðarkvæmi birkis þrifust verr en önnur sunnlensk kvæmi í fjórtán ára tilraun með birkikvæmi víðsvegar að af landinu sem gerð var við Keflavíkurflugvöll. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, er annar tveggja höfunda greinar um tilraunina sem komin er út í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Höfundarnir mæla með því að lögð verði áhersla á þau kvæmi sem stóðu sig best í þessari tilaun þegar rækta á birkiskóg í ófrjósömum jarðvegi Suðurnesja.

Greinin heitir á ensku Provenance variability in establishment of native downy birch in a 14-year trial in southwest Iceland. Höfundur ásamt Aðalsteini er Dennis A Riege, prófessor í skógvistfræði við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum.

Eins og segir í íslenskum útdrætti greinarinnar stendur ófrjósemi jarðvegs og sterkir hafvindar með saltákomu skógrækt fyrir þrifum á Reykjanesskaga. Árið 1998 var komið á fót samanburðartilraun við Keflavíkurflugvöll með 25 kvæmum af íslensku birki víðsvegar að af landinu. Markmiðið var að finna kvæmi sem best væru aðlöguð svæðinu. Borið var á trjáplönturnar í tilrauninni fyrstu árin eftir gróðursetningu.

Árið 2003 voru lúpínuplöntur gróðursettar innan um birkið. Fjórtán árum eftir gróðursetningu (2012) reyndist marktækur munur á vexti og lifun kvæmanna. Bæði hæð gróðursettra plantna og lifun þeirra tengdist breiddargráðu upprunastaðar. Engin tengsl voru á milli hæðar og lifunar annars vegar og lengdargráðu, hæðar yfir sjávarmáli og fjarlægðar frá tilraunastaðnum við Keflavíkurflugvöll hins vegar.

Sunnlensk kvæmi reyndust betur en kvæmi úr öðrum landshlutum og var hæð og lifun kvæmisins Þórsmörk best. Staðarkvæmi þrifust verr en önnur sunnlensk kvæmi. Þegar rækta á birkiskóg á ófrjósömum jarðvegi á Suðurnesjum, er mælt með því að leggja áherslu á þau kvæmi sem sýnt hafa besta frammistöðu í tilrauninni. Einnig er mælt með að bera á plöntur fyrstu ár eftir gróðursetningu og um leið að sá lúpínu.

Greinin er á ensku en með íslenskum útdrætti. Hana má finna á vef tímaritsins, ias.is, eða hlaða niður af meðfylgjandi hlekk:

Provenance variability in establishment of native downy birch in a 14-year trial in southwest Iceland

Frétt: Pétur Halldórsson