Nám og fræðsla er nauðsynlegur þáttur í öllu skógræktarstarfi. „Með þekkingu ræktum við skóg“ hefur verið yfirskrift á skógræktarráðstefnu og víst er að aukin þekking hefur skilað sér í betri skógum á Íslandi undanfarna áratugi. Fræðsla til fagfólks og almennings er mikilvægur þáttur í starfi Skógræktarinnar og ein af skyldum hennar. Leiðin út í skóg er grunnfræðsla sem sniðin er að þörfum eigenda lögbýla sem stunda skógrækt á jörðum sínum með stuðningi Skógræktarinnar. Þessi fræðsla er þó nægilega almenns eðlis til að henta öllum skógræktendum einnig. Lesið í skóginn er skógartengd fræðsla um fjöldamarga þætti, hvernig nýta megi skóga með útinámi í skólastarfi, skógarleiðsögn, upplifun í skógi og margt fleira. Skógræktin vinnur einnig að gerð stuttra myndbanda um ýmislegt sem tengist skógum og skógrækt til að styðja við annað fræðslu- og kennsluefni.