Eitt mesta samfellda skóglendi á Íslandi ásamt aðliggjandi skógum í Fnjóskadal

Almennt um skóginn

Þórðarstaðaskógur er í innanverðum Fnjóskadal austan ár. Eyðijarðirnar Belgsá og Bakkasel eru sunnan við Þórðarstaði og eru hlíðar þar einnig skógi vaxnar. Þessir skógar mynda ásamt Lundsskógi eitt mesta samfellda skóglendi á Íslandi. Fyrir nokkru var land einnig friðað á jörðinni Lundi sem tengir þetta skóglendi við Vaglaskóg. Því hillir undir að samfellt skóglendi verði í öllum austanverðum Fnjóskadal frá Hálsi í mynni Ljósavatnsskarðs um Vaglaskóg og inn úr.

Staðsetning og aðgengi

Hægt er að komast akandi í Þórðarstaðaskóg að norðan frá Vaglaskógi og Lundi en þá er nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. Þetta er líka skemmtileg leið til göngu, hjólreiða eða á hestum. Það sama gildir þegar komið er að sunnan yfir brú á Fnjóská við Illugastaði. Þaðan er einnig hægt að fara til suðurs um Belgsá og Bakkasel og áfram inn í Timburvalladal, einn þriggja afdala Fnjóskadals.

Aðstaða og afþreying

Um Þórðarstaðaskóg liggja þjónustuslóðir eða skógarvegir sem hægt er að ganga um. Að öðru leyti hefur ekkert verið gert í þágu ferðalanga en áhugavert að skoða fjölbreytilegt skóglendið, náttúruskóg í bland við ræktaðan nytjaskóg.

Saga skógarins

Skógræktin eignaðist Þórðarstaði árið 1945 og jarðirnar Belgsá og Bakkasel, sem komnar voru í eyði, ári seinna. Skógurinn í landi Þórðarstaða og Belgsár var friðaður 1946-1947 en Bakkaselsskógur er enn ófriðaður. Búskapur var áfram á Þórðarstöðum fram til 1995.

Trjárækt í skóginum

Stórvaxið birkiskóglendi er í Þórðarstaðaskógi en einnig gróðursettur skógur af lerki, rauðgreni og stafafuru sem dafnar vel. Frá því að Skógræktin tók við honum hefur birkiskógurinn verið nýttur til framleiðslu eldiviðar og smíðaviðar með svokallaðri stakfellingu, þ.e. fellingu eldri trjáa innan úr þannig að skógurinn standi áfram. Felldu trén endurnýja sig síðan með teinungi upp af stubbnum. Á þann hátt viðhelst skógurinn samfara nýtingu. Þetta er sjálfbær nýting sem gerir skógana einnig aðgengilegri til útvistar.

Einnig hefur verið gróðursett í hluta skógarins á Þórðarstöðumog grisjað í þeim gróðursettu reitum sem náð hafa tilteknum þroska.

Samningur um kolefnisbindingu

Árið 2013 var gerður samningur milli Landsvirkjunar og Skógræktarinnar um skógrækt á skóglausu svæði í landi Belgsár. Stærð svæðisins sem um ræðir er alls 49 ha og með þessu bindur Landsvirkjun í skógi hluta af því kolefni sem losnar vegna starfsemi fyrirtækisins. Kolefnisbinding og kolefnisforði skóganna, þar með talið í trjánum, botngróðri og jarðvegi, er eign Landsvirkjunar til 50 ára frá dagsetningu viðaukasamnings um lokaáfanga skógræktar á svæðinu. Að þeim tíma loknum rennur það eignarhald til Skógræktarinnar endurgjaldslaust, eins og segir í samningnum. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, mælir kolefnisbindingu í skóginum samkvæmt sérstökum ráðgjafarsamningi.

Annað áhugavert í skóginum

Í Þórðarstaðaskógi miðjum eru tóftir beitarhúsa og sunnar í skóginum er gerði hlaðið úr steinum. Á Belgsárhöfða eru menjar eftir rauðablástur, járnvinnslu úr mýrarrauða. Jarðfræði Fnjóskadals er einnig sérstök og í Þórðarstaðaskógi eru myndarlegir sandstallar sem mynduðust við það að lækir runnu út í stöðuvatn sem stóð uppi í dalnum á síðjökultíma þegar meginjökullinn í Eyjafirði stíflaði enn Dalsmynni og þar með Fnjóskadal.

Töluvert er um sveppi í skógum Fnjóskadals og víða berjaspretta, ekki síst hrútaber.