Vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi með gömlum og stórvöxnum trjám í þéttum skógi.

 

Almennt um skóginn

Vatnshornsskógur, sunnan við Skorradalsvatn innanvert, er sannkölluð náttúruperla. Hann er vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi með gömlum og stórvöxnum trjám í þéttum skógi.

Staðsetning og aðgengi

Vatnshornsskógur er í innanverðum Skorradal, sunnan Skorradalsvatns. Jeppafærir vegir liggja að honum og vegurinn að utan er að heita má fólksbílafær á sumrin ef farið er með gát. Séu gengnar Síldarmannagötur úr Hvalfirði er komið niður í Skorradal hjá Vatnshorni, rétt austan við Vatnshornsskóg.

Aðstaða og afþreying

Vatnshornsskógur er náttúruskógur og er reynt að gera sem minnst til að spilla þeirri stöðu. Þess vegna hafa hvorki verið lagðir stígar né gerðir áningarstaðir í skóginum. Fólki er frjálst að ganga um skóginn en þess er vænst að það taki aðeins myndir og skilji aðeins eftir fótspor.

Saga skógarins

Hluti skógarins gengur einnig undir nafninu Klausturskógur, eftir skógartekju Viðeyjarklausturs. Búskapur í grennd við skóginn hefur verið fremur lítill lengi vel og nú er hann alfriðaður innan girðingar sem umlykur stóran hluta Skorradals. Vatnshornsskógur hefur hvorki verið nytjaður til viðartekju né vetrarbeitar undanfarin 50-60 ár og sumarbeit sauðfjár hefur verið lítil.

Skógræktin og Skorradalshreppur unnu saman að því að kaupa jörðina Vatnshorn árið 1995 til að forða Vatnshornsskógi frá því að verða skipt upp í sumarhúsalóðir. Skógræktin lét reisa girðinguna sem nú friðar skóginn fyrir beit og lagði til að skógurinn yrði settur á fyrstu náttúruverndaráætlun umhverfisráðuneytisins árið 2004. Hinn 29. janúar 2009 var Vatnshornsskógur formlega lýstur friðland samkvæmt náttúruverndarlögum. Helsta markmið friðlýsingarinnar er að framvinda skógarins fái að halda áfram án inngripa þannig að með tímanum líkist skógurinn þeim skógum sem tóku á móti landnámsmönnum fyrir um meira en 1.100 árum. Vatnshornsskógur verður þannig ómetanleg uppspretta þekkingar á náttúrlegum birkiskógavistkerfum.

Suðaustan við Vatnshornsskóg er jörðin Bakkakot en þar er skógur sem einnig er í umsjá Skógræktarinnar.

Trjárækt í skóginum

Vatnshornsskógur er sannkölluð náttúruperla. Hann er vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi með gömlum og stórvöxnum trjám í þéttum skógi. Botngróður er mikill og fuglalíf við ósa Fitjár er afar fjölbreytt. Á svæðinu er að finna sjaldgæfar gróðurtegundir, m.a. fléttu eina sem aðeins hefur fundist á birkinu í Skorradal, deilitegund við flókakræðu sem kölluð er birkikræða (Alectoria sarmentosa ssp. sarmentosa).

Vatnshornsskógur hefur fengið að þróast að mestu óáreittur um talsvert langan tíma og er því farinn að fá ýmis einkenni frumskógar. Ferð um skóginn veitir þá upplifun að maður sé staddur í ósnortnum skógi en það er þó örlítil blekking. Vatnshornsskógur er, eins og flestir íslenskir skógar, vaxinn upp eftir að skógarhögg til eldiviðar lagðist af á 4.-5. áratug síðustu aldar.

Skógurinn er óvenjugóður birkiskógur. Í neðanverðri brekkunni eru víða allstórvaxin birkitré á vesturlenskan mælikvarða, eða allt að 6-7 m há. Skógarbotninn er gróskumikill og þar má finna burknabreiður sem er óvanalegt í íslenskum skógum en burknar eru meðal fyrstu plöntutegunda sem hverfa við teljandi beit.

Annað áhugavert á svæðinu

Í Skorradal er allmikil sumarhúsabyggð og svæðið vinsælt til útivistar. Á síðustu árum hefur fólk tekið upp á því að hjóla eða jafnvel skokka í kringum Skorradalsvatn og liggur leiðin þá um Vatnshornsskóg. Að hjóla eða skokka Skorradalshringinn er góð og heilsusöm leið til að verja deginum.