Fagráðstefna skógræktar 2023 verður haldin á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður „Skógrækt á tímum hamfarahlýnunar“.

Úr Tunguskógi í Skutulsfirði. Ljósmynd: Áskell ÞórissonÞetta er tveggja daga ráðstefna og er fyrri dagurinn helgaður þema hennar. Síðari dagurinn er vettvangur fjölbreyttra erinda og kynninga á málefnum sem snerta skógrækt, skógrannsóknir, skógtækni og skyld efni. Auglýst verður eftir erindum og veggspjöldum í byrjun nýs árs.

Dagskrá

Drög að dagskrá ráðstefnunnar eru í vinnslu og birtast væntanlega í byrjun febrúar ásamt upplýsingum um ráðstefnugjöld, gistingu og fleira.

Staðfest er að Halldór Þorgeirsson talar í upphafi ráðstefnunnar um hlutverk skógræktar á Íslandi í baráttunni við loftslagsbreytingar. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, flytur fyrirlestur sem hann semur ásamt Halldóri Björnssyni um loftslag framtíðar, ræktunarskilyrði og náttúruvá. Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar Skógræktarinnar, bregður upp stöðu skógræktar og bindingar kolefnis fram til 2050 og Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, ræðir um aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum og Brynja Hrafnkelsdóttir, skaðvaldasérfræðingur hjá Skógræktinni, um áhrif hlýnunar á skaðvalda í íslenskum skógum. Þá er gert ráð fyrir fyrirlestri um skógarskaða og aðlögun að loftslagsbreytingum í umsjón Hreins Óskarssonar, sviðstjóra þjóðskóga hjá Skógræktinni, og Hrefnu Jóhannesdóttur, sviðstjóra skógarþjónustu.

Eftir hádegi fyrri daginn tala Ólafur Eggertsson og Armelle Decaulne um trjávöxt og snjóflóðatíðni og jafnframt er þar á dagskrá svissneski vísindamaðurinn dr Peter Bebi sem stýrir CERC, rannsóknamiðstöð um loftslag, veðuröfgar og náttúruvá í Alpafjöllunum. Miðstöðin er angi af WSL-stofnuninni um snjó og ofanflóð og nýtur tveggja prófessorsstaða við SLF-háskólann í Zürich. Peter Bebi ætlar á Fagráðstefnu skógræktar að tala um skóga, brattlendi og ofanflóð en titillinn er ófrágenginn enn. Nú er einnig orðið ljóst að dr Jóhanna Gísladóttir flytur erindi með yfirskriftinni Aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga að náttúruvá á tímum loftlagsbreytinga.

Gert er ráð fyrir fleiri erindum um náttúruvá sem tengist loftslagsröskun og skógum á fyrri degi ráðstefnunnar en síðari daginn verða fjölbreytt erindi um skógfræðileg og skógtæknileg efni.

Skráning

Um mánaðamótin janúar-febrúar verður óskað eftir erindum og veggspjöldum á ráðstefnuna og um það leyti er gert ráð fyrir að tilkynna megi um ráðstefnugjöld og annað sem þarf til að skráning á ráðstefnuna geti hafist.

Um ráðstefnuna

Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands.

Ráðstefnan hleypur til milli landshluta. Síðast var hún haldin á Hótel Geysi í Haukadal 2022 en í Vestfirðingafjórðungi fór hún síðast fram árið 2016 og þá á Patreksfirði.