Í Haukadal í Biskupstungum er kirkja reist 1938, starfsmannahús Skógræktarinnar reist 1981 og snyrtingar sem komið var upp árið 2013

Haukadalskirkja

 • Eigandi: Skógræktin
 • Staður: Haukadalur Biskupstungum
 • Sveitarfélag: Bláskógabyggð
 • Byggingarár: Upphafleg bygging frá 1842-1843. Reist í núverandi mynd 1938
 • Stærð: Um 45,2 m²
 • Skráning og myndir: September 2013

Lýsing: Fyrsta kirkjan í Haukadal mun hafa verið byggð árið 1030. Kirkjan sem nú stendur var upphaflega reist á árunum 1842‒43 en var rifin 1939 og endurbyggð á steyptum grunni. Endurbyggingin var kostuð með gjafafé frá Kristian Kirk, dönskum manni sem gaf Skógrækt ríkisins jörðina Haukadal 1940. Þá var kirkjuskipið lengt og gluggum fjölgað. Altaristafla, altari, bekkir og fleira var endurnýjað. Ásmundur Sveinsson skar altaristöfluna út í perutré og sýnir hún krossfestinguna. Kirkjan á silfurkaleik með patínu, altarisstjaka úr kopar og ljósahjálm. Haukadalskirkja er nú sóknarkirkja í Haukadal en heyrir undir Skálholt. Viðhald og endurbætur hafa verið kostaðar af Haukadalssókn.

Kirkjan í Haukadal er stílhrein og falleg. Hún tekur um 85 manns í sæti

Haukadalskirkja um aldamótin 1900Haukadalskirkja 2014

 

Starfsmannahús í Haukadal

 • Eigandi: Skógræktin
 • Staður: Haukadalur Biskupstungum
 • Sveitarfélag: Bláskógabyggð
 • Byggingarár: 1981
 • Stærð: Um 128,6 m²,  399m³
 • Skráning og myndir: September 2013

Lýsing: Starfsmannahúsið í Haukadal er svokallað S.G.-einingahús, reist á steyptum grunni. Húsið er klætt með standandi borðaklæðningu og stórum óskiptum gluggum. Þakið er með lágu bárujárnsklæddu risi. Húsinu er skipt í fimm herbergi, rúmgóða setustofu, baðherbergi, þurrkherbergi og eldhús. Gistirými er fyrir allt að 12 starfsmenn í húsinu. Húsinu er vel við haldið og það fellur vel að skógivöxnu landslagi Haukadals. Starfsmannahúsið er hitað upp með heitu vatni en kalt vatn úr vatnsbóli í Austmannabrekku er hitað upp í hver sem kallast Marteinslaug og leitt í húsið.

Starfsmannahúsið í Haukadal